Fara í efni

VILJA NÁ AUÐLINDUNUM OG EINKAVÆÐA ELLINA

1. mái ávarp Finnbjörns A. Hermannssonar, forseta ASÍ, er hnitmiðað. Hann bendir á að fjármagnsöflin vilji komst yfir auðlindir þjóðarinnar til lands og sjávar, “landið, vindinn og vatnið” og jafnframt þessu, hyggist stjórnvöld “hefja einkavæðingu ellinnar með grundvallarbreytingu á rekstri hjúkrunarheimila.”

Forseti ASÍ segir augljóst að hlunnfara eigi þjóðina eina ferðina enn!

Það er ástæða til að fagna orðum Finnbjörns A. Hermannsonar, forseta ASÍ, og þá einnig hvatningu hans um árvekni. Hana hefur illilega skort. Afleiðingarnar höfum við fyrir sjónum m.a.  í nýju frumvarpi um sjókvíaeldi þar sem fjárfestum - aðallega norskum - er boðið upp á ígildi eignarhalds á íslenskum fjörðum. Þar má hinn almenni maður sín lítils: https://www.visir.is/g/20242564910d/-thad-er-norskur-sigur-i-dag-

Sérstaklega fagna ég ásetningi forseta Alþýðusambandsins að vilja koma í veg fyrir að “einkavæðing ellinnar” verði hafin.

Vandinn er sá að sú vegferð er þegar hafin og hafa mörg skref verið stigin í þessa átt á undanförnum árum. Síðastliðið haust var á afdrifaríkan hátt lagður grunnur að markaðsvæðingu öldrunargeirans með ákvörðun ríkisstjórnarinnar að draga sig út úr öllu eignarhaldi á húsnæði stofnana öldrunarþjónustunnar. Allt þetta hefur gerst hægt og hljótt.
Heimildin hefur beint kastljósi að einkavæðingu á sviði heilbrigðismála og er framlag blaðsins mjög mikilvægt inn í þetta umræðuleysi.

Aðrir fjölmiðlar sem ekki hafa kveikt á þessu mættu gjarnan horfa til Heimildarinnar að þessu leyti.
Að öðrum kosti gerist þetta áfram hljóðlega í boði stjórnvalda.

Hér eru ávarpsorð forseta ASÍ:
https://www.asi.is/frettir-og-utgafa/frettir/almennar-frettir/1-mai-kvedja-forseta-asi-2024/

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.