Fara í efni

VEL MÆLT SIV

Siv Friðleifsdóttir, fyrrum alþingismaður og heilbrigðisráðherra skrifar hörkugóða grein á vísi.is í dag þar sem hún þakkar starfsfólki ÁTVR þrautseigju en gagnrýnir jafnframt stjórnvöld, þar með lögregluyfirvöld, fyrir að sinna ekki lögbundnu hlutverki sínu.
En málið snýst ekki aðeins um lög eins og fram kemur í grein Sivjar heldur einnig um siðferði, félagslega ábyrgð og lýðheilsu.

Stjórnvöld styðja lögleysu með aðgerðaleysi

Ólögleg áfengissala sem blómstrar í skjóli meðvirkra stjórnvalda veltir þegar milljörðum króna. Þetta er látið viðgangast af hálfu lögreglu og dómskerfis að ógleymdri ríkisstjórn og Alþingi. ALLAR heilbrigðisstéttir landsins eru á sama vagni og Siv Friðleifsdóttir eða hún á þeirra vagni.
Ég hvet lesendur síðunnar til þess að lesa grein Sivjar. Eftirfarandi er bútur úr greininni. Þar kemur fram sú von að lýðheilsan muni hafa betur en gróðaöflin.

Vonandi sigrar lýðheilsan

“Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sat fyrir svörum Morgunblaðsins þann 7. ágúst sl. og hélt á lofti að málshraði í málum er snerta ungmenni hefði verið aukinn um 500%. Áhersla væri á svokallaða snemmtæka íhlutun og að ný fjárveiting Alþingis hefði orðið til þess að unnt hefði verið að fjölga stöðugildum rannsóknarlögreglumanna og eins þeirra sem fara með ákæruvald í málum sem lögregla annast saksókn í.
Með allri virðingu þá hlýtur maður að spyrja, af hverju hefur þá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu ekki klárað kæruna á hendur netsölum áfengis í ríflega fimm ár? Málið er á hraða snigils. Um er að ræða mál sem skiptir ungmenni og samfélagið allt mjög miklu máli. Meðan lögreglan heldur málinu hjá sér hefur netsalan frítt spil og grefur um sig. Staða þessi er til vansa.
Samkvæmt lögum á lögreglan að hraða málsmeðferð í kærumáli eins og unnt er. Nú verður lögreglan að klára verkið. Vonandi sigrar lýðheilsan og vernd ungmenna að lokum þannig að áfram verði unnt að reka áfengissölu á Íslandi á samfélagslegum forsendum.”

Greinin öll á vísi.is hér: https://www.visir.is/g/20252760750d/takk-starfsfolk-og-forysta-atvr

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/

(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.

Warning: Sometime people who have wante to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and then given their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this please. )