Fara í efni

BRÁST EFTIRLIT OG EF SVO, HVERJUM?

Stjórnskipunarnefnd
Stjórnskipunarnefnd

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hélt annan opinn fund sinn um rannsóknarskýrslu Alþingis  um Íbúðalánasjóð. Fyrir nefndina komu Páll Gunnar Pálsson, sem gegndi framkvæmdastjórastöðu Fjármálaeftirlitsins á þeim árum sem rannsóknin tekur helst til, Sigurður Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi, Jón Sigurðsson, fyrrum seðlabankastjóri , og Halldór Ó. Sigurðsson, framkvæmdastjóri  Ríkiskaupa og Guðmundur I Guðmundsson, fyrrverandi  yfirlögfræðingur  Ríkiskaupa.
Hvað Pál, Sigurð og Jón áhrærir voru þeir mjög gagnrýnir á rannsóknarskýrsluna og kváðu furðu sæta að hafa aldrei verið boðaðir á fund rannsakenda en síðan bornir þungum sökum sem þeir sögðust geta hrakið lið fyrir lið.
Fulltrúar  Ríkiskaupa voru hins vegar fyrst og fremst að upplýsa nefndina um hvernig staðið var að útboðum á verkefnum sem höfnuðu hjá fyrirtækinu Fjárvaka.
Í rannsóknarskýrslunni kemur fram mjög hörð gagnrýni á stjórn ÍLS sem og á eftirlitsstofnanir þjóðfélagsins fyrir að hafa ekki reynt að stemma stigu við útlánum ÍLS, einkum á árunum 2005 og 6 en með andvaraleysi sínu hafi þeir brugðist þjóð og þingi. Þessu hafna fulltrúar eftirlitsstofnana sem áður segir og hafa þeir jafnframt sett fram mjög harða gagnrýni á hendur þeim sem stóðu að rannsóknarskýrslunni. 
Þá má geta þess að á hinum opna fundi var spurt í gagnstæða átt: Brugðust eftirlitsstofnanir hugsanlega þjóð og þingi með því að reyna ekki að stemma stigu við útlánaþenslu bankanna sem juku útlán sín úr 800 milljónum haustið 2003 í 4800 milljónir 2008? Hefði átt að láta þá átölulaust granda Íbúðalánasjóði og gleypa húsnæðiskerfið í einum bita eins og þeir vildu og reyndu?
Þessarar spurningar spurði ég á fundinum.
Fundirnir voru tveir, annar fyrir hádegi með FME og Ríkisendurskoðun og síðan eftir hádegið  með Seðlabanka og Ríkisendurskoðun.
Fundirnir eru hér: http://www.althingi.is/altext/upptokur/nefndafundur/?faerslunr=22
og hér: http://www.althingi.is/altext/upptokur/nefndafundur/?faerslunr=23