Fara í efni

ÆTLA SÉR AÐ EINKAVÆÐA NÁTTÚRUPERLUR ÍSLANDS!

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ
Ekki kemur mér til hugar að fjargviðrast út í eigendur Helgafells í Helgafellssveit fyrir að hugleiða gjaldtöku af ferðamönnum sem vilja ganga á fellið. Að sögn landeigenda er staðurinn orðinn mjög fjölsóttur og farinn að láta á sjá. Styrkur hafi fengist frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða árið 2014 til að gera við skemmdir  og búa svo úr garði að landið yrði varið frekari skemmdum.

Neitað um opinberan stuðning

Sótt hafi verið um styrk árin 2015 og 2016 en verið hafnað. Ekki sé forsvaranlegt annað en að taka gjald til að bæta bílastæðið og byggja upp salernisaðstöðu.
Þetta er sannfærandi málflutningur og trúverðugur úr munni þeirra sem búa á staðnum við ófullnægjandi og reyndar algerlega óþolandi aðstöðu.
Þegar landeigandi hins vegar bætir því við að ekki sé verið að rukka fyrir aðgang að náttúruperlu eða útsýni þá er ég ekki lengur sammála.
En þar er líka komið að öðrum aðila og það er ríkisstjórn Íslands og meirihlutanum sem hún styðst við á Alþingi. Þar er allt á sömu bókina lært og hefur verið um nokkurt skeið undir verkstjórn Sjálfstæðisflokksins, nefnilega að íslensk náttúra skuli einkavædd.

Stórfyrirtækin of ráðandi

Mér segir hugur um að þrýstingur af hálfu Icelandair og hugsanlega annarra flugrekenda hafi ráðið úrslitum um að hunsaðar voru óskir um að sett yrði á sérstakt  ferðamannagjald við komuna til Íslands og að úr þeim ríflega sjóði sem þannig myndaðist yrði veitt til Vegagerðarinnar til bílaplansgerðar og reksturs salernisaðstöðu og síðan til landeigenda til varnar og uppbyggingar á landi þeirra. Hækkun hótelgjalds var einnig hafnað, hugsanlega af hagsmunapólitískum ástæðum einnig.
Og nú er kominn ferðamálaráðherra sem er við sama heygarðshornið og vill fyrir alla muni að landeigendur rukki hver sem betur getur. Þar með yrði kórónað það verk sem forverinn hóf. Ekki er farið í grafgötur um kostina við að skúravæða allt landið með gjaldtökuvélum. Þannig mætti stýra ásókn ferðamanna, hefur nýi ráðherrann látið hafa eftir sér.

Vilja að aðgangur að náttúrunni ráðist af efnahag

Aðrar hugmyndir um stýringu eru á sama tíma slegnar út af borðinu, til dæmis að segja nýjum flugfélögum sem vilja fá aðstöðu í Leifsstöð að fleiri pláss sé ekki að hafa eins og sakir standa. Afleiðingar þess að tregðast við að gera þetta eru tvenns konar.
Í fyrsta lagi stjórna flugfélög því áfram hve margir koma til Íslands til að sækja inná yfirfulla staði. Í öðru lagi sitjum við uppi með það að gjaldtaka sem ella yrði við komu ferðamanna til landsins yrði færð inn á ferðamannastaðina sjálfa með þeim afleiðingum að tekjulitlu fólki yrði gert ókleift að ferðast um landið og njóta náttúru þess til jafns við efnafólk.
Auðvitað munum við fá að heyra að þetta verði svo lítið að fólk eigi ekki að muna um það. Sama var sagt þegar gjaldtakan hófst í heilbrigðiskerfinu fyrir alvöru á tíunda áratugnum. Þá var líka byrjað smátt.

Rukkað fyrir útsýni

Auðvitað er með gjaldtöku verið að rukka fyrir útsýni. Það gengur ekki að mínu mati. Öðru máli gegnir þegar boðið er upp á valkvæða þjónustu, til dæmis leiðsögn og frásögur úr Laxdælu eins og eflaust myndi gerast við Helgafell. Auðvitað væri gott að hafa þar landvörð og leiðsögumann en hann ætti að vera kostaður úr ferðamálasjóði sem væri nú orðinn vel aflögufær ef skynsamlega hefði verið haldið á málum.
Allnokkrum sinnum fór ég með mín börn í uppvexti þeirra að Helgafelli við Breiðafjörð. Gengum við á fjallið og hugleiddum hvert um sig þrjár óskir sem þjóðtrúin kennir að rætist ef ekki er litið um öxl og ekki mælt orð af munni á meðan fjallið er klifið. Engum mátti segja óskirnar og þær urðu að vera settar fram af góðum hug.

Andmælum sem aldrei fyrr

Ég veit nú hvers ég hefði óskað hefði ég verið forspár.
Ef sú ósk hefði náð fram að ganga sætum við ekki uppi með þá ríkisstjórn sem nú er sýnt að þjóðin þarf að afplána næstu fjögur árin. Þá gæti henni hafa tekist það ætlunar verk sitt að einkavæða náttúruperlur Íslands.
Það virðist vera pólitískur ásetningur hennar og það mun henni takast nema þjóðin rísi upp og andmæli sem aldrei fyrr!