Fara í efni

ÆRLEGUR STÓRGLÆPAMAÐUR

Þegar Landsbankastjórarnir tveir, Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson, létu dreifa Landsbankablaðinu Moment i Hollandi var það gert til að kynna Icesave reikninga. Í því blaði virðist formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins hafa verið snuðaður, enda í blaðinu viðtal við hann sem ber heitið Finances of the Icelandic banks are basically sound. Blaðið kom út í maí 2008 og gefið út til að forguða Icesavereikninga. Herbragð bankastjóranna heppnaðist. Evrur tók að streyma í stríðum straumi inn hjá félögunum.

Ólíklegt verður að telja að strandhögg bankastjóranna og bjögganna í Hollandi hafi átt að vera hefnd fyrir þá niðurlægingu sem þjóðþekktur Íslendingur varð fyrir löngu áður en Hafskip varð til, eða Landsbanki sem gekk kaupum og sölum fyrir fé, sem menn gátu þess vegna þrifið upp úr bakvasa sínum. Er hér átt við það, þegar tveir dólgar, hollenskir, lúbörðu Jón Hreggviðsson og stálu af honum þeirri einu spesíu, sem hann hafði á sér, þegar hann kom til Hollands. Afdrif Jóns í Rotterdammi hefðu svo sem átt að verða  bankamönnum og bjöggum til viðvörunar í viðskiptum, en þeir hafa vafalaust verið meira fyrir lönd og lausa aura - annarra, en fjársjóð þann, sem fólginn eru í góðum texta og hugsun manns. Hollendingar, og við hér norðurfrá, gætum svo sem líkt þessum bankakónum við það sem Jón sagði um sig sjálfur hjá Laxness: Syndir...Ég hef aldrei drýgt neina synd. Ég er ærlegur stórglæpamaður.

Þú efast Ögmundur um Icesave. Það gerum við öll, mismikið og við erum misjafnlega miklar efasemdakonur. Enginn hefur talað af meiri virðingu til þjóðar sinnar í þessu máli, en þú á Alþingi í dag, og ekki er ég frá því, að formaður, þinn sem hlustaði andaktugur á, hefði viljað halda þína ræðu. En hann er önnur manngerð, vanari að slást með hnúum og hnefum. Ykkar bíður það hlutverk sameiginlega, að koma í veg fyrir að fullveldið, og lýðveldið, líði undir lok.

Eitt vantar þó í allan ykkar rökstuðning, ein er sú ályktun, sem aldrei er dregin. Þið segið: Minnisblaðið, sem Baldur Guðlaugsson, sá sem seldi bréf sín fyrir bankahrunið, og Áslaug Árnadóttir, undirrituðu hefur gert okkur erfitt fyrir. Gott og vel. Viljiði þá skýra fyrir mér og öðrum Íslendingum, af hverju hann er enn ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og hún staðgengill ráðuneytisstjóra í ráðuneyti viðskiptamála, rétt eins og ekkert hafi gerst, annað en að örlítið kusk sem tyllti sér á hvítflibba og gustur feykti í gleymskunnar brunn.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir , Árni Matthísen, og Geir Haarde eru horfin af pólitíska sviðinu. Gögnin, sem nú hafa verið birt, gætu bent til þess að þau hafi öll gert sig sek um alvarleg pólitísk afglöp. Ekki geta viðurlögin verið þau, að sitja á biðlaunum þar til eftirlaunalögin fara að skila sér? Ég hefi nokkra samúð með viðskiptaráðherranum fyrrverandi, sem augsýnilega skammast sín og tekur ekki þátt í umræðunni, öndvert við varaformann Sjálfstæðisflokksins, sem hagar máli sínu eins og trukkstjórinn, sem lenti í flaginu. Hann gaf allt í botn og drulluspólaði til að geta slett yfir prúðbúinn söfnuðinn, sem var á leið úr kirkju í kaffi, og hélt hann fengi með því útrás fyrir óhamingjuna.

Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir hafa bæði í dag gert því skóna að Íslendingar kynnu, sem þjóð að verða fjárhagslega gjaldþrota. Þau notuðu millistéttarmál um gjaldþrotið og kölluðu greiðslufall. Af þessu tilefni þurfið þið, þú og Steingrímur, að útskýra fyrir mér og öðrum af hverju lögum um landráð er ekki beitt. Þau ákvæði eru, eins og ákvæðin um synjunarvald forseta, ekki sett í lög til skrauts eða til sýnis. Settu svo slóð á ræðu þína í dag inn á heimasíðuna. Hana þyrftu sem flestir að heyra. Ekki skildu fjölmiðlarnir það sem þú sagðir.

Ólína