Fara í efni

BLÁMANN

Eitt sinn var hér frábær fýr,
svo fagurblár var hann,
hann sagði okkur ævintýr
um annan bláan mann.

Og Blámann hét sá blái sveinn
því blár var litur hans,
hann vildi hafa völdin einn
í veröld Skaparans.

Hann átti fagurbláan bíl
og blátt var húsið hátt,
já, þar var allt í einum stíl,
einfaldlega - blátt.

Er sá hann fjöllin fagurblá
og fagran himingeim
þá vildi Blámann frakkur fá
að fegra þennan heim.

Því hann gat séð í hendi sér
að hér er ósköp fátt
sem teldist verra en það er
ef það væri blátt.

Hann horfði yfir hafið blátt
og hugfanginn hann sá
við augum blasa heiðið hátt
og himnesk fjöll svo blá.

Hann dáði þessi fögru fjöll,
hann fagran himinn sá,
hann vild' að heimsins eilífð öll
yrði fagurblá.

Hér starði hann á stórt og smátt
og stöðugt að því vann
en allt í heimi yrði blátt,
það einlægt þráði hann.

Hann byrjaði að breyta til
með bláum lit í dós
og vandlega á vegg og þil
sem vatni litnum jós.

Hann hellti lit á heitt og kalt,
á hús og stétt og garð,
svo málaði hann yfir allt
sem á hans vegi varð.

Í átök lét hann allt sitt vit
og eftir mikið streð
var nánast allt í einum lit
sem augun gátu séð.

Og loks er flest var bara blátt
gat Blámann sest á stól,
þá sá hann þar í austur átt
að upp var komin sól.

Er nótt var liðin ágæt ein
þá aumur Blámann sá
að eldheit sólin á hann skein
og ekki var hún blá.

Hann sá að reis hið rauða glit,
þess ríkan bar það vott
að útlit heims í einum lit
mun aldrei teljast gott.

Hann sá hve mjög var mikilsvert
að meta þessa sjón,
hann sá að heimskan getur gert
úr góðum mönnum flón.

Er Blámann leit í austur átt
hann einfaldlega sá
að sennilega sæist fátt
ef sólin væri blá.

Og Blámann sá sem betur fer
að best mun veröld skýrð
í mannsins huga ef hún er
í allra lita dýrð.

Með miklu afli hugðist hann
nú hreinsa vegg og þil,
hann fór af stað og verk sín vann,
hann vildi laga til.

Af mold og snjó og brekkubrún
hann bláa litinn strauk,
hann varð að þrífa völl og tún
og verki brátt hann lauk.

Í heimi allt skal vera vænt
og virða hér þú átt:
rautt og svart og grátt og grænt
og gult og hvítt og blátt.

Litum heimsins ætlað er
að eiga jafnan þátt,
því útlit hluta enginn sér
ef allt er málað blátt.

Já, þeir sem hérna hafa vit,
hljóta að skilja enn
að veröld öll í einum lit
er ekki fyrir menn.

 

                                      Kristján Hreinsson, skáld