Fara í efni

AÐFÖRIN AÐ SANNGIRNINNI

VEL - AED
VEL - AED


Í morgun gátum við fylgst með beinni útsendingu frá fundi Velferðarnefndar Alþingis um meintar ávirðingar í garð forstöðumanns Barnaverndarstofu og sömuleiðis meinta ósannsögli ráðherra.

Hvort tveggja var umræðuefni á fundinum sem boðaður hafði verið áður en nefndarmenn höfðu kynnt sér þau gögn sem til stóð að ræða.

Ráðherrann skýrði aðkomu sína að málinu þótt litlu væri við að bæta frá því sem hann hefur áður sagt, nefnilega að forstöðumaður Barnaverndarstofu, Bragi Guðbrandsson, hafi ekki brotið lög sem um embætti hans gilda en að samskiptaferlar innan kerfisns á milli hans og mismunandi stofnana og einstaklinga þurfi að skýra betur frá því sem nú er. Þar séu grá svæði og hafi það komið í ljós. Nú sé unnið að því að bæta úr þessu.

Allt þetta hefur löngu komið fram. Engu að síður er á þessu þrástagast að því er virðist til að finna eitthvað í orðlagi fyrr og nú sem kunni að orka tvímælis. Það hefur þó ekki tekist. Verð ég að segja að frá mínum sjónarhóli hefur Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra staðið sig afburða vel í erfiðri og viðkvæmri stöðu en eins og margoft hefur komið fram steig hann inn á sprengjusvæði þegar hann kom í félagsmálaráðuneytið í lok síðasta árs.

Þegar ég hlýddi á fundarmenn í morgun sannfærðist ég um að ekki er nokkur innistæða fyrir ásökunum sem forveri Ásmundar Einars í embætti, Þorsteinn Víglundsson, kyndir reglulega undir í fjölmiðlum af ábúðarmikilli dulúð. Þetta hefur hann gert frá því hann steig út úr þessu sama ráðuneyti. Smám saman er nú að koma í ljós að aðdróttanir um  "grafalvarleg" brot forstöðumanns Barnaverndarstofu og ámælisverða framgöngu núverandi ráðherra eru innistæðulausar.     

Varðandi málefni Braga Guðbrandssonar voru þung orð látin falla frammi fyrir sjónvarpsvélunum í morgun. Sagt var að rannsaka beri verk Braga "ofan í kjölinn" og síðan klykkti einn þingmaðurinn út með því að spyrja hvort sendiherrum Norðurlandanna hefði verið tilkynnt um skrif Stundarinnar um þessi mál nú fyrir helgina, þá væntanlega til að þeir fái ráðrúm til endurskoða ákvarðanir Norðurlandanna að styðja framboð Íslands í Barnaréttarnefnd SÞ!

Hvað vakir fyrir þessu fólki; að komast til botns í tilteknum kvörtunarmálum eða eyðileggja framboð Íslands? Ég hallast að hinu síðarnefnda. Það skýrir hve iðnir þingmenn eru við kolann. 

Fullyrðingar og aðdróttanir, sem varla geta talist annað en ærumeiðandi komu fram á þessum undarlega sjónvarpsfundi, án þess að forstöðumaður Barnaverndarstofu hafi fengið tækifæri til að standa fyrir máli sínu frammi fyrir nefndinni.

Hins vegar má segja að ómakið hafi verið tekið af honum þegar aðili að Hafnarfjarðarálinu svokalla, kom nú um helgina fram með yfirlýsingu um eðli þess máls en það ber hæst í ásökunum á hendur forstöðumanni Barnaverndarstofu, nefnilega að hann hafa "hlutast til" á óeðlilegan hátt í umgengnismáli.  Svo era ð skilja að "inngrip" hans hafi verið í því fólgið að hringja í fulltrúa barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar um áramótin 2016/17 til að spyrjast fyrir um möguleika dauðvona ömmu að hitta barnabörnin sín áður en hún andaðist. Ég hvet alla til að lesa yfirlýsingu fyrrgreinds aðila og finnst mér reyndar að enginn geti tjáð sig um þetta mál án þess að þekkja þá málavöxtu sem hann greinir frá. Ef Stundinni var kunnugt um þessar hliðar málsins án þess að blaðamenn hafi hirt um að koma þeim upplýsingum á framfæri við lesendur sína þá getur það varla kallast annað en fölsun. Og hvað varðar Velferðarnefnd Alþingis þá sætir málflutningur sumra þingmanna furðu í ljósi þess að þeir þekktu þessa hlið málsins fyrir fundinn í morgun án þess að nokkur viki að henni orði.

Fram kom hjá ráðherra að hann væri að kanna hvort hægt væri og rétt að gera aðgengileg öll málsgögn í þeim tveimur kærumálum sem liggja til grundvallar þessari makalausu umræðu, annars vegar kvörtun barnaverndar Reykjavíkurborgar (mál sem fjallað var um í sjóvarpsþættinum Kveik þar sem síst hallaði á aðkomu Barnaverndarstofu!) og hins vegar samsvarandi nefndar í Hafnarfirði sem áður er vikið að og varðar fyrrnefnt "inngrip".

Ég fagna því ef allar upplýsingar verða gerðar aðgengilegar. Þá mun ég fyrir mitt leyti strax leita eftir því hvað það er sem talið er að hafi verið á gráu svæði í samskiptum Barnverndarstofu við téðar barnaverndarnefndir sem ráðherra hefur iðulega vísað til. Ef það er þetta umrædda símtal, sem fyrrnefndur aðili vísar til, þá spyr ég hvar skýrslugerðarfólk sé eiginlega statt sem telji slíkt hafa verið á gráu svæði. Hvort það sé á vegferð einhvers staðar inni í skáldsögu eftir Kafka, sagnameistara bókmenntanna um sálarlaust kerfi skrifræðis.

Þingmenn velferðarnefndar vildu í morgun ræða minnisblöð og formreglur, algerlega slitin úr samhengi við veruleikann. Sumir þingmenn segjast hafa velt því fyrir sér hvort þeir ættu yfirleitt að kynna sér innihald gagna, með öðrum orðum, hvort ekki væri rétt af þeirra hálfu að einskorða aðkomu sína að formi og hugsanlegum formgöllum. Hin mannlega hlið kæmi þeim ekki við!

Með þessari nálgun verður símtal forstöðumanns Barnaverndarstofu við starfsmann barnaverndarnefndar skoðað sálarlaust og með afmarkandi reglustiku. Skýringalaust símtal verður þannig að umræðuefni hjá þingnefnd og á endanum að tilefni til að fella svo þunga dóma að æra manna er í húfi - og hvort sendiráð grannríkja hafi verið vöruð við!

Eftir að hafa lesið yfirlýsingu þess aðila, sem áður er vikið að, hefði mér fundist ámælisvert og vanræksla ef forstöðumaður Barnaverndarstofu hefði ekki gert nákvæmlega það sem hann gerði, kannað stöðu málsins og ráðlagt um málsmeðferð í samræmi við lög og reglur. Fram hefur komið að annað gerði hann ekki.

Þetta símtal vilja menn nú láta sérfróða menn, helst erlenda sérfræðinga, rannsaka, "því okkar þjóðfélag sé svo lítið" að við ráðum ekki við að rýna málið, svo vitnað sé í einn þingmann frá í morgun!  

Pistilinn kalla ég aðförina að sanngirninni. Velti ég því fyrir mér hvort hugtakið ég ætti að styðjast við, sanngirnina eða skynsemina. Það kemur út á eitt hvort notað er, en sanngirnina valdi ég vegna þess hve yfirgengilega ósanngjörn mér finnst framganga þingmanna sumra vera í þessu máli og læt ég þá hatrömmustu fjölmiðlamenn liggja á milli hluta - að sinni.

Hér má nálgast yfirlýsingu aðila að Hafnarfjarðarmálinu: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/04/28/er_ekki_kunningi_braga/

Hér er yfirlýsing Braga Guðbrandssonar frá í gær:  https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/04/29/bragi_leitar_til_umbodsmanns_althingis/

Umfjöllun sem spannst af pistli mínum frá í gær:

http://eyjan.dv.is/eyjan/2018/04/29/ogmundur-segir-ad-halldora-aetti-frekar-ad-segja-af-ser-en-felagsmalaradherra/  https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/04/29/telur_rettara_ad_halldora_segi_af_ser/