Fara í efni

ÆTLAR STURLA AÐ FÆRA NÝSI FLUGMÁLSTJÓRN?

Lengi vel stóð ég í þeirri trú að Samgönguráðuneytið myndi leita eftir samráðsviðræðum um hugsanlegar breytingar á starfsemi Flugmálastofnunar, sem vitað var að væru á döfinni. Varðandi samráðsaðila hafði ég ekki síst í huga samtök launafólks, samtök á borð við BSRB sem bæði standa vaktina fyrir hagsmuni starfsfólks og hefur einnig sýnt í verki að gæta  almannahagsmuna – notenda og greiðenda -  þegar breytingar á fyrirkomulagi grunnþjónustu eru annars vegar. Samráð af þessu tagi hefur hins vegar ekki verið um mótun tillögugerðar. En ekki er það aðeins svo að tillögur liggi nú fyrir heldur einnig ákvarðanir!

Á kynningarfundi í Samgönguráðuneyti í dag þar sem fulltrúum starfsfólks var boðið að mæta, kom fram að ástæðan fyrir fundinum væri sú að uppfylla þyrfti tiltekin formskilyrði um tilkynningaskyldu á grundvelli laga um réttarstöðu starfsmanna um aðilaskipti, því ákveðið hefði verið að einkavæða þessa starfsemi. Gamla formúlan er að sjálfsögðu uppi, og sagt að ekki eigi að selja, aðeins hlutafélagavæða! Greint var frá því að stýrihópur hefði sett fram fjórar tillögur og mælt með einni gagnvart ráðherra. Hún gekk að sjálfsögðu út á að hlutafélagavæða starfsemina, enda þetta vinnuferli allt undir handleiðslu ráðgjafa úr rekstrarfyrirtækjum, sem eru höll undir einkavæðingu almannaþjónustunnar.  Þegar hefur verið skipaður svokallaður “umbreytingahópur” til að undirbúa framkvæmdina. Hann lýtur forystu fulltrúa frá Nýsi, en þess má geta að fá fyrirtæki, ef nokkurt, hafa verið eins ötult að ráðleggja ríki og sveitarfélögum að hlutafélagavæða starfsemi sína, og þegar það hefur verið gert og starfsemin komin í þessar umbúðir fyrir einkavæðingu, hefur Nýsir gleypt hana með húð og hári. Þannig hefur Nýsir ráðlagt sjálfum sér til hagsbóta.
Það er dapurlegt að búa við ríkisstjórn sem er eins vesæll varðmaður almannahagsmuna og reyndin er með þá stjórn sem nú situr. Kannski er varla við öðru að búast, því hún virðist fyrst og fremst líta á sig sem gæslumann hagsmuna þeirra fyrirtækja, sem ásælast peninga úr opinberum rekstri.
Skyldi Nýsi ef til vill vera ætluð Flugmálastjórn? Skyldi Sturla samgönguráðherra hafa kynnt "ákvarðanir" sínar í ríkisstjórn? Getur verið að ekkert þurfi að ræða þessi mál á þingi áður en ráðherrann skipar starfshóp til að framkvæma þessar breytingar? Er stjórnarmeirihlutinn ef til vill svo móður af undirgefni að ráðherrar nenni ekki einu sinni lengur að segja alþingismönnum stjórnarmeirihlutans hvað standi til að skipa þeim að samþykkja næst?