Fara í efni

Ásmundur og sparigrísinn

Einhver skemmtilegasti morgunverðarfundur sem ég hef lengi sótt var haldinn í morgun á Grand Hótel í Reykjavík á vegum Tryggingastofnunar ríkisins. Ásmundur Stefánsson, ríkissáttasemjari, tróð upp nánast eins og poppstjarna við góðar undirtektir. Fagnaðarerindi Ásmundar var þvert á það sem legið hefur í loftinu um framtíð aldraðra. Samkvæmt útreikningum hans yrðu þeir ekki baggi á samfélaginu. Öðru nær! Framtíð aldraðra er björt í framtíðarboðskap Ásmundar Stefánssonar. Þessu veldur lífeyriskerfi Íslendinga sem byggir á kröftugri uppbyggingu lífeyrissjóða. Ömmur mínar báðar bjuggu hjá börnum sínum, sagði Ásmundur, þær áttu ekki annarra kosta völ. Nú væri öldin hins vegar að verða önnur. Eldri kynslóðin væri að öðlast efnahagslegt sjálfstæði. Aldrað fólk á lífeyri verður litlu ver sett en vinnandi fólk eftir þrjá fjóra áratugi, sagði Ásmundur. Svo miklar væru greiðslur inn í sameignarlífeyrissjóði og séreignarsjóði. Þá er þess að geta að eignamyndun er mikil á Íslandi og arfur er farinn að skipta máli fyrir þá sem eru að komast á lífeyrisaldurinn. Og Ásmundur reiknaði áfram. Nú væru aldraðir háðir stuðningi skattgreiðenda. Í framtíðinni yrðu þeir skattgreiðendur og borguðu til samfélagsins umfram þá þjónustu sem þeir fengju!
En Ásmundur gat ekki látið staðar numið í þessari sigurgöngu eldri kynslóðarinnar. Aldraðir yrðu óháðir efnahagssveiflum framtíðarinnar! Það var á þessum punkti sem ég fór að efast, jafnvel þótt ég væri Ásmundi sammála um margt. En þarna tel ég hann vera á hálum ís. Lífeyrissjóðir eru nefnilega ekki óháðir hagsveiflum.

Breytt aldurssamsetning – vandinn sá sami og fyrr

Fyrir nokkrum árum var mikil umræða bæði hér á landi og víða um heim um breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar og þjóðanna. Menn höfðu áhyggjur af því að vinnandi fólki færi fækkandi, öldruðum fjölgandi og spurning hvort verðmætasköpun yrði nóg til að rísa undir öllu bákninu, það er að segja með góðum lífskjörum fyrir aldraða. Eftir tilkomu lífeyrissjóðanna þagnaði þessi umræða hér á landi. Menn voru jú farnir að leggja fyrir. Það má hins vegar ekki gleymast að það er enginn sparigrís sem safnað er í. Lífeyrissjóðirnir fjárfesta í atvinnulífinu og vandinn er nákvæmlega sá sami nú og hann var áður. Hvort sem verðmætin eru tekin út úr atvinnulífinu í gegnum skatta, svokölluð gegnumstreymislífeyriskerfi, eða í gegnum arðtöku lífeyrissjóða er verið að framkvæma nákvæmlega sama hlutinn: Að flytja til verðmæti í efnahagskerfinu. Spurningin er hvernig efnahagslífið rís undir því á hverjum tíma að greiða arð sem nemur því að framfleyta fjölmennri eldri kynslóð lífeyrisþega.
Já,  en lífeyrissjóðirnir eru að fjárfesta út um allan heim, segir Ásmundur Stefánsson, þeir eru ekkert háðir efnahagssveiflum hér á landi. Því er hér til að svara að hið sama er upp á teningnum varðandi aldurssamsetninguna um nær allan hinn iðnvædda heim og er hér á landi. Þannig að við sleppum ekki svo glatt frá þessari próblematík. Það er ekki nóg að sýna jákvæðar arðsemistölur núna, spurningin er hvernig efnahagslífið verður í stakk búið þegar að því kemur að standa sína plikt. Dæmi : lífeyrissjóðirnir fjárfesta grimmt í KB banka, hann sýnir núna bullandi arð. Allir kátir. Síðan kemur að því að innheimta þennan arð ef við gefum okkur áframhaldandi eignarhlut lífeyrissjóðanna. Hvernig verður bankinn í stakk búinn að borga út eftir þrjátíu ár? Rís hann undir væntingum okkar?

Gaman að hlusta á bjartsýnistal

Það breytir því ekki að það er gaman að hlusta á bjartsýnistal. Vonandi hefur Ásmundur Stefánsson rétt fyrir sér, og það hefur hann eflaust að einhverju leyti nema því að lífeyrissjóðir eru ekki að leggja fyrir í sparibauk heldur í atvinnulíf sem verður að vera aflögufært; aflögufært til að fjármagna lífskjör þeirra  sem Ásmundur  kallar forréttindastétt framtíðarinnar. Getur verið að tímabundin velgengni kapítalismans villi fyrrum forseta ASÍ sýn?