Fara í efni

Fréttamynd ársins

Góð fréttamynd sýnir ekki bara þá mynd af raunveruleikanum sem hið pólitíska vald heldur að okkur til einföldunar og þæginda, fréttamyndin afruglar þá tálsýn og færir okkur raunveruleikann sjálfan. Fréttamynd ársins er fjögurra dálka baksíðumynd eftir Þorkel í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Hún sýnir Ólaf Ólafsson, forstjóra Samskipa, og Finn Ingólfsson, forstjóra VÍS, renna frá Arnarhváli eftir að hafa fengið Búnaðarbankann á kostakjörum. Þeir eru gleiðbrosandi félagarnir, enda ástæða til, og engu líkara en Ólafur Ólafsson sé að stinga á sig kvittun fyrir bankakaupin um leið og bílstjórinn ekur af stað. Grátbrosleg er fyrirsögn Morgunblaðsins til hliðar við fréttamynd ársins og kórónar reyndar baksíðuna þar sem haft er eftir forsætisráðherra að hann sé ánægður með erlenda þátttöku í kaupunum. Sigurbrosið á samskipsforstjóranum og varaformanni Framsóknarflokksins fyrrverandi ljá þeim yfirlýsingum forsætisráðherra að bankarnir hafi verið seldir á góðu verði laukrétta meiningu. Þetta er góð sala fyrir kaupandann og kjarninn í raunveruleikanum sem ljósmyndaranum tekst að miðla okkur. Á broti úr sekúndu missa þeir andlitið, Ólafur og Finnur, og við sjáum glitta í óneitanlega nokkuð drýgindalega en um leið barnslega ánægju þeirra með gjöfina. Ætli einkavæðingarnefndin og viðskiptaráðherrann hafi ekki örugglega látið listaverkasafn bankans fylgja með í kaupunum?