Fara í efni

ÚTÚRSNÚNINGAR BJÖRNS BJARNASONAR

Björn Bjarna 2014
Björn Bjarna 2014
Björn Bjarnason gagnrýnir mig harðlega fyrir að hafa verið því andvígur að vísa Rússum tímabundið úr Evrópuráðinu. Vísar hann þar í nýlega grein mína í Morgunblaðinu. Ég komist í mótsögn við sjálfan mig, segir hann, þegar ég vari við því að Ísland gerist merkisberi í átökum stórveldanna um völd og ítök en hafi þó sjálfur gagnrýnt Ísrael á útifundi fyrir framan bandaríska sendiráðið sem þáverandi innanríkisráðherra Íslands. Hafi ég ekki þar einmitt verið „ merkisberi ríkisstjórnar Íslands?", spyr Björn Bjarnason. „ Hafi ekki ræða mín miðað að því „að bjóða „stórveldi heimsins" byrginn í átökum „um völd og ítök"?"

Allt þetta sé byggt á „hrapallegum misskilningi"; segir Björn ennfremur, ég sé að „bera blak af Vladimir Pútin" og að misskilningur minn byggi á því að halda að heiminum verði breytt til betri vegar með því móti!

Í grein minni í Morgunblaðinu kemur fram að ég hafi fært rök fyrir þeirri afstöðu að vilja ekki útiloka Rússa frá starfi Evrópuráðsins. Þau rök hirðir björn Bjarnason ekki um að ræða. Þá er það beinlínis ósatt að ég hafi borið blak af Vladimir Pútín. Þvert á móti hef ég sagt að þann fyrrum yfirmann í leyniþjónustu Sovétríkjanna, KGB, verði alltaf að taka með fyrirvara. Þetta ítreka ég í fyrrnefndri Morgunblaðsgrein. Ég hef heldur aldrei sagt að ekki eigi að gagnrýna Rússa eða nokkurt annað ríki fyrir að virða ekki grunngildi Evrópuráðsins eins og skilja má á Birni.  

Ég hef þvert á móti fært það sem sérstök rök fyrir því að halda Rússum sem öðrum ríkjun inni í Evrópuráðinu að svipta ekki fólkið, sem byggir þessi ríki, réttindum sínum til að sækja yfirvaldið til saka ef svo ber undir. Fyrir fáeinum dögum birtist frétt um að stúlkur úr Pússi Riot hljómsveitinni ætluðu að sækja mál sitt fyrir Mannréttindadómstólnum í Strasboug. Það gera þær að sjálfsögðu ekki verði rússneska ríkinu vísað þaðan  út.

Evrópuráðið er vettvangur til að ræða mannréttindi og gagnrýna mannréttindabrot og dæma á grundvelli slíkra brota eftir atvikum; vettvangur til að þoka mannréttindamálum fram á við. Á meðan ég hef setið þing Evrópuráðsins hefur mikil umræða farið þar fram um mannréttindi í Rússlandi og fyrrum austantjaldsríkjum, þá ekki síst um réttindaleysi samkynhneigðra. Sú umræða hefur oft verið tilfinningaþrungin en að mínu mati mjög til góðs.

Það verður seint ofsagt hve mikilvægt það er að Evrópuráðið sé vandað í málflutningi og vinnubrögðum - sem ég tel það ekki hafa verið í þessu máli, samanber fyrri skrif mín. Síðan ítreka ég mikilvægi þess að rússneskir þingmenn séu til staðar a þingi Evrópuráðsins til þess að hlusta þar á gagnrýni okkar hinna, ekkert síður en þar eru fulltrúar Tyrklands, svo dæmi sé tekið um land sem fótum treður mannréttindi hvern dag. Tyrkneskir þingmenn eiga að vera til staðar á þingi Evrópuráðsins m.a. til þess að hlusta þar á - og eftir atvikum taka þátt í gagnrýni, einsog þeir gera margir hverjir - á sama hátt og það var til góðs að fulltrúar Ísraels voru til staðar á þingi Sameinuðu þjóðanna þegar Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra hélt þar uppi harði gagnrýni á stefnu Ísraelsríkis. Það gerði hann í nafni Íslands.

Að undanförnu hafa verið umræður um það hér á landi hvort slíta eigi stjórnmálasambandi við Ísrael. Ég virði sjónarmið þeirra sem það vilja í ljósi villimannslegra ofbeldisverka sem nú eru framin á Gasa af hálfu Ísraelsríkis. Sjálfur hef ég hins vegar hallast að því að rétt sé að halda stjórnmálasambandi en sýna hins vegar gagnrýni okkar í verki með sniðgöngu á vöru frá Ísrael,  og með hverju því móti sem við verður komið í samskiptum ríkjanna. Þá var nú sem fyrr sérstaklega við hæfi að mótmæla framgöngu Ísraels fyrir framan bandaríska sendiráðið en Ísrael hefði aldrei komist upp með ofbeldi sitt nema í skjóli Bandaríkjanna, mesta herveldis heims.

Vissulega er það rétt hjá Birni Bjarnasyni að ég gegndi embætti innanríkisráðherra þegar ég (síðast) flutti ræðu við bandaríska sendiráðið til að mótmæla skefjalausu ofbeldi Ísraelsríkis. Vissulega má til sanns vegar færa að í ljósi stöðu minnar hafi ég verið þar sem merksiberi Íslands. En viljum við ekki að Ísland verði merkisberi gegn ofbeldi, merkisberi mannréttinda?  Ísland má hins vegar aldrei verða handbendi stórvelda í átökum þeirra í milli um þeirra völd, um þeirra ítök og þeirra hagsmuni og gildir þá einu hvort um er að ræða Rússland, Bandaríkin, Kína, Evrópusambandið eða önnur ríki og ríkjasambönd.

Auðvitað má öllum ljóst vera af lestri greinar minnar í Morgunblaðinu, sem Björn Bjarnarson vísar til, að þetta er megininntakið í málflutningi mínum. Ef menn rembast mikið má eflaust með útúrsnúningum kreista út einhvern annan skilning. Í slíkum útúrsnúningum hefur Björn Bjarnason áratuga æfingu þannig að þar kemur fátt á óvart.

En fyrir þau sem vilja dæma fyrir sig eru hér slóðir, í fyrsta lagi á skrif Björns Bjarnasonar, í örðu lagi á ívitnaða grein mína í Morgunblaðinu, í þriðja lagi rökstuðning minn í Strasbourg og í fjórða lagi tilvísun til útifundarins við bandaríska sendiráðið sem Björn hefur fyrr og nú gagnrýnt.    

Björn Bjarnason skrifar: http://evropuvaktin.is/i_pottinum/33783/

Grein mín í Morgunblaðinu: https://www.ogmundur.is/is/greinar/island-thatttakandi-i-nyju-koldu-stridi

Rökstuðningur fyrir afstöðu í Strasbourg: https://www.ogmundur.is/is/greinar/kaldastridstonar-i-evropuradnu

Útifundurinn sem Björn Bjarnason vísar til við bandaríska sendiráðið í nóvember 2012: https://www.ogmundur.is/is/greinar/avarp-vid-sendirad-sleggjan-og-stedjinn