Fara í efni

Á EINELTISVAKTINNI MÁ ALDREI SOFNA

Í dag er eineltisdagurinn. Lengi vel birtum við í sameiningu blaðagrein á þessum degi, ég sem stjórnmálamaður og Helga Björk Grétu- Magnúsardóttir, aktívisti og baráttukona. Þessar greinar má finna á þessari heimasíðu.

Einelti lifir því miður “góðu” lífi í skólum, á vinnustöðum og innan veggja margra heimila.
Enginn vafi leikur þó á því að almennt gerir fólk sér betur grein fyrir því hve skaðlegt einelti er fyrir þann sem verður fyrir því en einnig hópinn sem það ástundar. Það á því að vera algert forgangsmál að kveða niður einelti hvar sem það er að finna.

Þess vegna má aldrei sofna á vaktinni eins og segir í millifyrirsögn áhrifaríkrar blaðagreinar eftir Kolbrúnu Baldursdóttur, sálfræðing og fulltrúa Flokks fólksins í Reykjavík. Hún birtir í dag af tilefni dagsins tvær verulega góðar greinar, annars vegar í Morgunblaðinu og hins vegar í Fréttablaðinu.
Ég hvet alla til að lesa þessar greinar eftir Kolbrúnu en á undanförnum árum hefur hún lagt verulega þungt lóð á vogarskálar í þessari umræðu með vönduðum málflutningi.
Á hún lof skilið fyrir stðafestu sína.