Fara í efni

BARN SÍNS TÍMA?

Sæll Ögmundur.
Ég vildi vita hvort þessar verkfallsaðgerðir séu ábyrgar í þínum huga? Fari svo að verkfallshrina hefjist, er réttlætanlegt að taka mikilvægar stofnanir eins og heilbrigðisstofnanir og ferðaþjónustu í gíslingu með þessum hætti? Er ekki þörf á einhverri samfélagslegri ábyrgð þar sem menn hugsa aðeins lengra en eigið skinn? Ég hugsa að samfélagslegt tap hljóti að hlaupa á milljörðum sem kemur til af verkföllum. Nú vil ég heldur ekki álasa launþegum sem telja sig eiga rétt á hækkuðu kaupi, en hugsanlega er þessi baráttuaðferð barn síns tíma og þörf á nýrri nálgun í kjarabaráttu, ekki þessi frumskógarlögmál þar sem menn taka allt og alla í gíslingu og allt logar í öfund og rifrildi ... þetta eru bara vangaveltur og gaman væri að heyra þína skoðun þar sem þú hefur mikla reynslu af kjaramálum,
kveðja,
Gunnar

Sæll Gunnar,
Verkföll eiga að byggja á réttlátum kröfum. Ég hef samúð með verkföllum þeirra sem búa við bágborin kjör. Yfirleitt brjótast verkföll út þegar ekki hefur lengi verið hlustað á kröfur launafólks og þær virtar að vettugi. Það eru slík vinnubrögð sem eru úrelt. Um kjaramálin almennt og þar með kajrabaráttuna og verkföll hef ég oft skrifað, þar á meðal sl. sumar og læt ég fylgja meðfulgjandi slóð: https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/sammala-verkalydshreyfingunni-um-lagmarkslaun 
Kv.,
Ögmundur