Fara í efni

Atvinnuátak í stað liðugra hnjáliða

Í kosningastefnu VG er sérstök áhersla lögð á atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Það gerum við vegna þess að fyrirsjáanlegt er, að fyrr eða síðar, hverfur erlendur her héðan af landi brott. Bæði er það æskilegt að svo verði en einnig stefnir augljóslega í þetta hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Í stað þess að horfast í augu við þessar staðreyndir klifar Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra á nauðsyn þess að ganga á fund Bandaríkjaforseta með bænaskjal um áframhaldandi veru herliðsins. Í Fréttablaðinu í gær er orðrétt haft eftir Halldóri: " Það er ekki af neinni gamansemi sem ég lýsti því yfir að forsætisráðherra í næstu ríkisstjórn yrði að eiga fund með Bandaríkjaforseta sem allra fyrst."

Halldór gæti vel hugsað sér forsætisráðherrastólinn sem kunnugt er og eflaust telur hann sig eiga inni greiða hjá Bush og félögum. Íslendingar þurfa hins vegar á öðru að halda en mönnum sem telja sig vera liðuga í hnjáliðunum gagnvart Bandaríkjastjórn. Íslendingar eiga að koma fram af reisn gangvart erlendum þjóðum, þar með talið Bandaríkjamönnum og það er engum greiði gerður að halda í tálsýnina um her hér á landi til eilífðarnóns. Hvorki er það eftirsóknarverð framtíðarsýn né byggir sú sýn á raunsæi. Vinstrihreyfingin grænt framboð hvetur til fyrirhyggju. Þess vegna leggjum við sérstaka áherslu á uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum.