Fara í efni

ÁHRIFARÍKT VOPN GEGN HRYÐJUVERKUM !

Morgunblaðið greindi frá því á dögunum að Fídel Kastró Kúbuleiðtogi lætur brenna nærföt sín í stað þess að þvo þau þar sem hann óttast að eitur verði sett í þau til þess að ráða hann af dögum. Heimildamaðurinn um þetta óvenjulega varnarvopn Kastrós er fyrrum lífvörður hans, Delfin Fernandez, en hann sagði starfi sínu lausu vegna verkefnaskorts.

Þessi einfalda og ódýra varnaraðferð Kastrós hefur gefið ótrúlega góða raun og varið hann gegn alls kyns hryðjuverkum. Þannig hefur Kastró sloppið lifandi frá hvorki fleiri né færri en 639 banatilræðum frá því hann tók við valdataumunum á Kúbu árið 1959. Meðal frumlegra hryðjuverkavopna sem bana hafa átt leiðtoganum má m.a. nefna sprengjuvindil, eitursprautu falda í penna og byssu sem lítur út eins og sjónvarpsmyndavél - að nærfataeitrinu ógleymdu. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum fréttastofunnar Sky News, sem Morgunblaðið vísar reyndar ekki til, hefur nærbuxnabrella leiðtogans skipt sköpum í öllum tilræðunum 639 og skilið á milli feigs og ófeigs.

En hver er kveikjan að þessum fréttaflutningi Morgunblaðsins af félaga Fídel Kastró sem blaðið hefur ekki haft mikið dálæti á hingað til? Fréttin tengist greinilega yfirvofandi brottför hersins frá Miðnesheiði en íslensk stjórnvöld hafa einmitt lýst yfir miklum áhyggjum af hugsanlegum hryðjuverkum í herlausu landi. Í ljósi óttans annars vegar og reynslu Kastrós hins vegar verður það að teljast skylda Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra og skoðanasystkina hans í ríkisstjórn og Samfylkingar að skoða vandlega og fordómalaust hina áhrifaríku varnaraðferð Kúbuleiðtogans sem gæti tvímælalaust - ef ígrunduð er af raunsæi og með opnum huga - orðið ein meginstoðin í endurskipulagningu varnarmála landsins. Varnarvopn Kastrós er ódýr og líka áhrifarík lausn og því er mikilvægt að hafa hugfast í þessu sambandi, þar sem maðurinn er jú gegnheill kommúnisti, að undir öllum kringumstæðum á það á endanum að vera nokkurn veginn sama hvaðan gott kemur. Einmitt þetta heilbrigða og eðlilega sjónarmið – reyndar í aðeins öðru samhengi, reifaði formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde, með eftirminnilegum hætti á fundi með flokksmönnum sínum á dögunum. Þar sýndi Geir að Sjálfstæðisflokkurinn og formaður hans er ekki dauður úr öllum æðum. Þar er enn til frjálslyndi og víðsýni og þar geta menn starfað með opnum huga þegar mikið liggur við.
Helgi Þ.