Fara í efni

Bankarnir vilja fjölga milliliðum

Alveg eru þeir stórfenglegir hjá bönkunum þessa dagana. Þeir segjast vilja fá inn til sín umsýslukerfið fyrir húsbréfin. Íbúðalánasjóður á að verða "heildsala" sagði talsmaður fjármálastofnana, Guðjón Rúnarsson, í viðtalsþætti Arnþrúðar Karlsdóttur á Útvarpi Sögu. Þetta yrði miklu hagkvæmara fyrir lántakandann sagði hann ennfremur. Allt einfaldara og betra og kjörin hagstæðari. Talsmenn bankanna flagga nú ákaft skýrslum frá Seðlabanka, Hagfræðideild HÍ og eigin greiningardeildum. Þar er varað við því að bæta húsnæðiskjörin!  Þá sé voðinn vís: Aukin eftirspurn eftir lánsfjármagni með tilheyrandi þenslu. Betra sé að viðhalda núverandi kerfi (þar sem lántakandinn fær minna hlutfall lánað frá Íbúðalánasjóði á hagstæðari kjörum en nú eru tillögur uppi um) og þarf þess vegna að leita um afganginn til bankanna á mun hærri vöxtum. Og röksemdafærslan heldur áfram. Hvers vegna ætti að vera rétt að viðhalda þessu kerfi? Jú, væntanlega vegna þess að það er íþyngjandi og letur þess vegna til lántöku. Eitthvað er þetta nú mótsagnakennt. Bankarnir segjast geta boðið upp á ódýrara og hagkvæmara kerfi fyrir lántakandann en um leið er það helsta gagnrýnin á Íbúðalánasjóð að hann ætli að bjóða upp á alltof hagstæð kjör!
En hvers vegna ættu húsnæðiskaupendur að vera ginkeyptir fyrir lausn bankakerfisins? Það ættu þeir að sjálfsögðu alls ekki að vera. Valkostur bankanna yrði þeim óhagstæðari. Hvað skýrir afstöðu bankanna? Þeir vilja aukinn bisniss. Því hagstæðari lán frá Íbúðalánasjóði þeim mun minni möguleikar að bjóða upp á dýrari lán í bönkum. Og ef svo illa fer að ríkisstjórnin leggur ekki þennan illa Íbúðalánasjóð niður þá er varakrafa bankanna að hann  verði skorinn niður við trog, gerður að heildsölu en bankarnir annist öll viðskiptin og fái hagnaðinn af þeirri umsýslu.  Hvers vegna ættum við að vilja gera Íbúðalánasjóð að heildsölu og bankana að útsölustöðum? Það ættum við alls ekki að vilja. Ég sem hélt að nútíminn gengi út á að fækka milliliðum.