Fara í efni

AFS: ÓDÝR UTANRÍKISÞJÓNUSTA

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 03.11.13.
Þegar menn vilja nefna einhvern augljósan sparnað í útgjöldum ríkisins er utanríkisþjónustan auðveldasta fórnarlambið. Allir eru tilbúnir að skera niður þar - spara milljarða - ekkert mál. Alla vega séð úr fjarlægð. Og oft hefur utanríkisþjónustan gefið höggstað á sér. Fríðindi starfsfólks, rándýrt húsnæði og gæluverkefni. En þá vill hitt gleymast sem jákvætt er, farvegurinn sem hún skapar fyrir tengsl og menningarsamskipti. Að mínu mati eiga Íslendingar að forgangsraða mjög markvisst í utanríkisþjónustunni: Leggja rækt við norrænt samstarf, horfa til Sameinuðu þjóðanna, alls sem kemur sjónum við, eldfjöllum og jarðhitarannsóknum og síðan eiga mannréttindamál að sjálfsögðu alltaf að vera í brennidepli. Sjálfum brá mér ögn við þegar Gunnar Bragi utanríkisráðherra kvaðst ætla að fjölga sérfræðingum í Brussel. Er virkilega þörf á því? En samstarfið við útlönd fer ekki einvörðungu fram í gegnum utanríkisþjónustuna eða formleg tengsl ríkisins. Sveitarfélögin hafa tengsl, vísindamenn, listamenn skapa tengsl, íþróttafélög, verkalýðsfélög, stofnanir og fyrirtæki; við menningarviðburði eru ofin samskiptanet, gott dæmi er Airwaves - að ógleymdum einstaklingunum sem kynnast einstaklingum sem aftur þekkja fólk og koll af kolli. Þegar Bretar settu skólagjöld á erlenda háskólanemendur á áttunda áratug síðustu aldar var gjöldunum andæft úr tveimur áttum, annars vegar af hálfu þeirra sem vildu hafa landið sem opnast fyrir menningarlegri fjölbreytni og hins vegar af hálfu viðskiptalífsins. Þar á bæ skildu menn að erlendir skólanemar þurftu að kosta framfæri sitt, kaupa mat, föt, bækur, leigja húsnæði og fara í bíó. En það sem meira var, þeir mynduðu tengsl, lærðu að lesa bresk blöð og sérfræðitímarit í sínu fagi. Þar læsu verkfræðingarnir um tækninýjungar og það sem meira er, sæju auglýsingar um breska framleiðslu. Síðan kæmu allir í frí til Bretlands síðar á lífsleiðinni. Erlendir háskólanemar væru með öðrum orðum góður bissniss! Sjálfur átti ég kost á því að kynnast erlendri menningu á uppvaxtarárum mínum og mun ævinlega standa í þakkarskuld við foreldra mína fyrir að líta á það sem hluta af uppeldinu að opna heiminn fyrir börnum sínum. Slíkt er gert með skipulegum hætti af hálfu skiptinemasambandsins, AFS. Þessi samtök starfa í yfir 50 löndum í öllum heimsálfum. Þótt saga samtakanna sé eldri hófust nemendaskipti árið 1947. Íslendingar fóru að taka þátt í þessu starfi tíu árum síðar. Frá þeim tíma hefur umfangið aukist jafnt og þétt og fara nú 100-120 skiptinemar árlega til dvalar erlendis og við tökum á móti 20-30 nemum hingað til lands ár hvert. Á heimasíðu samtakanna segir að markmið AFS sé að „að auka kynni og skilning milli þjóða heims og fólks af ólíkum uppruna, víkka sjóndeildarhring ungs fólks og auka menntun þess." Þær íslensku fjölskyldur sem hafa opnað heimili sín erlendum skiptinemum eiga lof skilið. AFS hef ég aðeins kynnst úr fjarlægð en verður oft hugsað til allra þeirra sendiherra sem samtökin gera árlega út af örkinni fyrir okkar hönd og hvernig tengsl Íslands út á við styrkjast á jákvæðum forsendum fyrir tilstilli þessarar ódýru utanríkisþjónustu.