Fara í efni

AÐ SNÚA HLUTUNUM Á HVOLF


Sennilega er Þorsteinn Pálsson, fyrrum ritstjóri og pólitíkus, sannur íhaldsmaður. Hann er íhaldsmaður í þeim skilningi að í Fréttablaðspistli sínum í dag heldur hann sig  við nákvæmlega það sama og hann sagði í síðustu viku, og einnig þarsíðustu. Mér sýnist orðalagið meira að segja eins - alla vega er boðskapurinn sá sami.  Hann er sá að í landinu sitji ágæt ríkisstjórn - afsakið, í landinu sæti ágæt ríkisstjórn, ef ekki væru nokkrir vinstri sinnar í VG sem þvinguðu hana þráfaldlega frá því sem Þorsteinn kallar „hófsemdarhyggju" . 
Þorsteinn grætur það í Fréttablaðsgrein sinni að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra  vilji ekki  starfa í anda „Blairismans" heldur hafa félagsleg gildi að leiðarljósi. þetta er ekkert skrýtið. Tony Blair fyrrum forsætisráðherra Bretlands var álíka hægri sinnaður og ríkisstjórnirnar sem Þorsteinn Pálsson sat í á tíunda áratugnum í aðdraganda hrunsins, þeirra sem festu kvótekerfið í sessi, einkavæddu Póst og síma, rafmagnseftirlitið, heita vatnið  og fjárfestingarsjóði atvinnulífsins;  gáfu Síldarverksmiðjur ríkisins,  og undirbjuggu  einkavæðingu ríkisbankanna. Látum það liggja á milli hluta þótt Þorsteini Pálssyni finnist þetta vera „hófsemdarhyggja" í framkvæmd.
Það sem mig langar hins vegar til að leiðrétta hjá honum , bæði í skrifum hans í Fréttablaðinu í dag og á Sprengisandi Sigurjóns Egilssonar á Bylgjunni í morgun, er þegar hann gerir því skóna að „enginn grundvallarmunur" hafi komið fram í skattastefnu flokkanna á Alþingi í aðdraganda hrunsins. VG hafi að sönnu verið með „hófsömustu"  tillögurnar - les: minnstu skattalækkunaráformin - en viljað ganga lengra í útgjöldum en þáverandi ríkisstjórn. Þar af leiðandi hefði þjóðin verið ver sett með VG við stjórnvölinn á þessum tíma en hún þó varð.
Þetta er ótrúleg skrumskæling á veruleikanum og mælist ég til þess við Þorstein Pálsson að hann kynni sér málin betur og gerist vandaðri í málflutningi sínum.  
Staðreyndirnar eru þessar: Á árunum fyrir hrun varaði VG stöðugt við viðvarandi viðskiptahalla. Við vöruðum við skattalækkunarfagurgala, meðal annars í ljósi þess að skatttekjur ríkis og sveitarfélaga byggðu á ótraustum þenslusköttum, ekki síst vegna gríðarlegs innflutnings sem engan veginn væri sjálfbær. Þegar drægi úr þenslunni  kæmi í ljós að velferðarkerfið þyldi ekki þann niðurskurð í sköttum sem allir aðrir flokkar á Alþingi - aðrir en VG -  boðuðu.  Hitt er svo rétt hjá Þorsteini að umframtekjum ríkissjóðs vildum við verja til kjarabóta fyrir öryrkja og hina tekjulægstu í þjóðfélaginu jafnframt því sem við studdum ætíð að skuldir ríkisins væru lækkaðar; sögðum að einmitt það ætti að gera á þenslutímum þegar fjárstreymi væri mikið í ríkissjóð.  
Tillögur okkar voru yfirvegaðar með langtímahagsmuni að leiðarljósi og þykir mér stefna VG á þessum tíma  miklu meira í ætt við „hófsemdarhyggju" en sú stefna sem þeir Þorsteinn Pálsson og Tony Blair fylgdu þegar þeir sátu við stjórnvölinn í heimalöndum sínum.  En hvað sem mönnum þykir vera hófsamt annars vegar og öfgafullt hins vegar þá er lágmark að gera þá kröfu til stjórnmálaskýrenda að þeir fari rétt með staðreyndir og snúi hlutunum ekki á hvolf einsog Þorsteinn Pálsson gerir sig því miður sekan um.