Fara í efni

UNA MARGRÉT MINNIST MIRJAM

Í tónlistarþætti Unu Margrétar Jónsdóttur, Á tónsviðinu, fimmtudaginn sjötta júní, var minnst Mirjam Ingólfsson, sellóleikara en hún andaðist í ágúst í fyrra aðeins 49 ára gömul.
Foreldrar Mirjam voru Ketill Ingólfsson og Úrsúla Ingólfsson Fassbind. Ketill og Úrsúla léku bæði á píanó og segir Una Margrét í frábærum þætti sínum um Mirjam að það hafi ekki verið langt fyrir hana að sækja tónlistarhæfileikana. Þá hafi systir hennar Judith, ári eldri, einnig verið «bráðþroska í tónlist».

Una Margrét greinir frá því að fjölskyldan hafi flust til Bandaríkjanna í byrjun níunda áratugarins en eldri kynslóð Íslendinga rekur eflaust minni til frétta af þeim systrum því kornungar komu þær fram í sjónvarpi og útvarpi á Íslandi og prentmiðlar vöktu athygli á þessum undrabörnum.

Að undanförnu hef ég dvalið í Washington DC og vildi svo til að Judith Ingólfsson hélt einleikstónleika í borginni sem ég sótti og þótti mikið til um.

Ástæða er til að geta þess að Judith Ingólfsson verður með tónleika í Hannesarholti sunnudaginn 16. júní ásamt eiginmanni sínum Vladimir Stoupel píanóleikara.

Menn deila stundum um Ríkisútvarpið, hvers virði það sé. Margt má gagnrýna hjá RÚV. Mér varð hins vegar hugsað til þess þegar ég hlýddi á þátt Unu Margrétar Jónsdóttur að þótt það væri ekki nema vegna þátta á borð við þennan þátt hennar, þá hefði Ríkisútvarpið sannað gildi sitt.

Hér er frásögn Unu Margrétar Jónsdóttur á menningarvef Ríkisútvarpsins:
https://www.ruv.is/frettir/menning-og-daegurmal/2024-06-04-mirjam-ingolfson-selloleikari-nylega-latin-414892

Og hér er sjálfur þátturinn sem verður aðgengilegur fram í byrjun september:

https://www.ruv.is/utvarp/spila/a-tonsvidinu/23801/7hsfgo

---------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.