Fara í efni

ÁGÆTUR DAGUR

Þakka þér ábendinguna Ögmundur minn varðandi fjarveru þeirra félaga Björns Inga og Dags B. Eggertssonar á fundi ungliða í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og SFR sem fram fór síðastliðið miðvikudagskvöld. Kvaðst ég hafa “fyrir því nokkuð traustar heimildir að þeir hafi báðir legið yfir sjónvarpinu og horft á viðureign Arsenal og Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.” Ef þetta er rangt eins og þú segir í athugsemd, þá er sjálfsagt að biðjast afsökunar á því. Þá er það hárrétt hjá þér að stjórnmálamenn geta verið, og hafa fullan rétt á, að vera forfallaðir eða veikir eins og aðrir. Og þegar umferðarpestir knýja dyra, eins og bersýnilega hefur gerst hjá Birni Inga, samkvæmt frásögn flokksfélaga hans, þá er fátt meira hressandi en horfa á góðan fótboltaleik. Það þekki ég af eigin raun.
Annars ætlaði ég ekki að meiða nokkurn mann með þessum galsaskrifum mínum enda eru þessir kappar hinir mætustu menn. Björn Inga þekki ég ekki en hann er eflaust kraftmikill og hugmyndaríkur eins og okkur er sagt í auglýsingunum. Meira hef ég séð til Dags B. Eggertssonar og hef ég ætíð borið virðingu fyrir honum sem stjórnmálamanni. Að mínum dómi er hann allt í senn; réttsýnn, heiðarlegur og sanngjarn stjórnmálamaður. Sem sagt, Dagur er ágætur.
Með vinsemd og virðingu,
Helgi Þ.