Fara í efni

Ætlar forsætisráðherra að banna fólki að segja upp?

Birtist í Mbl
Í Morgunblaðinu 1. júlí er haft eftir Davíð Oddssyni forsætisráðherra að í haust komi til greina að setja lög sem lúti að því „…með hvaða hætti kjarasamningar eru virtir.“ Tekið skal undir þá hugsun forsætisráðherra að mikilvægt sé að um samskipti í vinnudeilum séu skýrar reglur. En hitt er rangt að deilumál af þessu tagi verði leyst með lagasetningu, að ekki sé á það minnst að lögin séu sett einhliða og án samráðs.

Í fyrsta lagi er vandséð í hverju lagasetning eigi að felast. Um er að ræða uppsagnir. Og hvað deilu hjúkrunarfræðinga áhrærir þá eru það einstaklingarnir sem segja upp. Að sönnu eru þeir margir og greinilega um hópaðagerð að ræða af þeirra hálfu en einstaklingsbundin engu að síður. Og varla er ætlunin að banna einstaklingum að segja upp störfum. Hitt er reyndar annað mál að ríkisvaldið hefur rétt til þess að framlengja uppsagnarfrestinn í opinbera geiranum „ef til auðnar um starfrækslu þar mundi horfa...“ eins og það er orðað í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Í öðru lagi skal áréttað að skýrar reglur um verkföll og hvers kyns vinnudeilur þurfa að vera fyrir hendi, ekki síst á vinnustöðum jafn viðkvæmum og sjúkrahúsin eru. Hitt er jafn víst að reynslan sýnir okkur að að ef ekki ríkir sátt um reglurnar brýtur óánægja fólks sér farveg utan hefðbundinna leiða einsog reyndar nú hefur gerst. Fáum blandast hugur um að einstaklingsbundnar uppsagnir eru ekki heppileg eða æskileg leið í kjarabaráttu hvorki fyrir launamanninn né atvinnurekandann þegar til lengri tíma er litið. En það er mikill misskilningur að hinn félagslegi farvegur verið treystur með lagaboði. Um það ber þessi deila reyndar órækan vott.

Í þjóðfélaginu almennt er að mínum dómi áhugi og skilningur á nauðsyn þess að bæta kjör starfsfólks heilbrigðisþjónustunnar. En sá skilningur er ekki einskorðaður við lækna og hjúkrunarfræðinga gagnstætt því sem skilja mátti á Geir Haarde fjármálaráðherra í fréttum Ríkisútvarpsins. Við skulum ekki gleyma því að boltinn byrjaði að rúlla þegar ákvörðun var tekin um að bæta kjör sjúkrahúslækna nú fyrir skömmu. Hjúkrunarfræðingar vildu ekki bera skarðan hlut frá borði og sömu sögu er að segja um aðrar stéttir. Kemur það nokkrum á óvart?