Fara í efni

6 – 6 – 6

Sæll Ögmundur.
Fjölmiðlar greina frá því þessa dagana að Finnur Ingólfsson sé á leiðinni aftur í stjórnmálin. Fór hann einhvern tíma úr þeim? Það vantar hugmyndaflug og vit í þá sem um fjalla. Svaraði Finnur ekki kalli þegar ríkisstjórnin í einkavinavæðingunni auglýsti: Háseta vantar á bát? Var það ekki Finnur sem tók með sér Ólaf Ólafsson og Bakkavararbræður inn í Búnaðarbankann og Símann? Var það ekki Finnur sem egndi í gegnum aðstoðarmenn Halldórs Ásgrímssonar og hjálparkokka gildrurnar sem Halldór gekk í?  “Fréttastjóramálið” muna menn eftir því? Hverjir keyrðu þá karúsellu? Mér finnst að sumu leyti eftirsjá að Halldóri Ásgrímssyni þótt hann hafi lent hægra megin við kjósendur sína. Verra er að hann skuli falla af stalli fyrir gjörðir nánustu samstarfsmanna. Það er ekki óþekkt í stjórnmálasögu Vesturlanda, en alltaf jafn leiðinlegt á að horfa. Fjölmiðlar greina frá því að Halldór hætti á þriðjudaginn og að þá komi Finnur sterkur inn, 6. júní 2006. Í hópi auðtrúaðra hlýtur það að hafa einhverj merkingu. Er ekki fínt að fá Finn og geta rætt við hann eitt og annað sem tengist einkavæðingu og breytingu á verðgildi hlutabréfa Ögmundur? Og óneitanlega verður forvitnilegt þegar Finnur, eins og allir ráðherrar framsóknarmanna gerðu, birtir opinberlega langan lista yfir eigur sínar og ítök í fyrirtækjum, félögum og sjóðum.
Kv.
Stefán