Fara í efni

AFSLÁTTUR Í FORGJÖF?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur það í hendi sér að reyna myndun ríkisstjórnar með þátttöku VG og Framsóknar auk hennar eigin flokks.
Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að í vikunni hafi farið fram undirbúningsviðræður á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og reyndar er einnig talað um þreifingar milli Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sem við í VG höfum lítið af að segja. Svo mikið er víst að engin formleg samskipti, fundahöld né málefnaviðræður höfðu átt sér stað á milli okkar og Sjálfstæðismanna enda slíkt ekki við hæfi að okkar mati meðan stjórnarmeirihlutinn hélt og formenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks voru í formlegum viðræðum.  

Ég hef oft varað við því að  versta mögulega stjórnarmynstrið sem hugsast gæti væri samstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar því hætt væri við því að þá opnuðust allar gáttir fyrir undangjöf og markaðsvæðingu, jafnvel í ríkari mæli en í tíð Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. 

Þessu til staðfestingar er eftirfarandi frásögn á forsíðu Morgunblaðsins í dag: "Samfylkingarfólk gaf sjálfstæðismönnum sterkt til kynna að hægt yrði í samstarfi flokkanna að koma hreyfingu á mál, sem yrðu í kyrrstöðu í óbreyttu stjórnarsamstarfi með Framsókn. Þar voru sérstaklega nefnd heilbrigðismál, landbúnaðarmál, menntamál og velferðarmál.
Þreifingar voru einnig á milli Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna en sjálfstæðismenn mátu það svo að viðræður við þá yrðu mun erfiðari."

Á mannamáli þýðir þetta að Sjálfstæðismenn óttast að VG myndi standa í fæturnar en Samfylking ekki. Við skulum ekki gleyma því að Sjálfstæðisflokkurinn er nýkominn frá landsfundi með glóðvolgar ályktanir um að færa heilbrigðisþjónustuna í einkarekstur. Getur verið að Samfylkingin sé þegar búin að lofa undanhaldi og eftirgjöf? Var það forgjöf inn í umræðu við Sjálfstæðisflokkinn?

Enn á Samfylkingin kost á því að reyna stjórnarmyndun með Vinstrihreyfingunni grænu framboði. Fyrir slíkri tilraun væri þingmeirihluti ef Samfylkingin féllist á það. Hvað sem á undan er gengið þá trúi ég því ekki fyrr en að fullreyndu að Samfylkingin láti ekki á slíkt reyna. Hvað segir félagslega þenkjandi fólk í Samfylkingunni?