Fara í efni

Breiðfylking launafólks gegn stríði



Í morgun komu forsvarsmenn allra helstu samtaka launafólks og samtakanna Átaks gegn stríði saman til að beina því til launafólks í landinu að efna til umræðu á morgun á öllum vinnustöðum landsins um yfirvofandi hernaðarárás Bandaríkjanna og Breta á Írak. Þetta er í samræmi við áskoranir verkalýðshreyfingarinnar um heim allan og eru skýr skilaboð til stjórnvalda um að þeim beri að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hamla gegn stríði. Með ákvörðun allra helstu samtaka launafólks á Íslandi um að standa að sameiginlegri fordæmingu á stríðsrekstri Bandaríkjanna og fylgifiska þeirra er ljóst að í landinu er að myndast breiðfylking gegn hernaðarofbeldinu. Ef fer fram sem horfir, að bandarísk stjórnvöld geri alvöru úr hótunum sínum, þá er þetta í mínum huga upphaf öflugrar og víðtækrar baráttu. Í ályktuninni er hvatt til fjöldaþátttöku í þeirri baráttu sem framundan er gegn fyrirhuguðu stríði. Hér á eftir fer yfirlýsingin sem verkalýðshreyfingin og samtökin Átak gegn stríði kynntu á fréttamannafundinum í morgun undir fyrirsögninni Áskorun:

"Alþýðusamband Íslands, BSRB, BHM, Kennarasamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Samband íslenskra bankamanna, Félag bókagerðarmanna og Átak gegn stríði hvetja ríkisstjórn Íslands til að beita þeim áhrifum sem Ísland hefur á alþjóðavettvangi til að koma í veg fyrir stríðsátök. Ljóst er að það verða einkum óbreyttir og saklausir borgarar í Írak sem munu láta lífið eða örkumlast í tugþúsundatali komi til stríðs. 

Ofangreind samtök hvetja íslenskt launafólk til að nota þetta tilefni til umræðna á vinnustöðum í hádeginu þann 14. mars um það hættuástand sem skapast hefur vegna stríðsáforma Bandaríkjamanna. Ennfremur hvetja þau til fjöldaþátttöku í þeirri baráttu sem framundan er gegn fyrirhuguðu stríði. Þetta er í samræmi við áskorun Evrópusamtaka launafólks – ETUC – en launafólk um alla Evrópu ætlar að grípa til mótmæla gegn fyrirhuguðum stríðsrekstri í Írak, sem er í trássi við samþykktir Sameinuðu þjóðanna."