Fara í efni

BJÖRN INGI SLAPPUR OG DAGUR AÐ KVELDI KOMINN

Ungliðahreyfingar SFR og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar stóðu fyrir stórgóðri dagskrá í BSRB-húsinu í gærkvöldi. Þar var skemmtileg blanda af rokki og pólitík. Allir auglýstir dagskrárliðir mættu á svæðið nema tveir; borgarstjóraefnin Björn Ingi Hrafnsson, leiðtogi Framsóknar, og Dagur B. Eggertsson, efsti maður á lista Samfylkingarinnar. En skörð þessara forfölluðu heiðursmanna og rúmlega það fylltu þær Marsibil Sæmundsdóttir frá exbé og Oddný Sturludóttir frá Samfylkingu.

Ungir og glæsilegir fulltrúar framboðanna fimm í Reykjavík gerðu grein fyrir ýmsum stefnumálum flokka sinna. Stóðu sig allir vel en sérstaklega fannst mér ánægjulegt að hlusta á málflutning Bolla Thoroddsen frá Sjálfstæðisflokki og Katrínar Jakobsdóttur varaformanns Vinstri grænna. Fram kom m.a. í máli Bolla hvernig uppeldisaðstæður geta stuðlað að óæskilegri pólitískri mótun en hann ólst t.d. upp við þau afarkjör að vera skikkaður til að blása linnulítið í rauðar blöðrur á flokkskrifstofum A-flokkanna sálugu, fyrst Alþýðubandalagsins og síðan Alþýðuflokksins. Er vonandi að Bolli fái sem fyrst nóg af blæstrinum í bláu blöðrurnar í Valhöll og snúi sem fyrst aftur og heim í heiðardalinn.

Að framsögum loknum var svo gefinn kostur á fyrirspurnum úr sal. Fjarvera borgarstjóraefnanna tveggja kom nokkuð á óvart og spurði einn fundargesta hvar Björn Ingi væri eiginlega niðurkominn, kvaðst enda mættur á staðinn til þess að fá nánari útlistanir á boðuðu skautasvelli Framsóknarforingjans á Perlunni. Marsibil Sæmundsdóttir svaraði því til fyrir hönd félaga Björns Inga að hann hefði ekki komist, hann væri “slappur”. Með fullri virðingu fyrir Marsibil, sem stóð sig annars með stakri prýði, er það í sjálfu sér klén skýring að segja það sem allir vita - og kannski var það líka dálítið óvarlegt hjá henni að orða fjarvistarskýringuna á þennan vægast sagt tvíræða hátt. Að sjálfsögðu gefur það augaleið að forystumaður framboðs, sem getur leyft sér að auglýsa í gríð og erg í öllum fjölmiðlum fyrir tugi milljóna króna en mælist svo ekki með nema þriggja prósenta fylgi eftir allt áreitið – ja, hann hlýtur einfaldlega að vera að minnsta kosti “slappur”.

En að öllum augljósum slappleika slepptum er vert að spyrja; hvar voru þeir félagarnir Björn Ingi og Dagur B. Eggertsson sem boðað höfðu komu sína á fundinn? Ég hef fyrir því nokkuð traustar heimildir að þeir hafi báðir legið yfir sjónvarpinu og horft á viðureign Arsenal og Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. Þeir hafa væntanlega talið sig sjá betri sóknarfæri þar en í höfuðstöðvum BSRB. Mér hins vegar fannst þessari kvöldstund með ungu og áhugasömu fólki í verkalýðshreyfingunni vel varið og vonandi sýna stéttarfélög enn frekara frumkvæði á þessa sviði í framtíðinni. Kjarabarátta er í eðli sínu pólitísk og rokkið hristir oftar en ekki ærlega upp í hugum fólks. Allt voru þetta hinar bestu hljómsveitir sem þarna léku listir sínar en fyrir mínn smekk voru “Rassarnir” ótvíræðar stjörnur kvöldsins; kraftmiklir og þar á ofan skemmtilega pólitískir.
Helgi Þ.

Heill og sæll Helgi og þakka þér fyrir bréfið. Ég verð þó að benda þér á að í því varð þér nokkuð á í messunni því svo vill til að fyrir einskæra tilviljun veit ég að þínar "traustu heimildir" eru ekki traustari en svo að Dagur B. Eggertsson átti ekki kost á því af óviðráðanlegum ástæðum að sækja fundinn sem þú gerir að umræðuefni. Hver veit nema hið sama eigi við um Björn Inga. Stjórnmálamenn hafa leyfi til að "vera slappir", þ.e., fá flensu eins og aðrir. Og fólk með flensu má þess vegna horfa á fótbolta.
Kveðja,
Ögmundur