Fara í efni

VINUR HÉR, ÓVINUR ÞAR OG HVAÐ ÞÁ?

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 10/11.02.24.
Fyrir rúmu ári átti ég samræðu við kúrdískan vin minn um stöðu mála í Austurlöndum nær. Á þessum tíma bárust fréttir frá Íran af ofsóknum á hendur Kúrdum þar í landi og þá sérstaklega konum. Mótmælaalda reis um heimsbyggðina alla og undirskriftalistar voru látnir ganga í háskólum í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum írönskum konum til stuðnings. Ekki ætla ég að lasta slíkt átak, þvert á móti er þetta einmitt það sem heimurinn þarf á að halda, þrýstingur úr grasrótinni. Ráðandi öfl gera nefnilega ekkert ótilneydd nema það henti þeirra eigin hagsmunum.

En einmitt þarna staðnæmdumst við vinur minn í okkar samræðu. Ég sagðist hafa lesið textann í umræddu stuðningsbréfi og væri hann mjög áþekkur svipuðum áskorunum sem fóru sem eldur í sinu um Vesturlönd í aðdraganda þess að NATÓ réðst á Líbíu um árið og sprengdi hana aftur á steinöld. Enginn véfengdi nú þær hörmungar sem árásin olli og til marks um það væru þrælamarkaðirnir sem tóku að blómstra á nýjan leik í landi sem hafði ótvírætt verið á framfarabraut - en vel að merkja, vildi halda utan um eigin auðlindir. Sá var glæpurinn.

Allt hafði verið vel undirbúið, Gaddafi Líbíuforseti gerður að réttdræpri ófreskju í augum umheimsins með áhrifamiklu áróðursátaki og í texta undirskriftaskjalanna var ákall um að “alþjóðasamfélagið” gripi til aðgerða í Líbíu.
Og nú var svipaður texti aftur kominn á kreik með áskorun um að “alþjóðasamfélagið” gripi til aðgerða gegn Íran.

Ég spurði vin minn, sem er margverseraður í þeim flækjum sem einkenna stjórnmál á hans heimaslóð, hvernig hann færi að þegar hann stæði frammi fyrir því sem virtist vera réttlát barátta fólks gegn ofbeldi eigin stjórnvalda, eins og greinilega væri í Íran, en hann grunaði jafnframt andstæðinga ríkisins um græsku. Þeir vildu nýta sér stöðuna til að kynda undir úlfúð og illindum og beita síðan þvingunum, jafnvel hervaldi í eiginhagsmunaskyni.
Og ég bætti því við að Vesturlönd væru sérlega útfarin í þessari íþrótt. Alls kyns viðurkenningar, bókmennta- og mannréttindaverðlaun, streymdu til stjórnarandstæðinga, og sendinefndum og útlagastjórnum væri tekið opnum örmum þegar svona stæði á.

Vinur minn átti ekki í vandræðum með að svara þessu:
“Láttu þér í léttu rúmi liggja hvað stórveldin eða hjálparkokkar þeirra gera. Ef þú eltir þann söfnuð þá villist þú af leið því hann hugsar einvörðungu um eigin hag og snýst með vindinum, er vinur í dag, óvinur á morgun.
Þetta þekkjum við Kúrdar vel og reyndar allt mið-austrið og Afríka sem gömlu nýlenduveldin skildu eftir með tilbúinni landamæraskipan sem aldrei hefur gengið upp og mun aldrei ganga upp hvað sem líður öllu tali um heilög landamæri.”

Og áfram hélt hann:
“Bandaríkjamenn studdu svo dæmi sé tekið, ISIS, Íslamska ríkið, í upphafi Sýrlandsstríðsins vegna þess að líklegt þótti að með tilstyrk þess yrði stjórn Assads snarlega felld en sú var ætlan þeirra. Þegar ISIS fór á hinn bóginn að vegna of vel og komast yfir olíulindir sneru Bandaríkjamenn við blaðinu og studdu nú Kúrda í Norður-Sýrlandi því þeir einir virtust færir um að kveða niður ISIS. Þetta líkaði Erdogan Tyrklandsforseta illa sem leit á Kúrda, hvar sem þá var að finna, sem ógn við sig og réðst gegn þessum sömu Kúrdum og Bandaríkjamenn studdu. Bandaríkjamenn voru svo aftur á móti á bandi Erdogans gegn Kúrdum innan landamæra Tyrklands enda Tyrkland í NATÓ sem skilgreinir baráttusveitir Kúrda sem hryðjuverkasamtök.”

“Og enn um mótsagnir og flækjur”, hélt vinur minn áfram: Staðfastur stuðningsaðili Kúrda hefði verið Gaddafi og viti menn, stundum einnig Ísrael. Þegar Kúrdar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu stofnun sjálfstæðs ríkis í Írak árið 2017 hafi nánast allur heimurinn verið á móti þeim og stutt stjórnina í Bagdad að hafa af þeim verðmætustu olíusvæðin áður en þeir fengju málamynda sjálfstæði innan Íraks. En það hafi verið ein undantekning þarna á, Netanyahu forsætisráðherra Ísraels! Aftur á móti hafði ísraelska leyniþjónustan, ásamt þeirri bandarísku og tyrknesku, rænt Öcalan Kúrdaleiðtoga og sett hann í fangelsið þar sem honum hefur verið haldið innilokuðum síðasta aldarfjórðunginn til að koma í veg fyrir hvers kyns sátt við Kúrda. Hávær gagnrýnandi Ísraels fyrir grimmdarverk í Palestínu væri svo aftur Erdogan, sá hinn sami og beitti efnavopnum gegn þorpsbúum í Kúrdabyggðum í landamærahéruðum Tyrklands!”

“Það eina sem rétt er að gera,” botnaði vinur minn nú ræðu sína, “er að fara á vettvang og hlusta á það fólk sem vandinn brennur á. Þá færðu oftar en ekki aðra mynd en frá sófasitjandi stríðsæsingafólki fjarri vígaslóð.”

Ekki þurfti fleiri orð við mig. Auðvitað á að hlusta á fólkið sjálft í Palestínu til að heyra hvert hlutskipti þess sé og hafi verið, ofsóttar konur í Íran og rússneskumælandi fólkið í austurhluta Úkraínu átti að leyfa sjálfu að skýra frá sínu hlutskipti löngu fyrir innrás rússneska hersins. Svo mætti fara til allra þeirra svæða þar sem stríð geisar en enginn vill vita af. Það er ekki að ástæðulausu að ætíð er reynt að gera það tortryggilegt þegar farið er á vettvang “röngum megin” víglínunnar því þá geta stríðshönnuðir ekki lengur tryggt eintóna stuðning við stríðsrekstur sinn.

Í mínum huga er þetta augljóst. Við eigum ekki að láta stjórnast af áróðri hervelda heldur virkja eigin dómgreind, setja fórnarlömbin í öndvegi og friðinn á dagskrá.

Ég vek athygli á að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda.