Fara í efni

Blair opnar pyngjur almennings fyrir fjárfestum

Miklar deilur hafa að nýju blossað upp í Verkamannaflokknum í Bretlandi út af því sem velferðarsinnarnir í flokknum kalla "ástarsamband Nýja Verkamannaflokksins við einkageirann". Sem kunnugt er reyna fjárfestar um víða veröld að þröngva sér inn í velferðarþjónustuna. Þeir vita sem er að þar eru unnin störf sem verða nauðsynleg um ókomna framtíð og ef vel er haldið á spöðunum af þeirra hálfu má hafa þaðan góðan hagnað. Af þessu hafa Íslendingar þegar haft nasasjón.

Tilvísun í "Nýja Verkamannaflokkinn" skírskotar til markaðssinnanna í flokknum en fremstur í þeim hópi fer forsætisráðherrann Tony Blair. Hann hefur nú lýst því yfir að heilbrigðisþjónustan breska verði opnuð markaðskröftunum í ríkari mæli en áður hefur gerst. Þetta tilkynnti hann á fundi í Downing stræti á þriðjudag með fulltrúum áhugasamra fyrirtækja, víðs vegar að úr heiminum.

Hægri kratar harðari en Thatcher

Bresku hægri kratarnir hafa gengið eins hart fram – í sumum tilvikum lengra – og Íhaldsflokkurinn undir Thatcher í að markaðsvæða samfélagsþjónustuna. Þetta hafa þeir gert þrátt fyrir að kannanir sem gerðar hafa verið á vegum verkalýðshreyfingarinnar og óháðra samtaka sýni að markaðsvæðing þjónustunnar hafi reynst greiðandanum – hvort sem það er skattborgarinn eða notandi þjónustunnar -  miklu dýrari en fyrra fyrirkomulag og iðulega leitt til lakari þjónustu. Breskir velferðarsinnar hafa viljað fara aðrar leiðir til að bæta heilbrigðisþjónustuna og er lítið um það gefið að markaðsvæðing þjónustunnar sé kölluð "umbætur (reform)". Það hugtak tekur Blair sér engu að síður alltaf í munn þegar hann opnar markaðsöflunum leið niður í pyngjur almennings. 

Ganga erinda fjármagnisins

En hvers vegna taka menn ekki alvarlega niðurstöður kannana sem sýna, þannig að ekki verður um villst, að einkavæðingin er dýrari og óhagkvæmari? Svarið er einfalt. Þessir aðilar ganga erinda hagsmunaaðila á markaði, það er deginum ljósara. Þetta er hagsmunastríð og þeir stilla sér upp með fjárfestum sem vilja maka krókinn í heilbrigðisþjónustunni og í annarri grunnþjónustu velferðarsamfélagsins. Það er hins vegar almenningur sem kemur til með að blæða. Það er sorglegt að horfa upp á niðurrif bresku almannaþjónustunnar og vaxandi misskiptingu í landinu. Könnun sem nýlega var birt sýndi að misskipting í Bretlandi er orðin meiri en hún var á Thatcherttímanum. Þótti mönnum þá nóg um. Meðfylgjandi eru vefslóðir þar sem nálgast má efni sem vísað var til hér að framan.

http://society.guardian.co.uk/nhsplan/0,7995,392018,00.html

 

http://society.guardian.co.uk/nhsplan/story/0,7991,955353,00.html