Fara í efni

AFGERANDI MEIRIHLUTI ÞJÓÐARINNAR ANDVÍGUR STÓRIÐJUSTEFNUNNI

Birtist í Morgunblaðinu 01.03.06.
Í skoðanakönnun sem GALLUP gerði fyrir þingflokk VG um afstöðu þjóðarinnar til stóriðjustefnunnar kemur fram afgerandi andstaða við stefnu ríkisstjórnarinnar. Í könnuninni var spurt tveggja spurninga:
1) Telur þú að stjórnvöld eigi að beita sér fyrir því að byggð verði ný álver á Íslandi á næstu fimm árum eða telur þú að stjórnvöld eigi ekki að beita sér fyrir því?
2) Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að ráðist verði í nýjar virkjanaframkvæmdir vegna álframleiðslu á næstu fimm árum?
Samkvæmt könnuninni voru 62,9% þeirra sem afstöðu tóku, andvíg því að stjórnvöld beiti sér fyrir því að ný álver verði reist hér á landi á næstu árum. Einnig kemur fram að meirihluti þjóðarinnar er andvígur því að ráðist verði í nýjar virkjanaframkvæmdir vegna álframleiðslu. Aðeins 35,5% kváðust vera því fylgjandi að ráðist verði í frekari virkjanaframkvæmdir vegna álframleiðslu en 51% eru því andvíg - 12,8% sögðu hvorki né.

Öfgafull stefna Framsóknarflokksins

Þegar þessar stærðir voru sundurgreindar vakti sérstaka athygli hversu hátt hlutfall þjóðarinnar reyndist vera mjög andvígt frekari virkjunum í þágu álframleiðslu á komandi árum. Sá hópur var langstærsti einstaki skoðanahópurinn í könnuninni og meira en tvöfalt stærri en þeir sem eru mjög hlynntir virkjunum. Sá hópur mældist aðeins 14,3%.
Þetta þýðir að öfgafull stóriðjustefna Framsóknarflokksins á aðeins fylgi hjá litlum hluta þjóðarinnar, gagnstætt því sem oft hefur verið haldið fram. Framsóknarflokkurinn er mestur stóriðju- og virkjanaflokkur allra íslenskra stjórnmálaflokka og innan flokksins á stóriðjustefnan mestan hljómgrunn. Þó er það svo að samkvæmt könnuninni vilja 35% kjósenda Framsóknarflokksins ekki að ríkisstjórnin haldi sig við þá stefnu að byggð verði fleiri álver á næstu fimm árum! Þannig er ljóst að ef Framsóknarforystan heldur sig áfram við öfgarnar í stefnu sinni er enn svigrúm fyrir flokkinn að skreppa enn frekar saman í fylgi.

Hófsemi og skynsemi í stað öfga

Innan Sjálfstæðisflokksins er talsverður stuðningur við stóriðjustefnuna, þó sýnu minni en hjá Framsókn, eða um 58%. Það hlýtur þó að vekja forystumenn Sjálfstæðisflokksins til umhugsunar að 42% stuðningsmanna flokksins eru þessari stefnu andvígir. Ég hef fyrir satt að Sjálfstæðisflokksforystan sé farin að hafa þungar áhyggjur af offorsi þeirra Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðarráðherra og Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra, þegar stóriðjustefnan er annars vegar. Það er eitt að vilja virkja, annað að gera virkjun í þágu erlendra álhringa að köllun sinni og hugsjón. Almennt vill fólk að stefna í atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar verði mótuð af yfirvegun og á forsendum íslenskra hagsmuna. Það hefur ríkisstjórnin ekki gert og skrifast það að sjálfsögðu á reikning hennar allrar. Öllum má þó ljóst vera að hvað þennan málaflokk snertir hefur Framsókn dregið vagninn en Íhaldið lötrað mismunandi hamingjusamt á eftir.
Það væri óskandi að afgerandi niðurstöður í umræddri könnun, sem sýna ótvírætt andstöðu þjóðarinnar við stjórnarstefnuna í virkjana- og stóriðjumálum, verði til þess að ráðherrar og stjórnarmeirihluti staldri nú við og að reynt verði að hafa vit fyrir þeim sem ekkert sjá nema ál og aftur ál í atvinnulífi Íslendinga.
Niðurstöður könnunar GALLUPS sýna að stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar er í hrópandi andstöðu við vilja meirihluta þjóðarinnar. Þetta styður enn frekar mikilvægi þess að þjóðin fái sjálf að ákveða beint og milliliðalaust í lýðræðislegri kosningu hvert framhaldið verði. Út á það gengur fram komin þingsályktunartillaga þingflokks VG en hún gerir ráð fyrir að kosið verði um málið samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor.