Fara í efni

VALGERÐUR HITTIR VALGERÐI FYRIR – OG NOKKRA GAMLA FÉLAGA


Valgerður Sverrissdóttir bankamálaráðherra hefur vakið nokkra athygli að undanförnu með tilfinningaþrungnum yfirlýsingum um þá þróun sem nú á sér stað á íslenskum fjármálamarkaði. Hefur hún hnjóðað nokkuð í Björgólf Guðmundsson og aðra umsvifamikla fjármálamenn og þykir þeir vera heldur betur að færa sig upp á skaftið í samfélaginu. ( Sjá einnig skrif á hriflu.is ( sjá hér um menn á röndóttum fötum) þar sem Framsóknarskríbentar draga hvergi af sér í aurkasti á nefndan Björgólf). Valgerður segir nú að sér beri að vekja athygli á vaxandi fákeppni á Íslandi auk þess sem þetta náttúrlega stríddi gegn þjóðarsálinni!

Öðru vísi mér áður brá. Valgerður Sverrisdóttir hefur aftur og ítrekað neitað að svara spurningum á Alþingi um nákvæmlega þessi efni og vísað með þjósti í markaðslögmálin sér til halds og trausts. Það sé ekki í verkahring ráðherra að skipta sér af markaðnum! Ég hef verið að dunda mér við að fletta upp ummælum ráðherrans í þessa veru í þingtíðindunum og eru þau mjög afdráttarlaus. Þannig að Valgerður, talsmaður þjóðarsálarinnar, hittir þar fyrir Valgerði ráðherra þingtíðindanna.

Síðan er náttúrlega stóra mótsögnin sem fram kemur í viðhorfum þessa ráðherra Framsóknarflokksins, annars vegar til lítt þóknanlegra hægri manna sem helmingaskiptastjórnin hefur hleypt að kjötkötlunum og hins vegar braskspesíalista Framsóknar sem fengið hafa að valsa með þjóðareignirnar og nota þær til þess að stórhagnast á. Þar horfa menn til manna á borð við Þórólf Gíslason á Sauðárkróki, eins helsta fjáröflunarmanns flokksins til áratuga, Finns Ingólfssonar, fyrrum varaformanns og Ólafs Ólafssonar eins helsta fjármálagúrús flokksins til langs tíma. Tveir hinir síðarnefndu birtust sællar minningar skælbrosandi á baksíðu Morgunblaðsins ( sjá hér ) þegar þeir höfðu handsalað kaupin á Búnaðarbankanum í árslok 2002, nokkuð sem er til umræðu þessa dagana. Þess má geta í framhjáhlaupi að Ólafur Ólafsson hefur átt í smá viðskiptum undanfarna daga, sbr. þessa frétt Morgunblaðsins. Fram kemur að hann er að kaupa hlut í eignarhaldsfélaginu Eglu fyrir 5,5 milljarða. Nafn hans kemur ekki við sögu heldur eignarhaldsfélags hans Kjalars ehf. og Kers sem hann mun eiga rúmlega 55% eignarhlut í.
Nú bíðum við spennt eftir næstu ræðu frá Valgerði bankamálaráðherra um siðferði og íslenska þjóðarsál.