Fara í efni

AFNEMUM LAUNALEYND – BRJÓTUM VARNARMÚRA MISRÉTTISINS


Kynnt hefur verið á Alþingi frumvarp sem kveður á um skref til afnáms launaleyndar. Frumvarpið byggir á þverpólitískri vinnu með aðkomu allra stjórnmálaflokka á þingi. Fyrstu viðbrögð hafa verið jákvæð – með undantekningum þó. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Vilhjálmur Egilsson, segir að afnám launaleyndar myndi leiða til þess að starfsanda á vinnustöðum myndi hraka. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur tekið undir þetta sjónarmið en skýrir afstöðu sína fyrst og fremst með því að segjast vera á móti boðum og bönnum. Þorgerður Katrín segir þó að máli skipti að launamisrétti verði afnumið. Undir það skal tekið enda að mínu mati mergurinn málsins. Starfsandanum myndi hraka með afnámi launaleyndar, það hefur framkvæmdastjóri SA til síns máls,  einfaldlega fyrir þá sök að veruleikinn þolir ekki dagsljósið. Þessum veruleika þarf að breyta. Hér bítur eitt í annars skott því í skjóli leyndarinnar verður misréttið til og dafnar. Þess vegna þarf að afnema launaleyndina til að komast fyrir rót vandans. Þegar misréttinu hefur verið útrýmt þolir vinnustaðurinn dagsljósið og þar með ætti framkvæmdastjóra SA að geta verið rórra.

Eitt má þó ekki gleymast. Slagurinn stendur ekki aðeins um kynjamisréttið heldur líka um launamisrétti almennt. Launamisréttið hefur verið að stóraukast á Íslandi á undanförnum árum. Hátekjufólkið hefur hækkað langt umfram þá sem hafa lægstu tekjur og millitekjur. Þetta er óþolandi þróun og ber að vinda ofan af henni með því að stórhækka lægstu laun. Hér skiptir launaleyndin einnig máli. Henni er stefnt gegn lágtekjufólkinu. Hún er varnarmúr misréttisins.