Fara í efni

Alþjóðavæðingin og verkalýðshreyfingin

Birtist í Mbl
Í dag vekur verkalýðshreyfingin um víða veröld athygli á þeim forsendum sem hún vill að alþjóðavæðing byggist á. Dagsetningin er valin með tilliti til þess að nú er að hefjast ráðherrafundur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Sú stofnun hefur verið vettvangur samninga og skoðanaskipta um afnám hvers kyns hafta á viðskipti og fjármagn. Minna hefur farið fyrir félagslegum þáttum og hefur Alþjóðaviðskiptastofnunin orðið eins konar tákn fyrir hráa markaðsvæðingu. Af þessum sökum hafa almannnasamtök víðsvegar um heiminn, ekki síst verkalýðshreyfingin, farið að fylgjast vel með starfi stofnunarinnar og haft í frammi mótmæli þegar þurfa þykir. Það hefur verið æði oft.

Alþjóðlegur baráttudagur

Það er Alþjóðasamband frjálsra verkalýðsfélaga (ICFTU) sem hefur forgöngu um að gera þennan dag að alþjóðlegum baráttudegi fyrir því að mannréttindi verði ekki fótum troðin þegar búið er í haginn fyrir alþjóðavæðingu fjármagnsins. Í yfirlýsingu frá sambandinu er lögð áhersla á mikilvægi þess að í öllum alþjóðlegum viðskiptasamningum séu réttindi launafólks tryggð og að félagslegir þættir séu settir í forgrunn. Sérstöku kastljósi er beint að Alþjóðabankanum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum auk Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og áhersla lögð á að mikilvægt sé að félagslega sinnað fólk og samtök þess reyni að hafa áhrif á stefnumótun þessara aðila.

Minnt er á að í tengslum við fund Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Seattle árið 1999 hafi fulltrúar verkalýðshreyfingar hvaðanæva úr heiminum safnast saman og efnt til fjöldafunda með tugþúsundum félaga í bandarísku verkalýðshreyfingunni. Þetta hafi farið mjög fyrir brjóstið á skipuleggjendum ráðstefnunnar og megi leiða líkum að því að ástæðan fyrir því að Qatar í Miðausturlöndum hafi nú orðið fyrir valinu sem fundarstaður sé einmitt sú að sá staður sé vel til þess fallinn að takmarka aðgang almannasamtaka að fundinum. Aðeins fulltrúar þeirra aðila sem eiga beina aðild að honum verður hleypt inn í landið og aðeins einn fulltrúi hverra verkalýðssamtaka fái aðgang.

Alþjóðaviðskiptastofnunin vill vera í felum

Augljóst er, segir ennfremur í yfirlýsingu ICTFU, að þessi háttur sem Alþjóðaviðskiptastofnunin ætlar að hafa á mun gera alla starfshætti stofnunarinnar ógagnsærri en þeir hafa verið. Fyrir hafi vinnubrögðin verið slæm að þessu leyti og sé ekki á bætandi. Í ljósi alls þessa hvetur hin alþjóðlega verkalýðshreyfing almenning um heim allan að halda vöku sinni. Því má bæta við að ákvarðanir sem teknar eru á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar snerta alla heimsbyggðina því þær snerta öll ríki heims og geta haft áhrif á tolla, skattkerfi og innra skipulag ríkja. Á þessum bæ, og ekki síður nágrannabæjunum Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hefur verið vélað um einkavæðingu sem komið hefur hart niður á mörgum fátækustu ríkjum heimsins. Þeim hefur bókstaflega verið þröngvað til þess að afhenda dýrmætar almannaeignir fjölþjóðlegum auðhringum. Andóf gegn þessu hefur iðulega verið keyrt niður af mikilli hörku. Ýmsar spurningar vakna óhjákvæmilega um fréttaflutning á heimsvísu við lestur blaða og tímarita sem verkalýðsfélög víðs vegar í heiminum gefa út. Þar segir frá fjöldmótmælum gegn einkavæðingunni og harðvítugum átökum. Lítið fer fyrir slíkum fréttum í íslenskum fjölmiðlum. Ekki er þó sanngjarnt að skella skuldinni algerlega á þá því stóru fréttastofurnar sem fóðra fjölmiðlana hér með myndefni og fréttum virðast ekki mjög áhugasamar um þessi efni.

Þegar reiðin verður sýnileg

Áhuginn vaknar aðeins þegar reiðin verður sýnileg og brýst út í fjöldamótmælum í tengslum við fundi WTO fyrst í Seattle og síðan Washington, Prag og Genúa. Nú hefur verið reynt að girða fyrir að andstaðan gegn því að skipuleggja heiminn á forsendum fjármagnsins, verði heiminum ljós, með því að funda undir lögregluvernd í Qatar í eyðimörk Arabíuskagans. En það breytir ekki hinu að vert er að grennslast fyrir um orsakir þessarar andstöðu og þessarar reiði og spyrja hvort hún kunni að eiga sér réttmætar skýringar.