Fara í efni

ANNAÐ OPIÐ BRÉF TIL GEIRS OG INGIBJARGAR

Birtist í Morgunblaðinu 24.09.07
Nýlega ritaði ég ykkur, forsætisráðherra og utanríkisráðherra, opið bréf um afstöðu ykkar til NATÓ. Nú vil ég beina til ykkar spurningum um auðlindir Íslands. Við stöndum á tímamótum. Við stöndum frammi fyrir því að fyrirtæki og fjármálamenn nái eignarhaldi á orkufyrirtækjum landsmanna og þar með orkuauðlindunum. Þeir standa í röðum og bíða þess að ná þeim til sín. Ferlið hefur verið þannig að veitufyrirtæki í almannaeign hafa haft einkarétt á nýtingu náttúruauðlinda til hagsbóta fyrir almenning. Þeim er síðan breytt í hlutafélög og oft jafnframt gefið leyfi til framsals sveitarfélagsins á einkarétti til hlutafélagsins. Þegar aðrir aðilar kaupa sig síðan inn í hlutafélagið öðlast þeir einkaréttinn sem upphaflega var veittur á þeim forsendum að hann væri í höndum opinberra aðila í almannaþjónustu. Lögmæti þessa tel ég vera álitamál sem nauðsynlegt er að fara rækilega í saumana á. Hið sama á við um pólitískar hliðar málsins.

Ég hef hlýtt á flokkssystkin ykkar mæla sölu orkugeirans bót. Viðskiptaráðherra segir brýnt að breyta lögum um fjárfestingar útlendinga, væntanlega svo þeir geti ásamt FL Group keypt íslensk orkufyrirtæki og þar með Hellisheiðina! Aðrir liðsmenn ykkar og pólitískir félagar segja að mikilvægt sé að fá Goldman Sachs bankann og önnur ámóta fyrirtæki með í útrás íslenska orkugeirans. Nauðsynlegt sé hins vegar að sjá til þess að skattborgarinn verði ekki gerður ábyrgur fyrir fjármálaævintýrum. Þess vegna þurfi að hlutafélagavæða, aðgreina og helst selja.

Í þessu sambandi ber þess að geta að íslensk orkufyrirtæki í almannaeign hafa verið í útrás og plumað sig bærilega án þess að fjárfestar af markaði kæmu þar að. Það vantar eitthvað mikið í röksemdafærslu þeirra sem láta í veðri vaka að þeir verndi almannaeigur með þessum hætti fyrir ævintýramönnum. Ef þetta vekti fyrir ráðamönnum myndu þeir einfaldlega hvetja þá Bjarna Ármannsson, Ólaf Jóhann Ólafsson, Hannes Smárason, bankastjórana og alla hina fjárfestana til að fara í sína útrás án atbeina samfélagsins. Mergurinn málsins er að sjálfsögðu sá að til að dæmið gangi upp fyrir þessa menn verða þeir að fá almannaeignir til ráðstöfunar. Reynslan kennir að þá geta þeir makað krókinn.

Viðskiptavildin, sem Guðmundur Þóroddsson, forstjóri OR, nú um sinn forstjóri Reykjavík Energy Invest, segir vera hjá OR, er að sjálfsögðu í fyrsta lagi þekkingin sem þar er, í öðru lagi bakhjarlinn sem er samfélagið og í þriðja lagi og ekki síst sjálf Hellisheiðin, eða auðlindirnar sem tengjast íslensku orkufyrirtækjunum.

Hið alvarlega við einkavæðingu orkugeirans er hve örlagarík hún er. Hve erfitt yrði að vinda ofan af henni? Þjóðnýting er nefnilega ekki beint í tísku á okkar tímum. Mín spurning til ykkar er þessi: Ætlið þið að láta óátalið að þjóðin verði svipt orkulindunum? Eða ætlið þið að bregðast við með lagasetningu sem tryggir eignarhald þjóðarinnar á auðlindunum og að grunnþjónusta verði ekki færð einkafyrirtækjum í einokunaraðstöðu? Ábyrgð ykkar er mikil. Allt sem kemur til með að gerast á þessu sviði gerist fyrir atbeina stjórnvalda, með ykkar stuðningi, beinum eða óbeinum eða gjörðum ykkar eða aðgerðarleysi. Í þessu máli er ekki til neitt sem heitir hlutleysi.