Fara í efni

ÁN SANNLEIKANS FÆST ENGINN FRIÐUR

„Hver sem er sannleikans megin heyrir mína rödd.“ (Jóh. 18.37) Þessi orð Frelsarans frammi fyrir Pílatusi hafa ávallt sitt að segja. Ástæða er til að halda þeim fram gegn blekkingum og lífssvikum er einkenna nú stjórnmál og sögu og vega að kristnu siðgæði, mannhelgi og lífsvirðingu, samkennd og kærleika.

Enginn vörður réttlætis

Ótrúlegum illvirkjum sem framin eru á Gasaströnd verður ekki lýst nema sem þjóðarmorði. Sjálfskipað alþjóðasamfélag, sem í eru bandalagsþjóðir Íslands með BNA í fararbroddi, kveðst vera réttlætisvörður heimsins en útvegar samt drápstækin og stendur í vegi alþjóðastofnana sem vilja koma fórnarlömbunum til bjargar. D. Trump forseti vill draga úr afskiptum BNA af töpuðu stríði í Úkraínu enda hafa vesturheimskir auðhringir tryggt sér drjúgan hlut í auðlindum hennar. Hann vill hætta að greiða fyrir drápstækin með skattfé sem fer þó beint til vopnasmiða í BNA. Hagkvæmara þætti honum að Evrópuþjóðir keyptu þessi vopn af þeim og ykju framlög til vígbúnaðar. Það bætti slæma skuldastöðu BNA.

Evrópuleiðtogar ala á þeirri trú að fleiri fórnir úkraínsks æskulýðs á stríðsbálið verði Evrópu til bjargar frá hernámi Rússa en halda því þó kokhraustir fram að Rússar verði sigraðir á vígvelli Úkraínu. Hagkerfi Evrópusambandslanda er stillt inn á vígbúnað á kostnað velferðar enda því treyst að hægt verði að græða á því að þrengja að Rússum, efnahag þeirra og áhrifum. Villandi fréttir og áróður í Evrópu og Vesturheimi hylja ófriðarrótina sem er ásækin útþensla NATO og ætlun BNA að viðhalda og auka yfirráð sín sem víðast. Ummerkin illu um valdarán og hervirki í Írak, Líbíu, Afganistan og Sýrlandi sýna það og nýleg árás á Íran.

Ekki láta allir kúga sig til þagnar

Fræðimenn vestanhafs og herforingjar, sem láta ekki hræða sig og kúga, afhjúpa áróðurinn og segja sannleikann um upptök og framgang átakanna. Fv. ofursti í her BNA, D. Macgregor, og hagfræðingurinn þekkti J. Sachs gera það hiklaust. Þeir vísa til þeirra staðreynda frá endalokum Sovétríkjanna og þar með Varsjárbandalagsins að leiðtogar í austri og vestri sammæltust um að stefna að friðvænlegri sambúð með því að færa vígtólin fjær hver öðrum í þeim anda sem friðarhreyfingar í Evrópu börðust fyrir. Utanríkisráðherrar Vestur-Þýskalands og BNA, H.D. Genscher og J. Baker, hefðu samið við M. Gorbatsjov um það fyrir hönd ríkisstjórna sinna að NATO yrði ekki stækkað til austurs, yrði 400.000 manna herlið Sovétríkja fært úr Austur-Þýskalandi og það svo allt sameinað á ný. Allt var þetta svikið af hálfu BNA og fylgiríkja í NATO og lagt á ráðin um að umkringja Rússland vígvæddum NATO-ríkjum enda væru Rússar of máttfarnir til að bregðast við svikunum.

Allt kortlagt

Þessi áform koma skýrt fram í bók þáverandi öryggismálafulltrúa BNA, Z. Brzezinski, The Grand Chessboard, 1997. Þar er stefna mörkuð um að knésetja Rússa. BNA geti farið sínu fram þrátt fyrir afvopnunarsamninga og útvíkka eigi NATO allt að landamærum Rússlands, koma fyrrum leppríkjum Sovétríkjanna í bandalagið og líka fyrrum sovétlýðveldum, Úkraínu, Georgíu og Moldavíu og hrekja Rússa frá herstöð sinni á Krímskaga. Þrengja eigi að efnahag landsins, valda þar ólgu og upplausn, ýta undir hagstæð valdaskipti fyrir vesturheimsk ítök og auðlindasókn. Til að tryggja það þurfi að leysa rússneska ríkjasambandið upp í smærri einingar. Þessari áætlun hafa ráðamenn í BNA fylgt á nýrri öld, segja Macgregor og Sachs, og líta beri á Úkraínustríðið í því ljósi.

Valdarán og hernaður af sama toga hafa valdið upplausn í Mið-Austurlöndum síðustu áratugi. Sachs vísar til skýringar á ritið The Clean Break, útgefið í nafni B. Netanyahu, 1996. Þar er þess krafist að stjórnvöldum í Arabaríkjum, er styðji frelsisbaráttu Palestínumanna, verði steypt en gangi stjórnarskiptin ekki verði ráðist á ríkin. Sagan sýnir að BNA og halalallar þeirra hafa orðið við þessum kröfum.

Horft til raunsannra verðmæta

Þótt lýðræði og lífsgildum sé hampað glata þau merkingu ef auðræði og auðhringir ná undirtökum og völdum. Hergagnaiðnaður fær þá að soga til sín fjármuni og atgervi til að þjóna dauða og vega að lífi. Það sannast sem fyrr að ekki er hægt að þjóna bæði Guði og Mammon. Mannlíf og jörð þarfnast síst vígbúnaðar og vígaferla.

Kristin trú og önnur trúarbrögð heims geyma verðmæti í fórum sínum sem leitt fá mannkyn af heljarbraut, en það er sem þau séu nú hernumin og hafi misst verndandi salt sitt og ljós. Þau verða að vakna og gegna hugrökk köllun sinni og boða sannleika í villumyrkri. „Við erum smíð Guðs, sköpuð í Kristi Jesú til góðra verka.“ (Ef. 2.10). Þetta er lífsstefnan rétta sem mið tekur af sannleikanum er á sér himneska uppsprettulind og birtist og gefst í Jesú Kristi.

Þá vitund verður að glæða og andæfa yfirgangi, keppni og átökum um áhrif og völd og hvetja til samvinnu og samvirkni þjóða þar sem hver leggi sitt fram til góðs. Þá verður auðlegð, færni og þekkingu ekki sóað í vígbúnað en nýtast fremur til að græða sár mannkyns og jarðar.

Dapurt er að íslensk stjórnvöld og fjölmiðlar hafi sogast inn í vígvæðingarstraum og við Íslendingar hafnað friðarhlutverki okkar sem við fyrr gegndum vel. Sannleiksþrá, trú og kjark þarf til að breyta því. „Ég hef lagt fyrir þig lífið og dauðann, blessunina og bölvunina. Veldu þá lífið, til þess að þú og niðjar þínir megi lifa“ (5. Mós. 30.19).

Þessi grein hefur einnig birst í Morgunblaðinu.