Fara í efni

AÐKOMA BORGARBÚA AÐ PÓLITÍSKRI STEFNUMÓTUN EÐA VALI Á "LEIÐTOGA"?

Ég skal játa að heldur kom mér á óvart að menn skyldu ekki sýna meiri lipurð í samningaviðræðum um framhald á R-listasamstarfinu en raun ber vitni og beini ég sjónum mínum þar einkum að Samfylkingunni. Ég geri mér grein fyrir að sitt sýnist hverjum í þessu efni og beinir Samfylkingarfólk spjótum að okkur í VG með ásökunum. Þannig er haft eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar á vefsíðu Morgunblaðsins í dag: "Viðræðuslitin auka manni ekki bjartsýni en eru til marks um það að samninganefndin komist ekki lengra og einhverjir þar telji sig ekki hafa umboð til þess að semja um niðurstöðu á þeim nótum sem fyrir lágu. Þarna var reynt að auka aðkomu borgarbúa að því að velja fulltrúana og borgarstjórann en um það varð ekki sátt."
Þessir "einhverjir" sem þarna er vísað til eru án efa fulltrúar VG í samningaviðræðunum.

Ég hef fylgst með gangi mála og veit að samningamenn VG hafa lagt sig alla fram um að finna leiðir til að viðhalda R-lista samstarfinu en að sjálfsögðu með hliðsjón af því umboði sem þeim var fengið. Það snýr bæði að málefnum og aðkomu flokkanna að samstarfinu, sem VG telur að eigi að vera á jafnræðisgrunni eins og reynt hefur verið að tryggja allar götur frá því samstarfinu var komið á árið 1994. Hefði náðst að tryggja samstarf á svipuðum grundvelli og verið hefur til þessa– með jafnræði flokka og frelsi til að skipa málum á eigin forsendu – leikur enginn vafi á í mínum huga að engin fyrirstaða hefði verið af hálfu VG um framhald R-listasamstarfsins.

Það undarlega hafði gerst með sjálfan mig, sem alla tíð hef haft mikla fyrirvara við þetta fyrirkomulag stjórnmálanna, að ég var fyrir nokkru síðan kominn á þá skoðun að leita ætti eftir því að framlengja R-listasamstarfið, næðist um það ásættanlegt samkomulag. Ég vildi  – og vil enn - samstarf á miðju- og félagshyggjuvæng stjórnmálanna en hef í tímans rás oft talað fyrir því að heppilegra væri að flokkarnir fengju mælingu á stefnu sína í kosningum. Þetta þýðir að flokkar geta í tímans rás stækkað eða minnkað eftir atvikum, allt eftir því hvernig áherslur þeirra falla kjósendum í geð. Kosningabandalag sem byggir á slíkum hreyfanleika er að mínum dómi þegar til langs tíma litið lýðræðislegra og farsælla en samstarf þar sem stærðarhlutföll eru múruð föst í eitt skipti fyrir öll. Að sjálfsögðu eru kosningar til borgarstjórnar eina leiðin til að slík mæling fari fram. Ekki dugir að vísa á skoðanakannanir eða alþingiskosningar eins og bæði Samfylking og Framsóknarflokkurinn hafa gert. Þannig er eftirfarandi haft eftir Halldóri Ásgrímssyni, formanni Framsóknarflokksins í fjölmiðlum í dag: "Margir hafa gleymt því að í fyrstu alþingiskosningunum eftir að þetta samstarf komst á var Framsóknarflokkurinn næststærsti flokkurinn hér í borginni, á eftir Sjálfstæðisflokknum..." VG gæti síðan vísað í skoðanakannanir þar sem flokkurinn mældist með hátt í 30%!

Ég hef áður gert grein fyrir því hér á heimasíðunni hvers vegna ég hef, þrátt fyrir fyrrgreinda grundvallarafstöðu til samstarfs stjórnmálaflokka, viljað viðhalda R-listasamstarfinu. Ástæðan er einfaldlega sú að ég hef haft af því ótta að einhverjir samstarfsflokkanna kynnu að vera ófáanlegir til að lýsa yfir að þeir vildu ganga til samstarfs að loknum kosningum ef ekki næðist samstarf um sameiginlegt framboð. Ef flokkarnir gefa hins vegar allir yfirlýsingu um áframhaldandi samstarf að loknum kosningum gildir öðru máli. Þannig tek ég engan veginn undir þá hugsun sem fram kemur í eftirfarandi klausu á visir.is í dag: "Ef fallið verður frá tilraunum til frekara samstarfs er sú sérkennilega staða komin upp að flokkarnir starfa áfram saman fram að kosningum án þess að stefna að frekara samstarfi sem gæti þýtt að stjórn borgarinnar yrði lausari í reipunum en ella."
Í fyrsta lagi er engan veginn búið að útiloka samstarf viðkomandi flokka á næsta kjörtímabili og auk þess ekkert undarlegt við það að flokkarnir ljúki kjörtímabilinu í góðu samstarfi í samræmi við vilja kjósenda fyrir rúmum þremur árum. Þeir stjórnmálamenn sem raunverulega vilja áframhaldandi samstarf ættu að hafa morgundaginn í huga þegar þeir nú gefa samstarfsaðilum sínum einkunnir. Væntanlega vilja þeir samstarf málefnanna vegna. Þar hefur ekkert breyst.

Hvað þá um sjónarmið Ingibjargar Sólrúnar um "aðkomu borgarbúa" að vali borgarstjóra og lýðræðislegri röðun fulltrúa á framboðslista? Nú veit ég ekki hve margir gera sér grein fyrir þeim kostnaði sem fylgir opnu auglýsingaprófkjöri. Við munum allar heilsíðuauglýsingarnar í blöðum, auk auglýsinga í útvarpi og sjónvarpi. Þetta kostar mikla peninga. Fyrir einstaklinginn hleypur kostnaðurinn á milljónum. Ef við færum stjórnmálabaráttuna inn á þennan vettvang er auk þess hætt við því að stjórnmálin snúist í sífellt ríkari mæli um einstaklinga en málefni.
Hér eru vissulega til millileiðir. Þannig er ég til dæmis hlynntur kosningu, að sem flestir komi að vali á fulltrúum stjórnmálaflokka í framboði til þings og sveitarstjórna. Línan á milli auglýsingabaráttu og hófstilltarar baráttu er hins vegar vandfundin. Í VG ætlum við að efna til prófkjörs innan okkar raða en gerum jafnframt þá kröfu til frambjóðenda að þeir leggi ekki í auglýsingakostnað.

Á hverju strandar þá? Í fyrsta lagi hefur Samfylkingin efasemdir um jafnræðisregluna. Hún telur Samfylkinguna vera stærri en hina flokkana og eigi hennar hlutur að vera meiri fyrir vikið. Tilbrigði við þessa hugsun er aukin aðkoma "óháðra". Þar mun vera vísað í Dag Eggertsson borgarfulltrúa auk þess sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var "óháð" á sínum tíma. Og þannig er það: Allt á sinn tíma. Einu sinni var ég "óháður" í framboði með Alþýðubandalaginu. Fjöldi fólks utan flokka hafði þá myndað samtök sín í milli, einkum í Reykjavík og á Akureyri og náðist samkomulag við Alþýðubandalagið um sameiginlegt framboð. Inn á þing fórum við Árni Steinar Jóhannsson og Svanhildur Kaaber varð varaþingmaður. Öll komum við úr röðum þessara "óháðu". Þegar leið á kjörtímabilið lýsti ég því yfir skriflega í bréfi sem ég sendi öllum félögum í Alþýðubandalaginu, að ég hyggðist ganga Alþýðubandalagið ef sá flokkur á annað borð yrði við lýði í næstu Alþingiskosningum. Við sem skipuðum hóp hinna "óháðu" sáum þannig ekki fyrir okkur varanlegan sess á allt öðrum forsendum en allir aðrir. Þannig var þetta einnig í Reykjavík. Á sínum tíma var Ingibjörg Sólrún "óháð". Nú er hún orðin formaður Samfylkingarinnar og Dagur Eggertsson einn helsti stuðningsmaður hennar í nýafstöðnum formannskosningum í Samfylkingunni!

Vinstrihreyfingin grænt framboð leit svo á, að hverjum flokki ætti að vera í sjálfsvald sett hvernig hann skipaði sínum framboðsmálum. Við féllumst á að borgarstjóri kæmi úr röðum Samfylkingarinnar. Hún gæti valið hann á hvern þann hátt sem hún vildi, í lokuðu eða opnu prófkjöri, boðið óháðum til leiks og þannig valið sína "leiðtoga" með "aðkomu borgarbúa" á hvern þann hátt sem hún vildi. Við fyrir okkar leyti hefðum hins vegar okkar hátt á.

Um leiðtogakosningar hefur nokkuð verið fjallað á þessari síðu. Mín skoðun er sú að hér sé lagt upp með forræðisstjórnmál: "Þið megið kjósa foringjann" en þar með lýkur líka lýðræðinu. Foringinn fær með öðrum orðum umboð kjósenda sem síðan fylgja hans vilja. Að mínu mati er þetta gömul og þröng hugsun um lýðræði; lýðræði 21. aldarinnar byggir á því að fólk fái sem mest ráð í sínar hendur alltaf og öllum stundum, ekki bara þegar kosningar fara fram.

Eftir því sem ég kemst næst hafði verið fallist á að flokkarnir skipuðu sjálfstætt sína fulltrúa en í sameiginlegu prófkjöri yrði þeim raðað og leiðtoginn þannig kjörinn. Þannig lýtur krafa Samfylkingarinnar  að því er virðist fyrst og fremst að vali á leiðtoga og síðan innbyrðis röðun einstaklinga sem hvort eð er kæmust í örugg sæti. Þetta er þannig kosning um goggunarröð, rándýr og ólýðræðisleg, því efni manna eru mismikil. Og þegar allt kemur til alls þá er stóra málið  í hugum þorra manna ekki hvort þessi eða hinn sé númer eitt eða fjögur heldur hvaða áherslur verða uppi þegar kemur að félagsmálum, umhverfismálum, samgöngumálum, einkavæðingu eða öðru sem varðar hag borgarbúa. Þess vegna skiptir vægi flokkanna innan samstarfsins höfuðmáli því þar með ræðst vægi þeirra sjónarmiða sem þeir eru í forsvari fyrir.

Enn eiga félagsfundir flokkanna eftir að fjalla um niðurstöður sinna fulltrúa í samninganefndinni og rétt að gefa sér ekkert um endanlega niðurstöðu fyrr en sú umræða hefur farið fram. Fari hins vegar svo að flokkarnir bjóði fram hver um sig verður ekki annað sagt en að aðkoma borgarbúa að pólitískri stefnumótun í borginni verði tryggð eins vel og nokkur kostur er. Þá ríður á að allir þeir sem vilja setja velferð og umhverfi í öndvegi fylki sér um Vinstrihreyfinguna grænt framboð.