Fara í efni

A RAVE FROM THE GRAVE

Þegar ég dvaldist í Bretlandi á árum áður hlustaði ég reglulega á útvarpsþátt þar sem flutt var dægurlagatónlist, einkum úr samtímanum en með reglulegu millibili voru þó leiknir gamlir slagarar, a rave from the grave, einsog og þáttastjórnandinn yfirleitt kynnti þá. Þessi skírskotun til grafarinnar kom upp í hugann þegar ég las grein eftir Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðarráðherra í Morgunblaðinu í morgun. Greinin ber yfirskriftina Rafmagnsveitur ríkisins hf.

Sömu gömlu blekkingarnar

Ástæða þess að fortíðin kom upp í hugann er sú að allt sem Valgerður Sverrisdóttir segir í grein sinni hefur verið sagt áður. Og allt sem hún segir hefur áður verið svikið. Valgerður segir að nauðsynlegt sé að breyta rekstrarformi Rafmagnsveitnanna vegna þess að slíkt bjóði upp á sveigjanlegri og hagkvæmari starfshætti. Alls ekki standi til að selja! Skyldu menn vera búnir að gleyma heitstrengingum stjórnvalda varðandi Landssímann, svo nýlegt dæmi sé tekið? Nánast alltaf þegar ákveðið hefur verið að einkavæða opinbera starfsemi hefur þetta verið aðferðafræðin: Fólki er sagt að einvörðungu sé verið að breyta rekstrarformi, hlutafélagaformið sé svo hagkvæmt! Síðan líður tíminn, yfirleitt ekki langur og þá er selt. Þannig var okkur sagt að hreint ekki stæði til að selja Landssímann. Þetta væri bara spurning um að Símanum yrði gert kleift að bregðast hratt við í markaðsþjóðfélagi.
Valgerður vitnar til útlanda: "Um alla Evrópu hefur svipuð þróun átt sér stað. Hlutafélagsformið hefur þar verið langalgengasta rekstrarform orkufyrirtækja hin síðari ár enda þykir það henta slíkum rekstri afar vel."

Slæmar afleiðingar markaðsvæðingar í Evrópu

Já, skyldu menn vera á einu máli um þetta? Ber ekki fréttum almennt saman um að hlutafélagavæðingin og einkavæðingin hafi reynst illa? Í Morgunblaðinu í dag er einmitt að finna grein um orkumál sem Grétar Júníus Guðmundsson skrifar og ber grein hans yfirskriftina Kuldahrollur í orkumálum. Þar segir m.a:"Fyrir tveimur vikum hótaði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins aðgerðum gegn þeim fyrirtækjum sem selja gas og rafmagn í sumum löndum Evrópu. Segir í frétt BBC að verulega skorti á samkeppni milli fyrirtækja á þessum mörkuðum. ESB lét framkvæma rannsókn á þessu máli vegna ábendinga frá bresku stjórninni, sem leist ekki orðið á blikuna hvað hækkanirnar hafa verið miklar."
Hörðustu markaðssinnar telja að markaðsvæðing raforkugeirans muni eiga eftir að reynast vel en viðurkenna að sá tími sé greinilega ekki kominn. Gagnrýnendur telja hins vegar að í Evrópu stefni í fákeppni. Valgerður orkumálaráðherra á Íslandi hefur engar efasemdir. Hún segir m.a.: "Ljóst er að hörð samkeppni er framundan á raforkumarkaði. Með opnun raforkumarkaðar um næstu áramót er stigið enn eitt skrefið fram á við í þeim efnum en þá geta landsmenn keypt rafmagn af þeim sem þeir kjósa helst, hvar á landinu sem viðkomandi orkusali er. Eykst þá samkeppni orkufyrirtækja til muna og til að standast hana verða fyrirtækin að verða í stakk búin til að bregðast fljótt við aðstæðum sem upp kunna að koma hverju sinni. Ljóst er að miðað við núverandi rekstrarform verður slíkt erfitt fyrir Rafmagnsveitur ríkisins."

Valgerður tali skýrar

Þetta virkar sannast sagna á mig sem staðhæfingar út í loftið. Hverju þarf að bregðast svona hratt við? Nú á hlutaféð – eina hlutabréfið í Rafmagnsveitunum -  að heyra undir iðnaðarráðherra, það er að segja Valgerði Sverrisdóttur. Hverju yrði hægt að bregðast hraðar við á skrafi við Valgerði Sverrisdóttur en þegar fyrirtækið lýtur almennum stjórnsýslulögum, sem fyrst og fremst er ætlað að tryggja gagnsæi og réttindi starfsfólks? Ráðherrann verður að tala skýrar.  

Samvinna eða samkeppni?

Síðan verður tími til að tala um samkeppnina. Á Íslandi er líklegt að til gætu orðið tvö raforkufyrirtæki. Það er þó engin trygging fyrir því að þau yrðu fleiri en eitt. Vel má þó vera að hér yrðu tvö fyrirtæki sem kepptu sín í milli. Hvort árangurinn fyrir neytendur yrði meiri eða minni en hann hefði orðið ef stuðlað hefði verið að samvinnu í stað samkeppni skal ósagt látið. Gömlu samvinnumennirinr í Framsókn hér fyrr á tíð – meira að segja ekki fyrir svo ýkja löngu – hefðu ekki velkst í vafa um svarið. Þeir hefðu mælt með samvinnunni en ekki samkeppninni þegar um væri að ræða grunnþjónustu, sem allt þjóðfélagið þyrfti á að halda. Þeir voru líka samvinnumenn, ekki fylgismenn einsýnnar markaðshyggju eins og nú er komin í tísku í Framsóknarflokknum. Þetta væri ekki alvarlegt mál ef ekki væri fyrir þá sök að Framsókn ræður framvindu þessara mála. Ábyrgð kjósenda Framsóknarflokksins er ekki lítil.