Fara í efni

NÝR GJALDMIÐILL

Vandræði okkar Íslendinga með krónuna okkar ástæru ætla engan enda að taka. Þau eru af tvennum toga. Annars vegar heldur hún illa sjó gagnvart öðrum gjaldmiðlum og hins vegar virðist hún þurfa hærri vexti til að hægt sé að stunda lánastarfsemi. Bent hefur verið á, að í raun séu tveir gjaldmiðlar í gangi í landinu, annars vegar króna og
hins vegar verðtryggð króna. Það er afleitt ástand að þurfa að vinna með tvöfalt kerfi lögeyris í landinu. Oft er talað um sanngirni, réttlæti, ótta við að lána, tap lífeyrissjóða, sem röksemd fyrir því að lán skuli vera verðtryggð. Og þá er gjarnan vitnað í árin eftir stríð og fyrir verðtryggingu. En verðtryggingin virðist ekki hafa leyst nein mál. Hún hefur byggt inn ný vandamál, sem eru ekki öll komin fram. Verðtrygging er eiginlega bara góð þegar hún er óþörf. Um leið og óðaverðbólguástand verður, gerir verðtryggin ill verra. Þá leiðir hún til eignaupptöku og fjöldagjaldþrota og þeir sem hún átti að vernda tapa líka.

Þegar ég var að alast upp í Reykjavík, á sjötta áratugnum, var mikill uppgangur. Þá var líka mikil verðbólga, þó ekki eins mikil og í lok sjöunda áratugarins og í byrjun þess áttunda. Þá fékk fólk lán til að kaupa húsnæði, lán sem urðu að engu í mikilli verðbólgu, en lífeyrissjóðir þessa sama fólks töpuðu. Þannig að þegar upp var staðið, þá græddi enginn nettó og enginn tapaði nettó, ef horft var á hagkerfið með makró-gleraugum. Vandinn var sá að ekki sátu allir við sama borð, sumir voru með ríkistryggðan lífeyri, sumir fengu meiri lán en aðrir og svo framvegis. Þannig að þó svo niðurstaðan hafi verið nettó í samfélagsreikningnum, þá var hann það ekki ef skoðuð voru kjör manna á einstaklingsgrunni.

Sama staða er uppi núna, en hefur snúist við. Lífeyririnn er tryggður en lífeyrisgreiðandinn stefnir í gjaldþrot. Og ekki er það betra. Vandamálinu hefur verið snúið á haus.

Fyrir daga verðtryggingar var steinsteypa upphaf og endir alls. Ef þú áttir fasteign, þá áttir þú peninga. Fasteignir voru í raun peningafóturinn. Þótt eldri kynslóðin hefði þurft að horfa á lífeyri sinn rýrna, átti hún skuldlausar fasteignir. Og í þessu er lykillinn að nýju kerfi fólginn. Við þurfum að fasteignatengja krónuna aftur. Ástæðan er sú að eina lánið sem sérhver einstaklingur þarf og á að þurfa taka á lífsleiðinni er fasteignalán. Það er jákvætt ef fólk á
íbúð. Og það eru bestu lán lífeyrissjóða.

Við eigum þess vegna að taka upp nýja vísitölu: Fasteignavísitölu. Sú vísitala á að vera eina leyfilega verðtryggingin. Þannig fasteignatryggjum við krónuna. Þannig tryggjum við að krónan verður einungis háð innlendum sveiflum en taki ekki mið af breytingum á verðlagi erlendis, nema á þann hátt sem hagkerfi okkar ber.

Á það hefur verið bent að verðtrygging kunni að vera ólögleg í EES. Þar er bannað að selja fólki lán sem tengdar eru afleiðum eða ófyrirsjánlegum verðsveiflum á hlutum alls ótengdum þeim veruleika sem
lánin eru tekin í. Ennfremur er óheimilt að setja skilmála sem eru flóknir og ógagnsæir. Verðtrygging einsog hún er praktíseruð á Íslandi er háð verði á olíu, kaffi og svínamögum. Hún er í raun heimsverðtrygging. Verðbreytingar (les verðhækkanir) á erlendum mörkuðum, sem hafa lítið að gera með sveiflur í íslenska hagkerfinu, skila sér samviskusamlega til íslenskra lánþega.

Menn hafa sagt: "Ef ég lána þér andvirði mjólkurlítra, þá vil ég fá andvirði mjólkurlítrans tilbaka". Þetta er allt gott og blessað og réttlátt og skynsamlegt - ef það endar ekki með því að setja samfélagið á hliðina. Það er líka hægt að segja með réttu: Lánveitandinn á að taka áhættu, ætli hann sér að græða á láninu.

Með fasteignavísitölu, leysist málið. Ef fasteignalán fær að sveiflast með fasteignavísitölu eru lántaki og lánveitandi í raun báðir varðir fyrir verðbreytingum. Lánveitandi lánar andvirði eins fermeters af fasteign í krónum og fær tilbaka andvirði eins fermeters af fasteign í krónum auk vaxta. Verði fasteignabóla og lántaki getur ekki staðið undir afborgunum, þá getur hann selt og átt samt sem áður meira eftir af peningum en hann átti áður en hann tók lánið.

Með þessu móti getum við náð tvennu fram, haldið krónunni og leyft henni að dúa á heimsmarkaðnum, tryggt jafnvægi á milli lánveitanda og lántaka og komið fæti undir krónuna sem á sér stoð í raunverulegum þörfum einstaklinga og samfélags.

Björn Jónasson