Fara í efni

FRAMSÓKNARFÓLK Í FYRIRRÚMI

Um helgina fékk ég lesendabréf sem ég held að ekki sé hægt að horfa framhjá. Stefán vísar í "þá miklu umræðu sem oft sprettur upp á hinum Norðurlöndunum þegar uppvíst verður að stjórnmálamenn þar eru nátengdir fyrirtækjum. Þegar í ljós kemur að þeir eiga í fyrirtækjum sem til dæmis eru í viðskiptum við ríki eða sveitarfélög eða tengjast stjórnmálalífinu eða öðrum hætti. Ég undrast vegna þess að hér hafa fjölmiðlar ekki gert mikið úr svona tengslum." Síðan nefnir hann dæmi frá Norðurlöndunum máli sínu til stuðunigs og spyr mig hvort mér þætti"eðlilegt að fjölmiðlar beindu sjónum sínum að tengslum stjórnmálamanna hér við fyrirtækin í landinu, eða að eign stjórnmálamanna í fyrirtækjum."
Í svari mínu tók ég undir með Stefáni að bæði Alþingi og fjölmiðlar hafi vanrækt skyldur sínar í þessum efnum. Ég benti jafnframt á að það væri lykilatriði að við innrætum okkur þá afstöðu  að könnun á tengslum stjórnmála og viðskiptahagsmuna væri fullkomlega eðlileg. Þetta væri ekki spurning um hnýsni eða illgirni heldur forsenda þess að við reisum ekki þjóðfélag byggt á spillingu. Þeir stjórnmálamenn sem flæktir eru inn í viðskiptaleg hagsmunatengsl en telja sig ekki hafa neitt  að fela í þessum efnum og allar gjörðir sínar réttlætanlegar og eðlilegar, ættu sjálfir að ríða á vaðið og leggja öll sín spil á borðið.
Fyrrnefndur lesandi brást við að bragði og vék bæði að sölu bankanna og fyrirhugaðri sölu Símans og tengslum hagsmunaðila við Framsóknarflokkinn. Um sölu Búnaðarbankans sagði hann m.a.og vísaði í úttekt Morgunblaðsins frá því í febrúar 2004: "Þarna var fjallað um kaup S-hópsins á 45,8% hlut í Búnaðarbankanum. Stjórnmálamenn komu að því máli ofan, undir, til hliðar og aftan við. Þarna er líka mikið fjallað um tryggingafélagið VÍS sem er stjórnað af hægri hönd forsætisráðherra. Þarna er kominn fyrirliði S-flokksins Finnur Ingólfsson fyrrverandi iðnaðar-og viðskiptaráðherra. Ég hef ekki hugmynd um Ögmundur hvort bróðir Halldórs Ásgrímssonar er ennþá í stjórn VÍS (eins og hann var þegar Morgunblaðið birti úttekt sína í febrúar í fyrra) sem fékk að kaupa Búnaðarbankann með innlendum félögum og erlendum sjóðum en ætti stjórnarseta hans ekki að hafa gert fyrrverandi utanríkisráðherra vanhæfan til að koma með þeim afgerandi hætti að málinu á sínum tíma sem raun bar vitni? Ef stjórnarsetan tengist eign viðkomandi í Hesteyri ehf. sem Skinney-Þinganes, VÍS og Fiskiðjan Skagfirðingur áttu fyrir ári til jafns þá sýnist mér í ljósi “kjarnastarfsemi” VÍS í uppkaupum og áhrifum í KB banka að ástæða sé til að skoða mál þetta í fullri alvöru. Mér finnst líka fullkomlega eðlilegt að kanna hver eða hverjir eiga  hluti  Skinneyjar – Þinganes. Ég undirstrika að ég hef ekki hugmynd um það en ef forsætisráðherra á einhverra hagsmuna að gæta hér í gegnum síðast talda fyrirtækið þá ber að spyrja dómsmálaráðherra um það á Alþingi hvort utanríkisráðherrann fyrrverandi hafi með virkri aðkomu sinni að ákvörðunum um sölu Búnaðarbanka Íslands farið á svig við vanhæfisákvæði stjórnsýslulaga. Talsmaður fyrirtækis sem er í samstarfi við VÍS lýsti því yfir á dögunum að það fyrirtæki hefði fullan hug á að kaupa Símann. Ef forsætisráðherra eða annar stjórnmálamaður sem vélar um skilyrði sölunnar ætti nú beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta þyrfti þá ekki að kanna vanhæfi hans og hæfni til að fjalla um málið í afkimum framkvæmdavaldsins Ögmundur?"

Myndin hér að ofan
var tekin eftir að Framsóknarmenn í ríkisstjórn höfðu handsalað við flokksfélaga sína að þeir fengju ráðandi eignarhald í Búnaðarbankanum. Nýbakaðir handahafar milljarðanna voru sælir með sinn hlut. Þegar myndin birtist  á baksíðu Morgunblaðsins hlaut hún útnefningu sem mynd ársins hér á þessari síðu með umsögn sem má lesa HÉR .

Örnólfur Árnason rithöfundur kom fram í Silfri Egils á sunnudag og fjallaði um fjármálaspillingu fyrr og nú. Fórst honum það vel úr hendi, sérstaklega það sem laut að Kolkrabbanum og þeirri spillingu sem fylgdi honum. Margt mjög fróðlegt kom þar fram. Hins vegar þótti mér Örnólfur fara mildum höndum um þá spillingu sem nú gegnsýrir þjóðfélagið og er ég sannfærður um að hún er meiri en dæmi eru um áður. Örnólfur Árnason verður ekki sakaður um að leiða spillinguna hjá sér. Hann kortlagði hana og skrifaði um hana betur en flestir aðrir menn um og upp úr 1990. Eru til einstaklingar og fjölmiðlar sem hafa þrek til slíks nú? Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins sagði á nýafstöðnu þingi flokksins að Framsóknarflokkurinn hefði fólk í fyrirrúmi. Hvaða fólk? Og á hvern hátt er það haft í fyrirrúmi?

Sjá bréf Stefáns sem vitnað er í hér að framan HÉR og HÉR