Fara í efni

AÐ VERA TEKINN ALVARLAEGA

Fréttabladid haus
Fréttabladid haus

Birtist í Fréttablaðinu 10.07.08.
Já, hvað skyldi þurfa til svo taka megi einn þingmann alvarlega? Sú spurning vaknaði hjá leiðarahöfundi  Fréttablaðsins þegar undirritaður skrifaði  blaðagreinar þar sem velt var vöngum yfir því  hvort samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði  væri farinn að ganga svo gegn lýðræðinu að íhuga bæri hvort við ættum að segja okkur frá honum. Hvatti ég til að taka Evrópuumræðuna í allri sinni dýpt.
Nefndi ég  sem dæmi máli mínu til stuðnings kröfu frá Brüssel um að Íslendingar hættu að reka Íbúðalánasjóð í núverandi mynd á þeirri forsendu að hann skekkti samkeppnisstöðu bankanna! Ekki var spurt um hagsmuni almennings, aðeins hitt að tilvist Íbúðalánasjóðs gengi í berhögg við reglur „hins innri markaðar".
Nú gerðust undur og stórmerki. Þeir sem áður höfðu látið í veðri vaka að þeir vildu umræðu um Evrópumál virtust vilja kveða tal mitt niður umræðulaust! Varaformaður  Samfylkingar talaði um „heimsku" að ég skyldi voga mér að hreyfa þessum málum! Leiðarhöfundur Fréttablaðsins sagði að ég yrði að skýra mál mitt miklu betur ef taka ætti  „þingmanninn alvarlega."
Hvað skyldi yfirleitt þurfa til svo Fréttablaðið taki alvarlega umræðu sem ekki fer fram einhliða um kosti þess að ganga inn í Evrópusambandið? Blaðið virðist ekki eiga í nokkrum vandræðum með að taka gagnrýnislaust já-fólk  „alvarlega".
Hvernig skyldi annars standa á því að alltaf þegar efnt er til almennrar atkvæðagreiðslu um Evrópusamrunann í einstökum þjóðlöndum Evrópusambandsins þá verða miðstýringaráformin undir? Væntanlega er það vegna þess að fólki finnst stigið á lýðræðislegar væntingar sínar; að tilskipunum frá Brüssel um að leggja niður Íbúðalánasjóðina og markaðsvæða póst- og heilbrigðisþjónustuna  sé nokkuð sem því sé ekki gefið um. Jafnan þegar almenningur hefur gefið sinn úrskurð í þjóðaratkvæðagreiðslu, nú síðast á Írlandi,  rís stofnanaveldið upp og sendir almenningi tóninn.  Fólkið er sagt illa upplýst, skilji ekki hvað því sé fyrir bestu. Leiðarhöfundar dagblaða  segja iðulega  í hneykslan sinni að niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu sé varla hægt að taka alvarlega, svo heimskuleg sé hún.  Kannski er ég bara í ágætum félagsskap þótt mér takist ekki að þóknast hrokagikkjum í Samfylkingunni og leiðarahöfundum á Mogga og Fréttablaðinu.
Ögmundur Jónasson, alþingismaður