Fara í efni

AÐFÖR AÐ RÉTTINDUM LAUNAFÓLKS

Sæll Ögmundur.
Mig langar til að þakka þér kærlega fyrir bréfið góða sem þú sendir mér og öðrum íbúum Snæfellsbæjar, varðandi aðför meirihluta Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Snæfellsbæjar, að starfsmönnum bæjarins. Það er nefnilega svo, að þessi ógeðfellda aðför, er ekki bara aðför að einum tilteknum starfsmanni íþróttahússins, heldur að öllum íbúum bæjarins. Yfirvöld Snæfellsbæjar eru með framgöngu sinni að segja: ef þið sitjið ekki og standið, talið og hugsið, eins og við viljum, skulið þið hafa verra af. Því miður sýnist mér að valdstjórnaræði Sjálfstæðismanna í Snæfellsbæ, sé ekki einangrað fyrirbæri, heldur bein afleiðing af ógeðfelldum stjórnunarstíl, sem hófst til vegs og virðingar með Davíð Oddssyni. Og það sem verra er: þessi stjórnunarstíll, davíðskan, virðist ekki einskorðuð við Sjálfstæðisflokkinn, heldur sé ég ekki betur, en hún hafi skotið rótum innan annarra stjórnmálaflokka, að maður minnist ekki á atvinnurekendur og jafnvel félagasamtök. Mig langar, að spyrja þig, Ögmundur, hvort þér finnist ekki tímabært, að hefja öfluga baráttu gegn davíðskunni, í víðustu merkingu þess orðs? Með bestu kveðju,
Jóhannes Ragnarsson, Ólafsvík.

Heill og sæll Jóhannes og þakka þér fyrir bréfið. Ég tek undir með þér að þetta er ekki aðför að einum starfsmanni heldur að réttindum launafólks almennt. Þetta snertir því rétt allra og á þeirri forsendu ber öllum að bregðast við. Ég er sammála þér að þessum stjórnunarstíl verður að útrýma.
Kv.
Ögmundur