Fara í efni

Arundhati Roy: Heimsveldisstefnu og lýðræði blandað á staðnum

Einhver kröftugusta baráttukona fyrir mannréttindum, sem nú er uppi, er án nokkurs vafa indverska konan Arundhati Roy. Skrif hennar og ræður eru sterkar og hrífandi. Eina slíka ræðu flutti hún í Harlem í New York í maí síðastliðnum. Í New York var Arundhati Roy á vegum, eða í samstarfi við Samtök um Efnahagsleg og Félagsleg Réttindi ( Center for Economic and Social Rights, CESR).

Í lok þessarar frásagnar birti ég vefslóð þar sem hægt er að nálgast ræðu  Arundhatis Roys í Harlem í heild sinni. 

Þræll í heimsveldi

Í upphafi ræðu sinnar segir Arundhati Roy að einhverjum kunni að finnast orka tvímælis að indversk kona skuli komin til Bandaríkjanna til að gagnrýna það ríki. "En þegar land hættir að vera land og verður heimsveldi þá verður eðlisbreyting á gjörðum þess og hlutverki. Ykkur til skýringar þá tala ég sem þegn í heimsveldi, þræll sem gagnrýnir konung sinn."

Í ræðu sinni verður AR tíðrætt um sannleika og um staðreyndir. Hún rifjar upp atburð frá 3.júlí árið 1988. Þann dag grandaði bandaríska herskipið Vincennes, staðsett á Persaflóa, farþegaþotu fyrir mistök. 290 manns fórust.

Staðreyndir að hætti stórveldis

George Bush eldri var þá forseti Bandaríkjanna. Af þessu tilefni sagði hann orðrétt: Ég mun aldrei biðjast afsökunar fyrir hönd Bandaríkjanna. Mig gildir einu hverjar staðreyndir máls eru. Þetta segir AR vera lýsandi kjörorð hins nýja bandaríska heimsveldis. Ef til vill mætti breyta kjörorðinu lítillega segir hún: Staðreyndir eru það sem við viljum að séu staðreyndir. Síðan rifjar hún upp, að skoðanakannanir hafi sýnt, að verulega hátt hlutfall Bandaríkjamanna hafi trúað því að Saddam Hussein hafi staðið að baki hryðjuverkaárásunum 11. september 2001 og einnig því að Írakar réðu yfir gereyðingarvopnum. Þetta sé til marks um afstöðu fjölmiðlanna með sínar hálfkveðnu vísur og oft hreinar lygar.

Írak er nýjasta dæmið

AR segir að Írak sé nýjasta dæmið af mörgum. Á undan komu Kúba, Níkaragúa, Líbýa, Granada og Panama.  Eftirmála innrásarinnar í Írak þekkjum við. Engin gereyðingarvopn hafa fundist. Sennilega þyrfti áður að koma þeim fyrir. En þegar slík vopn "fyndust" þyrfti hins vegar að svara því hvers vegna Saddam Hussein hefði ekki beitt þeim þegar ráðist var á land hans.

AR minnir okkur á tal um nauðsyn þess að gerbreyta um stjórnarfar í Írak með nýjum ráðamönnum, "regime change" hafi þetta verið kallað. Hún lætur hugann reika aftur til ársins 1963. Einnig þá sáu Bandaríkjamen ástæðu fyrir "regime change" í Írak. Þá greiddi bandaríska leyniþjónustan, CIA, fyrir blóðugu valdaráni Baath flokksins. Heita má að menntamenn Íraks hafi þá verið þurrkaðir út.

Efnilegur slátrari

Í þessu blóðbaði er hinn ungi og upprennandi Saddam Hussein sagður hafa verið liðtækur slátrari. Árið 1979 urðu síðan átök innan Baath flokksins og Saddam Hussein braust til valda, varð forseti landsins. Ekki stóð á stuðningi Bandaríkjamanna við Saddam Hussein hvort sem um var að ræða efnahagslegan eða móralskan stuðning. Bandaríkjamenn sáu honum fyrir nauðsynjum til að framleiða gereyðingarvopn, fjármögnuðu hann og studdu þegar hann stríddi gegn Írönum í átta ára styrjöld og þegar hann beitti efnavopnum gegn Kúrdum í Halabja átti Saddam Hussein stuðning Bandaríkjanna vísan.

Upphitaðir réttir

Bandaríkin hafi stutt Saddam Hussein í öllum þessum glæpum, sem fjórtán árum síðar voru upphitaðir og notaðir til að réttlæta árásina á Írak. Þegar hins vegar var reynt að réttlæta með margslungnari hætti en dæmi eru um í sögunni, að nauðsynlegt hafi verið að ráða illvirkjann á íraska valdastólnum af dögum, þá hlýtur það að teljast lágmarkskrafa, að þeir sem studdu hann, þeir sem voru vitorðsmenn í glæpunum, verði dregnir fyrir stríðsdómstól. Það mun hins vegar ekki gerast, því eins og við munum, í Heimsveldinu skipta staðreyndir ekki máli."

 Nýtt heróp

Heimsveldið fer sínu fram og að þessu sinni undir nýju herópi: Lýðræði. Heimsveldið hefur búið til nýja mixtúru úr sjálfu sér og lýðræði, sem það kveðst ofar öllu bera fyrir brjósti. Að vísu ekki í Egyptalandi, Tyrklandi, Saudi-Arabíu, Pakistan og Mið-Asíu lýðveldunum.

AR leiðir okkur síðan að raunverulegum ástæðum stríðsins, olíuhagsmunum. Þetta hafi komið í ljós þegar einvörðungu olíuhagsmunir voru varðir. Söfn með menningarverðmætum Íraka voru skipulega eyðilögð og rænd. Meðan þessu fór fram höfðu bandarískir ráðamenn ástandið í flimtingum: Fólkið var í frelsisvímu, enda að losna við harðstjóra sinn.

Vissuð þið til þess að Rumsfeld væri anarkisti?

Opinberlega sagði Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra, að ástandið væri ruglingslegt frelsisástand.

Vissi einhver hér að Donald Rumsfeld væri anarkisti? Var hann sömu skoðunar þegar óeirðirnar urðu í Los Angeles eftir offbeldisárás lögreglunnar á Rodney King um árið? Vildi hann vera svo góður að skýra kenningu sína um ruglingslegt frelsisástand með hliðsjón af þeirri staðreynd að tvær milljónir manna eru á bak við lás og slá í Bandaríkjunum. Getur hann skýrt fyrir okkur hvers vegna að í "frjálsasta landi í heimi" er fleira fólki haldið föngnu en nokkurs staðar á byggðu bóli?"

Vegið að vöggu menningar

AR rifjar upp sögu landsvæðisins sem nú er Írak, svæðis þar sem grunnur var lagður að heimsmenningunni. Síðan rekur hún yfirlýsingarnar þar sem árásin á Írak var réttlætt, árás á land sem hafði verið þröngvað niður á hnén, "þjóðin gerð nær hungurmorða, hálf milljón barna deydd með refsiaðgerðum, eftir að vopnabúnaður hennar hafði verið eyðilagður. Þetta er dæmi um dæmalaust hugleysi. Að baki stóð bandalag þjóða sem hafði verði mútað eða þær verið keypar. Í nafni þessara þjóða var sendur innrásarher á hendur írösku þjóðinni."

Ráðast Írakar á Bandaríkin?

Síðar segir AR að reynt hafi verið að telja heimsbyggðinni trú um að öflugasta herveldi heimsins hafi staðið ógn af þessari allslausu þjóð; fátækri þjóð sem allur máttur hafði verið dreginn úr, allt innra stoðkerfi hennar verið eyðilagt og hún komin að fótum fram. Áróðurinn hafi þó ekki hrifið betur en svo, að í Evrópu hafði stuðningur við innrásina hvergi verið meiri en 11%. Þrátt fyrir það hafi ríkisstjórnir Bretlands, Ítalíu, Spánar, Ungverjalands og ríkja í Austur-Evrópu (um Ísland er henni greinilega ekki kunnugt) stutt innrásina þvert á vilja fólksins.

Síðan fjallar AR um lýðræðið og fjölmiðlana: " Í Bandarkjunum setur ofbeldi sífellt meiri svip á skemmtanalífið, og að sama skapi verða stríðin sífellt meira sniðin að skemmtanaiðnaðinum".

Skemmtanabransinn hannar úttsendingar af vígvellinum

Þannig fái Bandaríkjastjórn hönnuði úr heimi kvikmyndanna til að gera umgjörðina að fréttaútsendingum sínum. AR nefnir dæmi um undirgefni fjölmiðla í Bandaríkjunum, Ítalíu og víðar "Það er kaldhæðni örlaganna að í því landi þar sem er að finna einhverja öflugustu talsmenn málfrelsis á byggðu bóli, og þar sem er að finna (þar til nýlega) einhverja vönduðustu löfggjöf til að verja tjáningarfrelsið, skuli nú með lagasmíð vegið að þessum réttindum".

AR talar síðan allítarlega um hagsmunatengsl stjórnmálanna og stórfyrirtækja sem hafa hafsmuni af stríðinu í Írak.

Endalok lýðræðis heima fyrir

Hún bendir á að "Föðurlandslöggjöfin" í Bandaríkjunum ("Patriot Act") sé að verða fyrirmynd um heim allan (hvort við vitum) og þegar hér er komið sögu bendir ræðukonan á ýmsar staðreyndir sem menn megi ekki missa sjónar á og tengist þeim hagsmunum sem eru í húfi. Hún spyr, hverjir eru að heyja þetta stríð; hverjir eru sendir á vígvöllinn? Það eru hinir fátæku í Bandaríkjunum, svartir og litaðir. Þetta eru hinir undirokuðu Bandaríkjamenn, sem eiga minni lífslíkur en íbúar Bangladesh eða íbúar í heimaríki ræðumanns, Kerala í Indlandi!

Fyrir hinn almenna Bandaríkjamann er uppskeran af þessari baráttu fyrir "hinu Nýja lýðræði utanlands, endalok lýðræðisins heima fyrir".

Við eigum ráð!

 En hvað er til ráða? AR segir að við eigum ráð. Heimsrisinn hafi nefnilega sinn veikleika. Þann veikleika sé að finna í maga risans, "the underbelly": "Vömbin er veik" Staðreyndin sé nefnilega sú að þótt "heimalandið" megi verja með landamæravörðum og kjarnorkuvopnum, þá sé erfiðara að koma vörnum við þegar efnahagslegir hagsmunir eru annars vegar. "Enginn sigur er of smár", segir AR og hvetur okkur til að hyggja að efnahagslegum refsiaðgerðum fólksins. Og nú beinir hún orðum sínum til bandarískra þjóðfélagsþegna: Ykkur voru aldrei veitt réttindi, þið börðust fyrir þeim: "Gleymið því aldrei, að ef þið skerið upp herör, takið höndum saman, ekki þúsndum saman  eða í  hundruðum þúsunda, heldur í milljónum, þá mun heimurinn taka ykkur fagnandi. Þið munuð finna hve gott það er að vera mildur en ekki harður, öruggur en ekki skelfdur; og nú, ekki einangraður heldur umvafinn vinum, enginn með hatur í huga...  Mér þykir fyrir því að segja það, en ég er ósammála forseta ykkar. Þið eruð ekki mikil þjóð. En þið gætuð orðið stórhuga fólk. Sagan býður ykkur að taka kalli sínu. Takið því kalli."

http://www.cesr.org/roy/royspeech.htm