Fara í efni

ALLYSON POLLOCK OG RANNSÓKNARMIÐSTÖÐIN Í EDINBORG


Við háskólann í  Edinborg í Skotlandi er starfandi sérstök rannsóknarstofnun  sem hefur það verk með höndum að kanna afleiðingar mismunandi skipulagsforma í heilbrigðisþjónustunni.  Stofnunin heitir The Centre for International Public Health Policy. Þessari stofnun veitir forystu dr. Allyson Pollock, professor,  en hún er menntaður læknir, sem síðan hefur sérhæft sig í rannsóknum á skipulagi heilbrigðisþjónustunnar.
Allyson Pollock hefur látið mjög að sér kveða í umræðu um heilbrigðismál og m.a. gefið út bók um breska heilbrigðiskerfið og einkavæðingu þess,  NHS (National Health System), The Privatisation of our Health Care. Þessi bók vakti mikla athygli og hlaut mikið lof þegar fyrsta útgáfan kom út árið 2004 en hún var síðan endurútgefin árið 2005. Bókin var afar gagnrýnin á stefnu breska Verkamannaflokksins, New Labour (sem gengið hefur jafnvel harðar fram í einkavæðingu en Íhaldsflokkurinn breski)  og sagði í umsögn í British Medical Journal, að bókin væri skrifuð af dirfsku og vegna þess að ríkisstjórnin vildi ekki að þú læsir hana væri kannski ráð að gera einmitt það. („A brave, necessary book. And because you know the government thinks you shouldn´t read it, you probably should.")
Ég átti þess kost að hitta Allyson Pollock að máli um síðustu helgi en áður hef ég hitt hana þegar hún hafði með höndum rannsóknarvinnu af svipuðu tagi við University College í London.  Það var bæði fróðlegt en um leið ógnvekjandi að hlusta á þennan virta fræðimann. Hún sagði að við værum að verða vitni að geysilega umfangsmiklum þjóðfélagsbreytingum - miklu meiri en fólk almennt gerði sér grein fyrir - sem fælust í því að markaðsvæða allt innra stoðkerfi samfélagsins.
Þessu gerði fólk sér hins vegar ekki almennt grein fyrir enda væri þetta gert smám saman og í alls kyns dulargervi.  Sumir sem tækju þátt í ákvarðanaferlinu vissu ekki hvað þeir væru að gera á meðan aðrir væru með markmiðin skýr. Þegar breska heilbrigðiskerfið hafi verið gert að þjóðareign árið 1948 hefði það verið gert með einni lagasetningu. Þá hefðu allir vitað hvað var að gerast. Svo væri ekki nú. Undir  aðskiljanlegum heitum, „einkaframkvæmd", „einkarekstur", „samstarf ríkis og einakgeira" væri verið að ýta heilbrigðiskerfinu  út á markaðstorgið.  Minnir þetta á nokkuð hér á landi?
Ég læt hér fylgja slóð á heimasíðu rannsóknarstofnunarinnar við háskólann í Edinborg og hvet alla sem tök hafa á að kynna sér það efni sem þar er að finna: www.health.ed.ac.uk/ciphp