Fara í efni

ÁFALLAHJÁLP Á STÖÐ 2

Halldór Kristjánsson bankastjóri Landsbankans var í viðtali (eintali) í nýjum þætti Björns Inga Hrafnssonar  á Stöð tvo, Markaðnum. Halldór var kynntur sem hugmyndafræðingur Icesave reikninganna í Bretlandi. Hann sagði hlustendum að forsvarsmenn Landsbankans hefðu átt fundi með breska fjármálaeftirlitinu sem hefði verið mjög ánægt með þá ráðstöfun að Icesave væri útibú frá Landsbanakanum á Íslandi en ekki sjálfstætt starfandi banki í Bretlandi. Auðvitað! Þá er ábyrgðin á íslenskum skattgreiðendum en ekki breskum!!! Út í þetta spurði þáttastjórnandi ekkert frekar. Ekki heldur út í fullyrðingar Halldórs um að ekkert hefði verið athugavert við íslenska fjárglæfraspilið. Og ofurlaunin í heiminum voru vegna góðæris og því skiljanleg! Á daginn hefur komið að fjármálamenn voru að stela peningum frá alþýðunni. Ekki múkk frá þáttastjórnanda. Halldór dóseraði lengi vel og sagðist fagna umræðu og rannsókn. Af framgöngu þáttastjórnanda að dæma má ljóst vera að slíkrar rannsóknar er ekki að vænta í þessum sjónvarpsþætti. Þátturinn virkaði á mig einsog blanda af áfallahjálp við fjármálasukkara og daðri við tiltekin pólitísk áhugamál. Getur Stöð 2 ekki boðið upp á betra en „party political broadcast"?   
Jóel A.