Fara í efni

BORGAR ÞUNGA-IÐNAÐURINN BRÚSANN?

Sæll Ögmundur.

Þakka þér fyrir tíu staðreynda grein um Icesave. Allt er þetta satt og rétt og vel orðað. Icesave er framtíðarvandi í þeim skilningi að þegar búið er að ganga frá málinu þarf að huga að því að hvernig á að greiða þennan reikning eins og aðra. því þessar nýju staðreyndir:

1) það er staðreynd að vextir af Icesave svara á hverju ári til kostnaðar við nýtt þjóðarsjúkrahúss

2) það er staðreynd að hér þarf að streyma inn í hagkerfið gjaldeyrir til að geta greitt reikninga framtíðarinnar, sbr. yfirlýsingar Flannagans frá AGS

3) það er staðreynd að hér þarf að verða gríðarleg atvinnuuppbygging a la Kína eða Indland til að geta aflað alls þess gjaldeyris til að geta greitt

4) það er staðreynd að beislun fallvatna og nýting jarðorku eru einu auðlindirnar sem við getum gengið á til að byggja upp í samræmi við skuldirnar sem við höfum undirgengist

5) það er staðreynd að VG samtökin eru andvíg frekari uppbyggingu orkuvera og stóriðju

6) það er staðreynd að VG samtökin beita sér fyrir norrænu velferðarkerfi

7) það er staðreynd að norrænt velferðarkerfi er dýrt þótt það skili miklu til þjóðfélagsþegnanna

8) það er staðreynd að við megum ekki missa fólk úr landi, eins og Flannagan frá AGS myndi gera væri hann hér búandi.

Nú spyr ég í framhaldi af þessum viðbótar staðreyndum: Hefur verið rætt hjá VG samtökunum hvernig á að greiða alla þessa reikninga? Ætla menn að fara hina stalínisku leið og byggja upp þungaiðnað sem krefst mikillar orku sem beisla þarf? Hafa menn í VG samtökunum hugsað einmitt þetta í tengslum við skuldbindingar sem við vildum helst undirgangast í loftslagsmálum? Hafa menn í VG samtökunum hugsað útí þann gífurlega þrýsting, sem verið að er búa til með því að undirgangast allar skuldirnar, þrýsting sem gengur út á að gjörnýta auðlindir þjóðarinnar? Eða ætla menn að sjá til og treysta á Guð og lukkuna? Fátækt er vond, ekki góð, og fullveldið selja menn ekki. Ég held sjálf að vandræðin sem við erum í ætti að ræða í tengslum við sjálft fullveldið. Mér finnst sjálfri að VG samtökin og Samfylkingin þurfi að láta kíkja á sjónina hjá sér. Það gæti nefnilega farið svo að norræna velferðaríkið breyttist í rúmensk lífskjör, þ.e.a.s. ef þið virkið ekki hverja einustu lækjarsprænu, laðið ekki að erlenda fjárfesta i þungaiðnaði og raunar í öllum greinum, yfirfyllið ekki landið af erlendum ferðamönnum og vindið ekki úr þjóðinni allt sem hún getur af sér gefið. Ekki missa sjónar af því augljósa. Við erum bara 300 þúsund, jafnvel þótt nokkrum tugum manna hafi tekist að stela af útlendingum og eigin þjóð 10.000 milljarða.
Ólína