Fara í efni

WIKILEAKS VANN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 29/30.06.24.
Julian Assange stofnandi Wikileaks-fréttaveitunnar er frjáls maður. Undanfarin fimm ár hefur hann setið í Belmarsh-fangelsinu í London án dóms og laga á meðan tekist var á um það hvort fara skyldi að kröfu Bandaríkjastjórnar um framsal til Bandaríkjanna. Þar yrði hann látinn svara til saka fyrir að koma á framfæri upplýsingum um stríðsglæpi Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra, og ef fundinn sekur hefði það getað þýtt fangelsisdóm upp á hundrað sjötíu og fimm ár.

Enda þótt tekist væri á um framsalsmálið í dómsölum mátti augljóst vera að það væri pólitískt fremur en lagalegs eðlis. Sýna þyrfti fjölmiðlafólki fram á að fréttir af stríðsglæpum „okkar manna“ væru saknæmar og leiddu til þungra dóma. „Íslandsvinurinn“ Pompeo, fyrrum yfirmaður CIA, bandarísku leyniþjónustunnar, og síðar utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að Wikileaks væri „fjandsamleg njósnastofnun“ og væri það forgangsmál að koma henni fyrir kattarnef.

Margir helstu fjölmiðlar í okkar heimshluta hafa verið furðu leiðitamir stjórnvöldum, til dæmis látið ummæli eins og þessi óátalin. Vandi þessara fylgispöku fjölmiðla og fáorðu um hlutskipti Julian Assange, allt frá því hann leitaði hælis í sendiráði Ekvador í London árið 2012, hefur verið sá, að forboðnu fréttirnar frá Wikileaks höfðu þeir sjálfir birt. Samsekt væri því augljós ef menn á annað borð vildu líta á það sem sekt að upplýsa um glæpi og mannréttindabrot.

En aftur að framvindu málsins. Það reyndist ekki þrautalaust fyrir bresku lögregluna að ná Julian Assange úr sendiráði Ekvador og koma honum í breskt fangelsi. Það tókst ekki fyrr en eftir stjórnarskipti í Ekvador og eftir að svo heppilega hafði viljað til að landinu hafði boðist sérstök fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Við það liðkaðist samvinnan um að hafa Julian Assange undir.

Í Bandaríkjunum átti Assange fáa vini. Pompeo lýsti hug Repúblikanaflokksins sem áður segir og demókratar fyrirgáfu ekki glatt birtingu Hillary bréfanna svonefndu sem lýstu inn í myrkan hugarheim Hillary Clinton, utanríkisráðherra og síðar forsetaframbjóðanda, í tengslum við árásirnar á Líbíu, svindl í hennar þágu í innbyrðis átökum Demókrataflokksins vegna framboðs Bernie Sanders og fleira.

Margt annað var fært í dagsljósið vegna fréttaflutnings Wikileaks fyrir og eftir fangelsun Julian Assange og eigum við fréttaveitunni það að þakka að við fengum vitneskju um fjölmargt sem hljótt átti að fara, mengunarglæpi vestrænna fyrirtækja í Afríku og Asíu, alþjóðlega viðskiptasamninga sem Bandaríkin og Evrópusambandið vildu að færu leynt, sjónarspilið í Sýrlandi 2018 þegar sett var á svið efnavopnaárás sýrlenska stjórnarhersins til að réttlæta enn eina árás NATÓ ríkja á landið, Samherjaskjölin sem frægt var og margt fleira mætti telja til.

Allt þetta olli því að innan NATO fjölskyldunnar var fátt um vini. Þannig tóku Svíar, sem þegar stóðu í anddyri hernaðarbandalagsins og löngu hættir að reyna að vera óháð ríki, þátt í því að spinna lygavef um meint nauðgunarmál í Svíþjóð og krefjast framsals Assange til Svíþjóðar þótt eiginleg ákæra kæmi aldrei fram þar i landi. Lögfræðingar Assange sem stöðugt voru á varðbergi gagnvart framsali vildu hins vegar að saksóknarar kæmu frá Svíþjóð til Englands svo að yfirheyrslur gætu farið fram þar sem Julian Assange væri niður kominn. Það var þegar þessu var hafnað sem Assange leitaði ásjár hjá sendiráði Ekvador. Síðar kom fram að ríkissaksóknari Bretlands hafði tekið beinan þátt í aðförinni að Julian Assange, meðal annars lagst gegn því að Svíar yrðu við óskum Assange um að yfirheyrslur færu fram í Bretlandi. Ríkissaksóknarinn á þessum tíma var Keir Starmer, sami maður og nú er formaður breska Verkamannaflokksins og sennilega verðandi forsætisráðherra Bretlands.

Sjálfur kynntist ég vinnubrögðum bandarísku leyniþjónustunnar i þessu máli þegar hingað til lands kom heil tylft saksóknara til að fá íslensk stjórnvöld til að aðstoða við að búa til ákæru á hendur Assange. Þetta var sumarið 2011 og var ég þá innanríkisráðherra. Ég var ekki á því að taka þátt í slíkri svívirðu og varð það mikið móðgunarefni. Eftirmenn mínir í starfi reyndu löngu síðar að bæta fyrir þessar misgjörðir af Íslands hálfu með því að veita bandarísku leyniþjónustunni aðstoð þegar fulltrúar hennar komu í svipuðum erindagjörðum vorið 2019. Var það látið heita svo að um væri að ræða eðlilega lögreglusamvinnu.

Staðreyndin er hins vegar sú að aldrei hefur verið neitt sem kalla má „eðlilegt“ við þetta mál. Þetta var ofbeldi ætlað til viðvörunar öllum þeim sem voguðu sér að upplýsa um glæpi sem framdir væru í nafni „vestrænna gilda“.

En slík var mótmælaaldan sem reis í heiminum Julian Assange og Wikileaks til varnar að ógerlegt reyndist að halda málinu til streitu. „Játning“ hans nú er sú ein að hafa birt gögn sem áttu að fara leynt, nokkuð sem Assange hefur aldrei neitað að hafa gert enda alltaf sagt að stríðsglæpir eigi ekki að fara leynt. Bandaríkjamenn höfðu með öðrum orðum ekki sitt fram og því til staðfestingar er að Julian Assange er laus úr haldi.

Vonandi á Wikileaks eftir að dafna á komandi árum eins og fréttaveitan hefur gert undir styrkri stjórn Íslendingsins Kristins Hrafnssonar. Ástæða er til að óska honum til hamingju með árangur erfiðis síns, svo og að sjálfsögðu Julian Assange og fjölskyldu hans sem hafa þurft að þola ofsóknir og ranglæti í hálfan annan áratug.
En nú er ástæða til að fagna enda var það Wikileaks sem vann.

---------------------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.