Fara í efni

Á KVEÐJUSTUND


Í vikunni fór fram útför móður minnar Guðrúnar Ö. Stephensen. Séra Þórir Stephensen frændi hennar jarðsöng og fylgir ræða hans hér að neðan ásamt minningargreinum. Ræða séra Þóris var samin af skilningi og innsæi og var hún um margt fróðlegur spegill á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar þegar ungt fólk án mikilla efna var að brjótast til náms og síðan vinna hugsjónum sínum brautargengi.
Gnægð átti Guðrún Ö. Stephensen af hugsjónum og líf hennar sjálfrar var þeim fagur vitnisburður. Hún var hugrökk og staðföst og vissi hvað hún vildi. En til sannleikans gerði hún þó aldrei tilkall: "Hún átti því ekki sannleikann, en hitt þráði hún, að sannleikurinn mætti eiga hana og því var hans sífellt leitað." Þetta sagði séra Þórir svo réttilega í minningarorðum sínum og komst þannig að sjálfum kjarnanum í hugsun móður minnar. Ólafur B. Andrésson, orðaði þetta líka vel í minningargrein sinni þegar hann sagði að Guðrún Ö. Stephensen hefði ekki verið kona stórasannleika heldur hafi hún verið kona nálgana.
Hún var hvorki kona kreddu né isma og þegar Björn Patrick frændi minn sagði hana hafa verið trúaða konu þá bætti hann við að aldrei minntist hann þess að hafa heyrt hana ræða trúmál. Hennar trú var trúin á hið góða og á mátt bænarinnar. Umgjörð lét hún liggja á milli hluta - hélt alla vega slíku fyrir sjálfa sig.
Barnið skipaði alltaf æðsta sess í allri hugsun móður minnar. Barninu átti að sýna væntumþykju og virðingu, aldrei skipa eða skamma, heldur ræða málin og framkalla góða breytni með rökræðu og fortölum og ekki síst góðu fordæmi. "Það má aldrei brjóta vilja barns", sagði hún, "það á að vera leiðarljós í uppeldi barna að virða þau sem einstaklinga. Þannig á að koma fram við þau og þannig munu þau læra að virða aðra."


Minningargreinar
Morgunblaðið 19. janúar 2011

Mér er minnisstætt þegar ég hitti Guðrúnu tengdamóður mína í fyrsta sinn. Mér fannst hún hafa svo fallegt bros, og hún lagði höndina yfir mína og hélt henni þannig allan tímann sem við töluðum saman. Það stafaði frá henni mikilli hlýju, sem við sem vorum í nánasta umhverfi hennar fengum óspart að njóta.
Hún hafði ung farið til Stokkhólms og New York til náms og starfa. Hana þyrsti í menningu og menntun og var brennandi í andanum. Hún naut sín vel í stórborgum, og raunar var hún heimsborgari að upplagi. Hún þráði að víkka sjóndeildarhringinn og kynna sér uppeldi ungra barna sérstaklega. Hún taldi að uppeldi ætti að mótast með samræðum og fordæmi en ekki boðum og bönnum. Hún var mikill jafnréttissinni og sagði að jafnréttið byrjaði heima, í uppeldinu. Hún gaf drengjunum sínum dúkkur til að leika sér að, og ól þá upp til að taka þátt í heimilisstörfunum.
Ég stend í mikilli þakkarskuld við hana fyrir það hvað hún var ákveðin í að ég þyrfti ekki að hætta námi þótt ég eignaðist barn í náminu miðju. Henni fannst sjálfsagt að faðirinn sæi um uppeldi barnanna til jafns við móðurina. Hún styrkti son sinn í því að vera heima og gæta barnsins á meðan ég var í skólanum og dvaldi þá oft hjá okkur langdvölum. Þetta var fyrir 36 árum og í þá daga var langt frá því að það væri talið sjálfsagt að feður væru »bara« heima.
En þó að henni væri jafnrétti ofarlega í huga, þá var samt hagur barnanna í fyrirrúmi. Henni fannst þau þurfa athygli og umönnun foreldra sinna fyrstu árin, en einnig sagði hún að það væri mikilvægt að þau þroskuðust í gegnum leik við önnur börn. Hún vildi styðja og styrkja foreldra (oftast mæður) til að vera heima hjá börnum sínum, en taldi slæmt ef þær einangruðust inni á heimilunum. Hún hafði kynnst opnum leikskóla í Svíþjóð, og hafði hugmyndir um að koma upp aðstöðu hér, þar sem foreldrar kæmu saman með börn sín til uppbyggilegra samverustunda, en gætu einnig skotist frá. Hún hélt um þetta erindi og skrifaði greinar, og eftir nokkra eftirgrennslan stakk hún upp á því að nýtt væri húsnæði í kirkjum og safnaðarheimilum undir þessa starfsemi. Þetta varð svo kveikjan að svokölluðum „mömmumorgnum" sem eru víða í kirkjum.
Hún lagði mikið upp úr hollustu - allt átti að vera úr bestu hráefnum og ekta. Hún ræktaði grænkál og malaði sjálf hveiti í grænkálsjafning. Þegar við byrjuðum að búa gaf hún okkur safavél til þess að við gætum gefið börnunum ferskan grænmetis- og ávaxtasafa.
Guðrún tengdamóðir mín var mild kona í öllum verkum sínum, en hún var jafnframt viljasterk og sjálfstæð. Hún innrætti börnum sínum að sækjast aldrei eftir vinsældum, heldur fylgja góðum málstað. Hún talaði oft um hve mikilvægt það væri að láta ekki glepjast af tískustraumum í duttlungagjörnum heimi, heldur hlusta á samvisku sína og ráð þeirra sem maður mæti mikils.
Minningin um Guðrúnu Ö. Stephensen mun ylja okkur um ókomin ár og verða okkur hvatning til góðra verka.
Valgerður Andrésdóttir

Þegar ég velti fyrir mér hver er munurinn á því að hafa völd eða áhrif þá kemur mér fyrst í hug hún, þessi merkilega og sérstaka manneskja sem við kveðjum í dag. Hún var frumleg í hugsun og heimsborgari að eðlisfari. Að vera samferða henni næstum öll mín fullorðinsár auðgaði líf mitt og barna minna. Hún hafði ekki nein formleg völd fremur en margar konur af hennar kynslóð. En hún hafði mikil áhrif á alla sem komust í snertingu við hana. Áhrifin sem hún skilur eftir í huga okkar sem henni kynntumst eru dýrmæt og þeirra áhrifa mun gæta svo lengi sem við lifum. Þau munu einnig skila sér áfram til næstu kynslóða. Þannig lifir andinn þótt efnið hverfi. Manneskjur sem hafa áhrif á aðra, marka djúp spor í verund og vitund samferðamanna sinna, lifa áfram. Guðrún Ö. Stephensen skilur eftir sig andleg verðmæti og það voru þannig verðmæti sem henni voru hugleikin.
Hún lagði alltaf gott til málanna þótt hún væri langt í frá skoðanalaus. Alltaf lagði hún áherslu á það góða og jákvæða og kunni einstaklega vel að ná fram því besta sem býr í hverri manneskju. Sérhver manneskja var sérstök í hennar augum og hvert barn einstaklingur sem átti rétt á að fá sérsniðna umhyggju og athygli allt eftir sínum þörfum og persónuleika. Þessa athygli gaf Dúna öllum sem hana umgengust. Það eina sem allir þyrftu í jöfnum mæli væri kærleikur. Hún var þeirrar skoðunar að ekkert væri til sem héti of mikill kærleikur. Besta veganestið væri ástúðlegt uppeldi, því allir ættu rétt á að njóta hamingju. Og öllum börnum væri hollt að eiga góðar minningar úr bernsku.
Guðrún var mikill heimsborgari, ferðaðist til Evrópu og Ameríku á unga aldri og af eigin rammleik, stundaði nám í uppeldisfræði, talaði Norðurlandamál og ensku með miklum ágætum og eignaðist vini beggja vegna Atlantsála, sem hún hélt tryggð við ævilangt. Henni var afar hugleikið hvernig hægt væri að styrkja ungar mæður og efla tengsl þeirra á milli og voru mömmumorgnar á vegum kirkjunnar að verulegu leyti byggðir á hugmyndum hennar. Þannig hafði hún áhrif þótt hún hefði engin völd, bæði með kærleiksboðskap sínum og hugmyndum, eins og merkar konur hafa gert um aldir alda.
Blessuð sé minning hennar.
Elísabet Guðbjörnsdóttir

Amma okkar. Stolt, lífsglöð, ákveðin og hrífandi. Eins og góður maður sagði, hún var brennandi í andanum. Brennandi í áhuga sínum á uppeldi, menntun, réttlæti og þjóðmálum. Hún fylgdist vel með því sem var að gerast í samfélaginu. Tvö útvörp og eitt sjónvarp í gangi og blöðin lesin upp til agna. Amma Guðrún fylgdist líka vel með því hvar hvert og eitt okkar barnabarnanna var statt í lífinu og gaf okkur góð ráð samkvæmt því. Hún hafði fádæma gott innsæi sem alltaf mátti treysta. Hún benti okkur á að leita hins góða; í sjálfum okkur, samferðamönnunum og alheiminum. Hennar ósk okkur til handa var að við værum hamingjusöm og að fást við eitthvað sem okkur fyndist skemmtilegt og gefandi. Sú hvatning sem hún veitti okkur með áhuga sínum og tiltrú var ómetanleg. Í minningunni er mynd af ömmu þar sem hún situr hnarreist og horfir út í sólina, bláu augun leiftrandi og einbeitt. Augnablikin eru mörg og þau búa í eilífðinni. Við þökkum elsku ömmu Guðrúnu fyrir samveruna.
Ragnheiður, Guðrún Anna og Stefán Árni

Þegar við systkinin fórum fyrst að heiman og fórum utan til náms, hvert um sig, þá studdi amma Guðrún þær fyrirætlanir heils hugar. Amma fór sjálf ung til útlanda og þurfti talsvert á sig að leggja til að láta drauma sína rætast. Hún hafði mikinn áhuga á menningu og menntun og taldi mikilvægt að víkka sjóndeildarhringinn og leita þekkingar sem víðast.
Amma sá líka til þess að við færum vel búin að heiman, með hlýtt teppi, vandaða sæng og síðast en ekki síst góða bók. Úr landsuðri eftir Jón Helgason fylgdi okkur fyrstu skrefin í útlöndum.
Amma hafði alltaf mikinn áhuga á hvað við barnabörnin vorum að gera og framtíðaráformum okkar. Þetta sátum við oft og ræddum í eldhúsinu hjá henni. Þá sagði hún okkur sögur af fólki sem hafði orðið á leið hennar í gegnum tíðina, bæði frá Bandaríkjunum og Svíþjóð svo og af Íslendingum sem henni þóttu markverðir. Hún hafði áhuga á viðhorfi fólks til lífsins og hvernig mætti draga lærdóma af reynslu og viðhorfi annarra.
Amma Guðrún var flott kona. Hjá henni fékk maður holla næringu, bæði fyrir sál og líkama. Hún hugsaði mikið um hollustu í mataræði og var langt á undan sinni samtíð í þeim efnum. Maður fékk hirsi hjá ömmu og grænkál og ýmiss konar baunir. Hún átti það til að halda samkvæmi þar sem boðið var upp á baunabuff og ýmsa grænmetisrétti. Þetta var löngu áður en grænmetisstaðirnir voru opnaðir í Reykjavík. En fyrst og fremst leið manni alltaf vel með ömmu Guðrúnu. Hún var svo róleg, yfirveguð, lífsreynd en umfram allt bjartsýn manneskja. Hún sá alltaf það jákvæða í fari fólks.
Það er ómetanlegt að hafa átt ömmu Guðrúnu að, og hennar nálgun á hlutina og smitandi áhugi er okkur dýrmætt veganesti um ókomin ár.
Andrés, Guðrún og Margrét Helga

Sem krakki gekk ég ekki í hefðbundinn leikskóla heldur átti kost á því að vera hjá ömmu og afa. Við kölluðum það að fara í Ömmuskóla og var það réttnefni, þetta var ekki bara pössun heldur hinn besti skóli.
Ótal minningar streyma fram þegar hugsað er um Ömmuskóla. Ég minnist þess að búa til listaverk úr kertavaxi og að stelast í mysuostinn. Að fylgjast með ruslabílnum keyra inn Melhagann á meðan amma hlustaði á lestur frétta í útvarpi og að skoða pollana fyrir ömmu ef við vorum á leiðinni út. Ef á þeim voru hringir setti amma plast yfir höfuðið til að verja hárgreiðsluna.
Ofarlega í huga er eplakökubakstur ömmu í Ömmuskóla. Væri von á gestum átti amma nefnilega til að skella í eplaköku. Hún var í miklu uppáhaldi þeirra sem hana smökkuðu. En þá var ekki sagt: „Jæja Björn minn, nú ætla ég að baka - reyndu að hafa ofan af fyrir þér á meðan." Því fór fjarri, allir fengu hlutverk og voru hvattir til þátttöku. Til voru tvö form; formið hennar ömmu og formið mitt. Við hrærðum deig í bæði formin og svo fengu gestirnir að velja af hvorri kökunni þeir fengu sér sneið. Sumir tóku af minni köku, og þá brostum við amma.
Amma og afi höfðu bæði þennan merkilega hæfileika til að virkja þá sem í kringum þau voru. Allir tóku þátt og höfðu gaman af. Í þessu samhengi minnist ég einnig matvinnsluvélarinnar hennar ömmu. Í henni var gerður ferskur gulrótasafi, og það var ætíð mikið ævintýri þeirra sem að komu. Allt skyldi vera hollt.
Amma var trúuð, trúði á það góða í heiminum. Hún trúði á kærleikann og sýndi í verki hvað er að vera góður við náungann. Ég minnist þess ekki að hafa rætt trúarbrögð við ömmu, en frá blautu barnsbeini minnist ég ömmu ræða um mikilvægi kærleikans og gildi þess að trúa á það góða. Líklega hef ég ekki skilið þetta í fyrstu, en nú síðustu ár hef ég lært að meta sannleikann í þessum orðum.
Ég útskrifaðist aldrei úr Ömmuskóla, ekki frekar en hin barnabörnin. Við vorum öll nemendur fram að síðustu stundu. Hinstu samtöl okkar ömmu fjölluðu um framtíðarplön og ferðalög, vonir og væntingar. Þá, sem endranær, var hægt að treysta á ömmu til að hlusta og gefa ráðleggingar. Henni var geysilega umhugað um gang okkar allra og hún hafði yndi af því að fylgjast með hverju skrefi barna- og barnabarna sinna. Það verður skrítið að hittast ekki lengur í sunnudagskaffi hjá ömmu.
Elsku amma. Takk fyrir allt sem þú hefur veitt mér, ég mun búa að því alla tíð og vona að ég geti gefið það áfram. Ég hugsa til þín, og bið að heilsa afa.
Björn Patrick Swift

Amma var hlý, góð og skilningsrík. Hún var vitur og óendanlega rík af sögum sem bæði leiðbeindu mér í gegnum frumskóg bernskunnar sem og unglingsár.
Amma átti það til að vera eina manneskjan í heiminum sem skildi hvað ég var að ganga í gegnum og það að geta hlaupið yfir á Melhagann í frímínútum og hádeginu var stundum það eina sem kom til greina, og þá hafði hún alltaf tíma til þess að fara yfir málin og styrkja barnssálina sem hafði orðið fyrir hnjaski.
Til hennar var hægt að leita með spurningar um allt milli himins og jarðar og hún hafði einstakt lag á að koma manni í skilning um það hvað var mikilvægast í lífinu, að elska og vera fjölskyldurækinn. Þegar fullorðinsárin komu var hún alltaf reiðubúin að takast á við umræður um ástina og lífið.
Amma hafði mikla trú á að fallegar hugsanir kæmust á leiðarenda og nú hugsa ég fallega til hennar.
Anna Lísa Björnsdóttir

Þar sem ég sit hér og skrifa þetta get ég varla trúað því að hún sé farin. Mér finnst ég hljóti að geta tekið upp símann og hringt í hana, en svo er ekki. Eitt bjartasta ljósið í lífi mínu er farið, en heldur áfram að skína í hjarta mínu.
Hún amma Dúna var bæði verndari minn og vinur sem hlustaði á mig án fordóma. Hún var ávallt tilbúin til að hugga mig og hughreysta. Hún skilur eftir margar góðar minningar, í gegnum árin hefur hún umvafið mig hlýju og veitt mér leiðsögn. Hún var heiðarlegasta og hlýjasta manneskja sem ég hef nokkurn tímann kynnst og með umburðarlyndi á við dýrling. Hún amma mín var líka rosalega klár, mjög sjarmerandi og alltaf með hlýtt bros á vör. Hún gat líka verið rosalega fyndin eins og þegar hún sagði manni sögur, hvort sem það var frá ferðum hennar erlendis eða ævintýrum sem lítið barn í Hólabrekku, hafði hún þann einstaka eiginleika að draga mann inn í söguna og lék oft persónur úr sögunum eins og leikari. Í gegnum árin hef ég sagt vinum mínum þessar sögur með miklu stolti en aldrei hefur mér tekist að segja þær eins og hún gerði. Hún kenndi mér að láta hjartað ráða för og mikilvægi þess að standa við loforð sín og prinsíp, ásamt því að ávallt vera tilbúinn til þess að hjálpa öðrum. Hún kenndi mér mikilvægi karakters og heiðarleika.
Amma og afi eru ástæðan fyrir því að ég bý að því að eiga hlýja og nána fjölskyldu sem hefur verið mér styrk stoð allt mitt líf. Hún amma bjó yfir þeim töfrum að láta manni alltaf líða eins og maður væri miðpunktur alheimsins og hafði alltaf áhuga á því sem maður var að gera. Ég mun sakna þess að borða hádegismat með henni í eldhúsinu með útvarpið í botni og spjalla um heima og geima og svo að hádegisverði loknum að fá sér lúr á bláa sófanum í stofunni. Hvergi hef ég verið eins öruggur og elskaður og hjá henni ömmu.
Ég gæti fyllt Morgunblaðið með minningum og lýsingum af ömmu Dúnu, en ég er hræddur um að það sé ekki nægilegt pláss, því verð ég að hætta hér. Ávallt þegar við kvöddumst tók amma í höndina á mér og sagði: »Hamingjan ávallt fylgi þér ástin mín.« Ég veit svo lengi sem ég hef þig í hjarta mér mun hún gera það og megi friður vera með þér elsku amma mín.
Jónas Bergmann Björnsson

Andartakið, heiðskír heimur trúar vonar og kærleika, trú manna á breyttan og bættan heim, umbylting í anda og sannleika, vendipunktur, frelsun. Hún var á Timestorgi við stríðslok. Ung kona við nám og störf á barnaspítala í New York.
Guðrún Ö. Stephensen átti sér draum um að menntast og starfa með ungum börnum. Styðja og styrkja börn til þroska. Hún hafði hugrekki til að láta þennan draum sinn rætast þrátt fyrir mótbárur margra í hennar samtíma. Áður en leiðin lá til Bandaríkjanna hafði hún verið við nám í Svíþjóð með styrk frá Jónasi frá Hriflu, sem var eins og hún, framsýnn maður.
Börn og uppeldismál skipuðu alla tíð öndvegi í huga Guðrúnar. Allir áttu að fá að njóta sín. Hún var fulltrúi margbreytileikans. Jafnrétti var afdráttarlaust í huga hennar og átti ekki að geta leitt til mismununar á nokkru sviði. Í uppeldi gaf hún barninu orðið og fékk það til að segja hug sinn. Leiðbeindi með samræðu frekar en skipunum.
Guðrún var menntakona í besta skilningi þess orðs. Hún var vel lesin og íhugul, fylgdist með samtímanum fram á síðasta dag af áhuga og innsæi. Var lifandi þátttakandi í viðræðu um hugðarefni sín. Hún var næm á mannlegar tilfinningar. Eftir samræðu við Guðrúnu hafði maður oftast dýpri skilning á viðfangsefninu og það sem ekki var verra, stundum örlítinn skilning á sjálfum sér.
Guðrún Ögmundsdóttir Stephensen var heimspekingur, spurði oft stórra spurninga og leitaði svara. Hún var kona nálgana frekar en stóra sannleika, víðsýn og hjartahlý, brennandi í andanum fyrir betri heimi.
Kynni mín af Guðrúnu Ö. Stephensen hófust fyrir rúmum þrjátíu árum þegar sonur hennar og systir mín hófu sambúð. Það hefur reynst mér gott veganesti að eiga þessa öðlingskonu að vini. Konu sem hafði í fyrirrúmi velferð og líðan samferðamannsins.
Móðir mín biður fyrir kveðju og þakkar vináttu, félagsskap og tryggð.
Ólafur B. Andrésson

Hver minning dýrmæt perla,
að liðnum lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug
þakka hér.
Þinn kærleikur í verki er gjöf sem
gleymist eigi
og gæfa var það öllum er fengu að
kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir.)

Það var svo sannarlega mín gæfa þegar Jónas B. föðurbróðir minn giftist henni Dúnu sinni, en það var Guðrún mín kölluð af sínum nánustu, þó að ég kallaði hana alltaf Guðrúnu. Þessi frábæra kona var mér sem önnur móðir frá fyrstu kynnum og með árunum þróaðist einlæg vinátta okkar og kærleikar, sem urðu mér dýrmætari með hverju árinu sem leið.
Guðrún var menntaður uppeldisfræðingur en þegar hún og frændi minn stofnuðu heimili helgaði hún sig eingöngu heimilinu og uppeldi barnanna og síðar barnabarna. Frændi minn fékk frá henni eindreginn stuðning, bæði í sínu starfi sem kennari og fræðslustjóri og einnig í sínum félagsstörfum sem skáti, skátahöfðingi og Oddfellowfélagi. Þar var hún á hliðarlínunni; hennar staður var heimilið, börnin og uppeldið. Heima voru málin rædd og voru þau hjón jafningjar á sviði menntunar og uppeldisfræðslu. Og hún uppskar eins og hún sáði. Á nánast hverjum degi heimsótti hún eitthvert barna sinna og varði með þeim kvöldstund og það sýnir samstöðuna í fjölskyldunni þegar börnin, tengdabörn og barnabörn komu saman hvern sunnudag á Fálkagötunni og borðuðu saman léttan hádegisverð. Saman nutu þau Jónas margra ferða til annarra landa og var Svíþjóð þeim einkar hugleikin og áttu þau marga vini frá þeim tímum.
Mikil og einlæg vinátta var milli foreldra minna og Guðrúnar og Jónasar og voru þau með í öllum ráðum og gjörðum hvað mig varðaði frá upphafi.
Ég fékk að kynnast fjölskyldu Guðrúnar, Hólabrekkufjölskyldunni, og þau vöndust því að ég væri viðbót við frændsystkini mín á Melhaganum. Miklir kærleikar voru milli þeirra Hólabrekkusystkina. Ég hef átt margar góðar stundir með því góða fólki í gegnum árin.
Síðustu ár Guðrúnar minnar hafa verið henni erfið. Hún hefur háð margar orrustur og unnið, en nú er stríðinu lokið og hvíldin henni kærkomin. Hún saknaði Jónasar mikið og komst aldrei yfir lát hans. „Ó, hann bóndi minn," sagði hún stundum við mig þegar við töluðum saman. Það jafnaðist enginn á við hann. Fjölskyldan öll var ætíð vakin og sofin yfir henni og síðustu erfiðu vikurnar á spítalanum viku þau ekki frá henni. Skiptust á að vera hjá henni allan sólarhringinn.
Þessi ótrúlega og sterka kona náði 96 ára aldri og áður en síðustu hremmingar dundu yfir var eins og að tala við jafnaldra sinn, svo skýr var hún og minnug. Og aldrei þreyttist hún á að brýna fyrir okkur gildi samstöðu fjölskyldunnar.
Guðmundur bróðir minn, Vilborg og þeirra fjölskylda, mín börn og fjölskyldur senda fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur.
Ég kveð með söknuði yndislega konu sem haft hefur mikil áhrif á mig í mínu lífi. Frændsystkini mín kær og ykkar fjölskyldur: Leyfið góðum minningum að flæða og yljið ykkur við þær. Hún var óendanlega stolt af ykkur öllum.
Vertu kært kvödd, elsku Guðrún mín.
Ingibjörg Björnsdóttir

Elskuleg föðursystir okkar Þorsteinsbarna hefur nú kvatt þennan heim í hárri elli, síðust þeirra systkina frá Hólabrekku.
Á slíkum tímamótum hrannast upp minningabrotin frá löngu liðnum tíma. Mér er það í barnsminni þegar þær systur, Sigga og Dúna, komu í heimsókn á Laufásveginn, þá var öldin önnur þegar fólk heimsótti hvert annað vel og lengi og er mörgum eftirsjá að því.
Þegar Dúna var ung kona brá hún undir sig betri fætinum og fór til Ameríku til að víkka sjóndeildarhringinn og naut hún þess mjög. Líklegt er að í þeirri ferð hafi kviknað áhugi hennar á barnauppeldi sem vakti með henni æ síðan og lagði hún sitt af mörkum til framfara í þeim efnum oftsinnis. Síðar átti hún eftir að ferðast víða um heim með manni og börnum.
Ég varð ósegjanlega stolt og glöð þegar frænka mín og nafna trúlofaðist Jónasi B. Jónssyni, miklum uppáhaldskennara mínum úr Laugarnesskóla. Er ekki að orðlengja það að þau Dúna giftust og eignuðust fjögur mannvænleg börn.
Fjölskyldur okkar áttu margar góðar stundir enda kært með þeim systkinum og mamma Thea og Dúna urðu einnig mjög góðar vinkonur.
Þegar á ævina leið má segja að við frænkur höfum bundist nánari vináttuböndum. Þá ræddum við oft saman í síma og fórum í gönguferðir um Ægisíðuna. Enda var það hennar líf og yndi að ganga um og njóta útiloftsins. Á þessum samverustundum okkar kynntumst við mjög vel og báðar höfðum við gagn og gaman af.
Læt ég svo hér staðar numið og þakka fyrir mig og sendi hlýjar kveðjur frá okkur systkinum, Stefáni, Kristjáni og Helgu og bið Guð að blessa frænku mína og allt hennar fólk.
Guðrún Þ. Stephensen

Yndisleg kona er látin 96 ára að aldri. Guðrún, eða Dúna eins og hún var kölluð, var einstök kona sem fylgdist með öllu og var lifandi í andanum fram á síðustu daga. Þegar ég kom til hennar á spítalann nokkrum dögum fyrir andlátið fagnaði hún mér innilega, spurði um börnin okkar, hélt fast um hendur mínar og bað að heilsa Ásgeiri og okkar fólki. Það var kveðjustund og henni líkt að bera umhyggju fyrir okkur og börnunum en minnast ekki á sín erfiðu veikindi.
Dúna og Jónas, sem var föðurbróðir Ásgeirs, en hann lést fyrir nokkrum árum, voru okkur hjónum afar kær frá okkar fyrstu kynnum. Var það einkum áhugi okkar allra og störf að skóla- og uppeldismálum sem tengdi okkur saman, og ekki síður börnin okkar og velferð þeirra, en elsta dóttir okkar og yngsti sonur þeirra voru jafnaldrar og gengu í sama skóla í Vesturbænum.
Það voru margar ánægjustundirnar sem við hjónin áttum með þeim Jónasi og Dúnu er við ræddum skóla- og uppeldismál á þeim árum er börnin voru að vaxa úr grasi og þau að laga sig að nýjum siðum og reglum skólanna. Dúna hafði ríka tilfinningu fyrir því að komið væri fram við ungviðið af virðingu og réttlæti og að börn og ungmenni fengju að njóta hæfileika sinna. Um mismunandi siði og reglur sem giltu í hinum ýmsu skólum gátu orðið hinar líflegustu umræður og augljóst að Dúna var ekki ætíð sátt við fyrirkomulagið þegar það stríddi á móti réttlætiskennd hennar. Dúna var mjög vel að sér í uppeldis- og menntamálum, las mikið og lagði alltaf fram vel ígrundaðar skoðanir. Einkum var henni umhugað um starfið í leikskólum borgarinnar enda hafði hún góða þekkingu á því sviði. Síðustu árin á Grímsstaðaholtinu voru þau Jónas og Dúna í mikilli nálægð við börnin sín og nutu ástríkis þeirra og umhyggju. Við brottför Dúnu er gott að ylja sér við góðar minningar og það vitum við að börnin þeirra og afkomendur allir gera í ríkum mæli. Innilegar samúðarkveðjur til þeirra allra.
Blessuð sé minning hennar.
Ásgeir og Sigríður

Látin er heiðurskona og uppeldisfrömuður, Guðrún Ö. Stephensen, kær frænka mín og föðursystir, sú síðasta af Hólabrekkusystkinunum. Dúna var menntuð í uppeldisfræðum, austan hafs og vestan, og naut þess alla ævi að sinna þeim málum - í þröngum hópi sem víðum - ekki sízt með manni sínum Jónasi B. Jónssyni fræðslustjóra. Hún átti margt samband við gamla vini og félaga í menntamálum og þau hjónin mynduðu sterk tengsl við samstarfsfólk á þeim vettvangi.
Dúna var einlægur sósíalisti og þar átti hún drjúga samleið með foreldrum mínum. Hún aðhylltist mjög hina gömlu sænsku sósíaldemókrata. Það var unun að hlusta á hana ræða um velferðarpólitíkina í Skandinavíu á Palme-tímanum. Hugmyndafræði folkhemmets var henni kær. Í Hólabrekkufjölskyldunni nutum við starfsvettvangs þeirra hjóna. Það bárust þroskaleikföng áður en það var búið að finna upp orðið, barnahúsgögn sem voru óþekkt fyrirbrigði um miðja síðustu öld, uppeldisfræði Benjamin Spock o.fl., o.fl. Það skorti heldur ekki á hrósið þegar Dúna hafði hitt kennarana okkar og góð orð höfðu fallið.
Fjölskyldutengslin, sósíalisminn, virðingin og hlýjan gerðu það að verkum að ýmsir sérstakir hlutir voru gerðir. Eitt sinn í flenzufaraldri fékk ég að vera í Melhaganum þar sem móðir mín var erlendis. Ég átti að láta Dúnu vita ef Jón Torfi fengi óráð. Hún kom og spurði hvernig gengi en mér fannst bara bullið svo skemmtilegt að mér datt ekki í hug að það væri óráð. Ögmundur var risinn úr pestinni, hafði farið út í búð og sýndi okkur á rúmstokknum hina stórmerku uppfinningu mjólkurhyrnuna. Svona mætti lengi telja og það fer aldrei á milli mála hversu sterk tengslin eru í Hólabrekkufjölskyldunni.
Upp úr standa hjá mér minningar frá árunum þegar ég flutti til Svíþjóðar með tvö börn og eitt á leiðinni. Þá voru Jónas og Dúna í afa- og ömmuhlutverki fyrir börnin mín. Sunnudagsmatur á Lugnet með löngum stundum yfir fréttum, umræður um skólagöngu barnanna - t.d. hvort þau ættu að fara í Waldorfskóla. Per Albin Hansson og Tage Erlander komu líka við sögu. Fyrir allt þetta og miklu fleira er ég þakklát.
Sigríður Stefánsdóttir

„Kynslóðir koma, kynslóðir fara, allar sömu ævigöng. Gleymist þó aldrei eilífa lagið við pílagrímsins gleðisöng."
Svo segir í fögrum sálmi sem vísar á himneskan lofgjörðarsöng er hljómaði á Betlehemsvöllum og endurómar í hjörtum sem leiðarstef að komanda ríki Guðs. Fráfall góðrar vinkonu í byrjun árs minnir á tímans straum og nið en líka trúarstef því að jól lýsa fram á veginn.
Guðrún Ö. Stephensen lifði langa ævi, dýrmæt ástvinum og samferðamönnum. Hún óx upp af traustum ættarstofni í Hólabrekku á Grímsstaðaholtinu og bar með sér holla mótun og menningararf, þar sem þjóðhollusta og réttlætisþrá, listir og lífsvirðing áttu sér skjól.
Guðrún skildi þörf þess að hlúa vel að vaxandi lífi enda menntuð í uppeldisfræðum á Norðurlöndum og í Vesturheimi. Dýrmætt var að kynnast þeim hjónum, Guðrúnu og Jónasi B. Jónssyni, fræðslustjóra og skátahöfðingja, á Melhaga 3, þegar við vorum bekkjarbræður Ögmundar sonar þeirra í menntaskóla. Við áttum þar athvarf á viðkvæmu þroskaskeiði og kynntumst systkinum Ömma, Jóni Torfa, Ingibjörgu og Birni. Þau hjón sýndu okkur skilning og hlýju og urðu trúnaðarvinir. Guðrún leiðbeindi af nærfærni, vakti traust og tiltrú, var uppörvandi og þóttist sjá í okkur ómótaða hæfileika. Hún hvatti til skoðanaskipta en minnti á að virðing yrði að ríkja í samræðum og samskiptum. Heimilið á Melhaganum var fagurt en látlaust, lýsti fágun og smekkvísi. Blátt sófasett og píanó í stofu, málverk af Snæfellsjökli og fleiri listaverk og bókaskápar með úrvalssafni íslenskra og erlendra bókmennta.
Þótt leiðir okkar lægju í ýmsar áttir í framhaldsnámi lágu þær enn á Melhagann til að rækta vináttu og leita ráða. Guðrún var fórnfús og sjálfgleymin og gladdist að sjá lífið dafna umhverfis sig. Hún hefur haft áhrif á hve eiginmaður hennar Jónas B. varð farsæll menntafrömuður sem innleiddi merkar nýjungar í skólastarfi. Börn þeirra hjóna bera uppruna sínum og ræktarsemi foreldra sinna fagurt vitni og yngstu lífssprotarnir eru gróskumiklir. Ánægjulegt var að skíra barnabörn Guðrúnar og sjá þau þroskast og mannast. Gefandi var að líta til þeirra hjóna er þau öldruð höfðu fært sig af Melhaganum yfir á Fálkagötu sem var nærri Hólabrekku, sjá þar enn tignarlega jökulmyndina og hve þau hlúðu vel hvort að öðru. Guðrún hélt þar heimili að Jónasi látnum. Gott var að hitta hana með ástvinum hennar, sem komu þar saman um helgar, og ræða við hana um listir og ljóð og Guðstrúna sem leiðarljós og stefnumið á lífsleiðinni.
Guðrún var söm og fyrr þótt af henni væri dregið þegar hún lá yfir hátíðarnar á sjúkrahúsi. Jólaljóð og sálmar fengu góðar viðtökur og hljómgrunn í hjarta hennar, því að þar ómaði unaðssöngur trúar, vonar og elsku.
„Fjárhirðum fluttu fyrst þann söng Guðs englar, unaðssöng, er aldrei þver."
Margs er að minnast og þakka við brottför Guðrúnar á Drottins fund. Guð blessi minningu hennar og fullni líf hennar í himinljósi og lýsi ástvinum veginn fram.
Gunnþór, Gunnar og Loftur

Kveðja frá skátum
Látin er í hárri elli Guðrún Ö. Stephensen. Við skátar þekkjum hana sem eiginkonu skátahöfðingjans Jónasar B. Jónssonar. Óhætt er að fullyrða að félagsmálamenn eins og Jónas B. var fá ekki áorkað öllu því sem raun ber vitni, samhliða fullu krefjandi starfi, án þess að njóta til þess stuðnings sinna nánustu. Við skátar þökkum Guðrúnu fyrir hennar stuðning og sendum fjölskyldunni samúðarkveðjur með þessu ljóði Hrefnu Tynes, sem starfaði með Jónasi B. í stjórn Bandalags íslenskra skáta um árabil.

Sofnar drótt, nálgast nótt,
sveipast kvöldroða himinn og sær.
Allt er hljótt, hvíldu rótt.
Guð er nær.
(Kvöldsöngur skáta)

F.h. stjórnar Bandalags íslenskra skáta,
Bragi Björnsson,
skátahöfðingi

 

Minningarorð séra Þóris Stephensen við athöfn í Dómkirkjunni

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Frænka mín og mikill vinur, Guðrún Ö. Stephensen, er látin. Hún kvaddi þetta líf á Landakotsspítala 11. janúar sl. eftir skamma en harða hríð veikinda, sem ekki varð við ráðið.
Á samverustundum mínum með henni, börnum hennar og ástvinum öðrum hefur skilningur minn á lífsstarfi frænku minnar orðið æ skýrari, sem og skynjun mín á andlegum tengslum innan þessa hóps. Þetta kallar fram í huga minn brot úr ljóði eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi:

                   Því aðeins fær þú heiðrað og metið þína móður,

                   að minning hennar verði þér alltaf hrein og skýr,

                   og veki hjá þér löngun til að vera öðrum góður

                   og vaxa inn í himin, þar sem kærleikurinn býr.

Þegar þetta ljóð varð til, horfði Davíð til fullorðinnar konu. Skyggnum augum sá hann margt, sem ekki er öllum augljóst, en hann leyfir okkur að líta með sér, er við horfum undir hönd honum í ljóði hans.
Það sem við blasir, snertir viðkvæma strengi, vekur minningar, minnir á hans eigin móður. Hann sér í höndum hennar fórnfýsi og þrek. Frá augum hennar geislar ástríki og umhyggju hins skilyrðislausa kærleika og hugsjónum honum tengdum. Skáldið finnur, að einmitt slík minning hefur örvandi, hvetjandi áhrif til góðs fyrir það sjálft og líf þess, og skilur þá, hvers virði slík kona er.
Þegar líf móðurinnar hefur verið þannig, að það vekur löngun til að efla allt hið góða og fagra og rækta það innra með einstaklingnum, þegar það eflir jákvæði hans og veldur því, að hug við himin ber, þá er ekki á því vafi, að fyrir mjög mikið er að þakka. Þannig lífsundirstaða verður ekki metin sem skyldi, en Guð ber að lofa, sem slíka konu hefur gefið, móður, tengdamóður, ömmu og langömmu.
Þannig er það hér og nú. Þess eðlis eru minningarnar, sem vakna hér á kveðjustund. Guðrún Stephensen var hið áhrifaríka kærleiksafl í lífi ykkar. Allt sem hún átti best í sjóði hjartans, það var ykkur helgað og þeim hugsjónum, er gætu orðið ykkur og samfélagi ykkar til blessunar.
Allt sem göfugast grær í hugum ykkar, er þannig á einhvern hátt henni tengt. Þið skynjið, að hennar verður best minnst, með því að þið skilið arfi hennar áfram, hreinum og tærum, ræktið hug hennar í lífi ykkar og meðal samferðamannanna. Því hef ég gert hið tilvitnaða ljóð skáldsins frá Fagraskógi að einkunn og yfirskrift þessarar stundar:

                   Því aðeins fær þú heiðrað og metið þína móður,

                   að minning hennar verði þér alltaf hrein og skýr,

                   og veki hjá þér löngun til að vera öðrum góður

                   og vaxa inn í himin, þar sem kærleikurinn býr.

 Guðrún var fædd í Hólabrekku á Grímsstaðaholti 30. október 1914, dóttir hjónanna Ingibjargar Þorsteinsdóttur og Ögmundar Hanssonar Stephensen. Hún ólst upp í foreldrahúsum næstyngst sex systkina, sem upp komust og kveður nú síðust þeirra.
Skyldunám sitt sótti Guðrún í Miðbæjarskólann, en lærði einnig á þeim árum að leika á orgel hjá Sigvalda Kaldalóns frænda sínum. Síðan beið tveggja vetra nám í Kvennaskólanum. Eftir það fór Guðrún til skrifstofustarfa, vann um tíma í Dögun, prentsmiðju Stefáns bróður síns, og síðan í Félagsprentsmiðjunni. En þetta fullnægði ekki andlegum þörfum. Henni var ljóst, að hún varð í senn að fá að víkka sjónhring sinn og hlýða þeirri köllun að reyna að fá einhverju áorkað til góðs í lífinu. Hugur hennar stefndi til Svíþjóðar. Þess vegna lagði hún stund á sænskunám og er hún hafði fengið styrk frá Menntamálaráði og tekið bankalán til að fjármagna námsferð til Stokkhólms, þá var starfi sagt upp og haldið á fengsælli mið fyrir hug hennar og þrá.
Hún var þar um skeið við nám í félags- og uppeldisfræðum. Er heim kom, fór hún til starfa hjá Barnavinafélaginu Sumargjöf og vann á heimilum þess hin næstu missiri, veitti m.a. forstöðu vöggustofu í Tjarnarborg. Hún naut þess að geta komið þar að ýmsu því sem hún hafði séð og numið í Svíþjóð.
Henni var barnið og lífshamingja þess, sem einstaklings og vitsmunaveru, algjört hjartans mál. Sú hugsun var miðlæg í vitund hennar, að setja barnið í öndvegi. Betri leið til hamingju þjóðar var, í hennar augum, ekki til. En hún fann æ betur, að sannleikurinn í þeim efnum er víðfeðma og verður seint fangaður allur. Hún átti því ekki sannleikann, en hitt þráði hún, að sannleikurinn mætti eiga hana og því var hans sífellt leitað. Hér heima voru fleiri en hún við leit á þessum vettvangi. Hún frétti m.a. af áhugaverðu verkefni, svonefndri nýskólastefnu, inni í Laugarnesi. Þar voru menn óhræddir við að fara út fyrir hefðbundna námsskrá og virkja nemendurna æ betur, með því að leyfa hverjum og einum að vinna með sínum hraða á grundvelli eigin skilnings og getu. Þetta var áhugaverð stefna um að rækta virðingu fyrir einstaklingnum sem slíkum og stöðu hans. Samfara þessu var svo komið upp sérkennslu og sálfræðiþjónustu. Þetta rímaði vel við hugsun Guðrúnar og virtist vera frábært framhald af stefnunni, sem hún hafði mótað innra með sér fyrir yngstu börnin. Er hún fór að kynna sér viðhorf þeirra, sem þarna voru stefnumótandi, kynntist hún manninum, sem var þar í forystu, ungum Húnvetningi, Jónasi B. Jónssyni frá Torfalæk. Þau skynjuðu bæði, að hugir þeirra áttu samleið og fylgdust því vel, hvort með öðru.
Hin víðlendu veldi mannsandans, sem ung, hugumstór kona skynjaði æ betur eftir því sem lífsreynslan óx, ollu því að  Guðrún Stephensen vildi enn víkka bæði sjóndeildarhring sinn og þekkingarsvið. Orð Ingibjargar móður hennar fylgdu henni alla tíð: Að læra fyrir lífið og að læra til verka. Þær unnu mikið saman á þessum árum hjá Sumargjöf nöfnurnar og bræðradæturnar, Guðrún Stephensen og Guðrún Guðbjörg Stephensen, dóttir Stefáns Hanssonar bróður Ögmundar í Hólabrekku. Sú síðar nefnda hafði komið víða við í starfinu og síðari árin einkum sem forstöðukona. Á þessum árum deildu tvær stefnur hér á landi um leiðir í uppeldismálum, önnur sænsk undir forystu Ísaks Jónssonar, hin amerísk undir leiðsögn Steingríms Arasonar. Guðrún Guðbjörg hafði farið vestur og var þar í tvö ár undir handarjaðri Steingríms. Hún kom heim 1942. Líklegt má telja, að þær frænkur hafi borið saman bækur. Hvorug þeirra var fullkomlega ánægð með stefnuna hér. Þær vildu vinna öðru vísi, ná meiri árangri í starfinu fyrir börnin  og Guðrún Ögmundsdóttir hugsaði því einnig til Ameríkuferðar, enda ekki í önnur hús að venda á þessum árum.
En þangað var hvorki auðvelt né hættulaust að komast, enda  síðari heimsstyrjöldin í algleymingi, og í skipalestinni, sem Guðrún Guðbjörg kom með heim, höfðu einhver skip verið skotin niður af kafbátum. En Guðrúnu í Hólabrekku héldu engin bönd. Hún trúði því, að kærleikans guð myndi vernda hana og hjálpa henni til að vinna köllunarverk sitt. Þess vegna bar hún höfuð hátt, yfirgaf starf sitt hér og lagði í Ameríkuför 28 ára gömul. Hún var hálft annað ár í New York, vann á barnaspítala, sem sinnti ekki síst börnum í erfiðleikum. Jafnframt sótti hún námskeið í Columbiaháskólanum og las þar ensku, þýsku og heimspeki, sem hún heillaðist af. Hún var stödd á Times Square, þegar friði var fagnað 8. maí 1945. Það var svo yndislegt að lifa það, að ófriðaröldurnar lægði og ungri konu svall móður í brjósti að fara heim og bjóða fram krafta sína til að skapa þar nýja framtíð, þar sem víðsýnið skín.
Guðrún áttaði sig snemma á því  að lífið er barátta milli góðs og ills og að maðurinn á val. Hún ákvað að hasla sér völl og gerast einarður baráttumaður hins góða afls, láta ljósið lýsa upp myrkrið. Og hún hlaut að byrja í grasrótinni, sinna nýgræðingnum, ungviðinu, hlúa að börnunum í samfélaginu, reyna með fræðslu og góðu fordæmi að skapa þeim sem best skilyrði til þroska í skjóli og umhyggju foreldranna. Hún vildi vinna að því, að börnin yrðu sem mest með mæðrum sínum, taldi, að ekkert gæti komið í staðinn fyrir það. Hún lagði líka áherslu á góða samvinnu og réttláta verkaskiptingu föður og móður á heimilunum, sem mættu ekki sleppa hendinni of snemma af börnunum. Hún sá leikskólastigið sem stuðning við heimilin, þar kynntust börnin, lærðu að umgangast hvert annað og nutu fólks, er var sérmenntað til að annast þau.
Hún barðist á seinni árum fyrir stofnun opins leikskóla og það fæddi svo af sér hugmyndina um mömmumorgnana í kirkjunum, nafn sem jafnréttissinnaður frændi hennar fékk síðar breytt í foreldramorgna. Þetta er mjög þarft starf, sem nú hefur verið unnið í meira en tvo áratugi, komið úr hugmyndasjóði Guðrúnar Stephensen.
Ég benti á það hér fyrr í máli mínu, að Guðrúnu var barnið og lífshamingja þess, sem einstaklings og vitsmunaveru, algjört hjartans mál. Þetta var grundvallarhugsun í vitund hennar, að setja barnið í öndvegi. Betri leið til hamingju þjóðar var, í hennar augum, ekki til. Þarna er hinn kristni húmanismi í sinni tærustu mynd. Ég þekki í raun ekkert annað hugmyndakerfi, sambærilegt kristindómnum, sem gerir barnið svo miðlægt, sem hann.  En hvað þýðir þetta? Þegar menn spurðu Jesú, hver væri mestur í himnaríki, kallaði hann til sín lítið barn, setti það á meðal þeirra og sagði: Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki. Hver sem auðmýkir sjálfan sig eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki. Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér.
Auðmýkt og hreinleiki barnsins, vaxtarþrá þess áfram og hærra, eru styrkleiki þess. En það þarf stuðning ástar og umhyggju, svo að það njóti sín og verði sáðkorn gæfuríkrar framtíðar manns og heims. Allt þetta skildi hún frænka mín svo vel. Lífsköllun hennar var að hlynna að barninu, hjálpa því að ná því sem Kristur talar um. Sjálf var hún lifandi dæmi um manneskju, þar sem hreinleikinn og göfgin eru svo sterk, að þau geisla af svip hennar, stjórna orðum og athöfnum, skapa virðingu og væntumþykju. Það er ykkar lán barnanna hennar og ástvinahópsins. Því leitum við enn til upphafsins, orða skáldsins frá Fagraskógi:

                   Því aðeins fær þú heiðrað og metið þína móður,

                   að minning hennar verði þér alltaf hrein og skýr,

                   og veki hjá þér löngun til að vera öðrum góður

                   og vaxa inn í himin, þar sem kærleikurinn býr.

Og undir þau orð hljótum við reyndar öll taka, sem kynntumst Guðrúnu Stephensen og nutum hennar á einn eða annan hátt, því hún var sífellt að leggja gull í lófa framtíðar.
Guðrún hélt áfram sjálfstætt heimili á Fálkagötunni, eftir lát Jónasar 2005. Aldur var orðinn hár, en hugsun öll hrein og klár. Hún vildi ekki vera annarsstaðar. Ég forgangsraða ekki öryggi, sagði hún. Ég forgangsraða frelsi. En þar var líka einkar vel um hana hugsað af hópnum hennar, og þegar hún fór á sjúkrahúsið við upphaf aðventu, þá var hún aldrei ein, en umvafin ást  allt til loka, sem urðu 11. janúar, en þá kvaddi hún þetta líf á 97. aldursári.
Ég las hér fyrr páskaguðspjallið, sem boðar okkur, að þótt líkaminn deyi, þá lifir sá hugur, sem gaf okkur í Guðrúnu, það sem við erum að þakka í dag. Hann er himninum tengdur, uppsprettu og athvarfi kærleikans. Við horfum á eftir henni þangað til samfélags við Krist og ástvinina sem á undan voru farnir, til þess enn og meira að starfa Guðs um geim. Við finnum, að nú er það okkar að vaxa, já, að stefna, til þeirrar myndar, sem var hennar fyrirmynd, - þess ....  „að vera öðrum góður og vaxa inn í himin þar sem kærleikurinn býr."
Í þeim ásetningi skal hér þakkað og kvatt. Það gerir ástvinahringurinn allur, mágafólk, frændur og vinir, samherjar og samferðamenn aðrir. Þrjár kveðjur með hugheilli þökk eru langt að komnar, -  frá mikið elskaðri dótturdóttur, Emmu Marie, Ívari eiginmanni hennar og börnum þeirra í Bandaríkjunum, -  frá kærri frænku, Þórunni Einarsdóttur, og fjölskyldu hennar í Danmörku og loks frá bróðursyni ágætum Jóhanni Stephensen á Norðfirði.

        Við segjum öll:

                            Far þú í friði,

                            friður Guðs þig blessi,

                            hafðu þökk fyrir allt og allt.

                                      Í Jesú nafni amen.