Fara í efni

Ábyrgðarlaust af Framsókn að horfa aðeins til hægri

Snemma í morgun kom ég í útvarpsviðtal við Óðinn Jónsson hjá RÚV. Hann spurði út í kosningar og framtíðarhorfur hjá Vinsrihreyfingunni grænu framboði. Að því er ég best veit var allt satt og rétt sem fram kom í viðtalinu. Að því loknu fékk ég hins vegar upphringingu frá ágætum vini mínum. Hann sagði að Framsókn kæmist of auðveldlega hjá því að svara hvers vegna flokkurinn horfði einvörðungu til Sjálfstæðisflokksins um stjórnarmyndunarsamstarf. Mikið væri í húfi, þannig lægi í loftinu að Sjálfstæðisflokkurinn vildi fá heilbrigðisráðuneytið til þess að markaðsvæða innan heilbrigðisþjónustunnar sem aldrei fyrr. Hefði mér ekki verið alvara í Morgunblaðsgrein minni rétt fyrir kosningar um að kosið væri um framtíð heilbrigðisþjónustunnar? Ef ég hefði verið þeirrar skoðunar þá bæri mér nú skylda til þess að stuðla að stjórnarsamstarfi, stjórnarandstöðuflokkanna og Framsóknar. Og vinur minn hélt áfram: Framsókn og Samfylking gætu myndað meirihluta en hann stæði tæpt, VG gæti alla vega varið slíka stjórn falli gagnvart Sjálfstæðisflokknum en með atkvæðum sínum og málafylgju komið í veg fyrir stórslys í verlferðarmálum sem ekki væri hægt að útiloka ef þessir flokkar væru einir í stjórn. Þetta væri skárra en samstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks en sá síðarnefndi hefði það beinlínis á stefnuskrá sinni að einkavæða í heilbrigðiskerfinu.

Um þetta vil ég segja eftirfarandi: Vinstrihreyfingin grænt framboð lýsti því yfir fyrir kosningar að hún vildi að stjórnarandstaðan myndaði ríkisstjórn fengi hún til þess þingstyrk. Ég lýsti því einnig yfir að væri sá styrkur ekki fyrir hendi þætti mér koma til greina að þessir flokkar mynduðu samstjórn með Framsókn. Til þess þyrfti að sjálfsögðu að vera málefnalegur grundvöllur. Ef hann væri fyrir hendi myndum við að sjálfsögðu vilja slíka ríkisstjórn. Spurningin er til hvorrar áttar Framsókn vill líta. Framsóknarflokkurinn mun ekki geta sagt að á vinstri væng stjórnmálanna hafi ekki verið vilji til að kanna möguleika á stjórnarsamstarfi með miðjuflokkum.