Fara í efni

UM SKYNSEMI NORRÆNA FJÁRFESTINGARBANKANS


Lögmál fjármálaheimsins eru stundum torskilin. Því blankari sem kúnni fjármálastofnana er, hvort sem er fólk eða fyrirtæki,  þeim mun verr er að honum búið. Þannig eru þeir viðskiptaaðilar sem komnir eru í greiðsluþrot látnir greiða dráttarvexti sem eru, einsog kunnugt er, talsvert hærri en vextir sem þeir greiða sem eru aflögufærir.
Þessir ofurvextir eru eflaust ætlaðir sem víti til varnaðar, eins konar refsivöndur. Þann vönd reiðir nú Norræni fjárfestingabankinn, NIB, á loft yfir fjárvana sveitarfélögum og orkufyrirtækjum á Íslandi.
Fréttablaðið greinir okkur frá því að vextir verði nú hækkaðir á hrunþjóðina enda sé lánshæfismat okkar nú í lágmarki. NIB réttlætir eflaust gjörðir sínar með tilvísan í umtalsvert tap á lánveitingum til Íslands. Opinbera skýringin er lágt lánshæfismat. (https://www.ogmundur.is/is/greinar/matsfyrirtaeki-verkfaeri-fjarmagnsins )
En hversu skynsamleg er þessi ráðstöfun? Gerir hún lántakendurna líklegri til að geta staðið við skuldbindingar sínar? Varla.
Hversu réttlát er þessi ákvörðun? Varla mjög réttlát.
En hverjir skyldu vera handhafar þessa sérkennilega réttlætis? Það eru Norðurlandaþjóðirnar og Eystrasaltsríkin. Saman eigum við NIB. Skyldu þetta vera þumalskrúfur úr Icesave verkfæraboxinu? Af sama meiði og "hjálpin" frá AGS og Brussel? Kannski hefndaraðgerðir vegna tapaðra útlána NIB á Íslandi, sem vissulega voru gríðarleg á síðasta ári? Eða er þetta bara vinnulagið í fjármálaheiminum - úr öllum tengslum við allt sem við flest köllum heilbrigða skynsemi?
Væri ekki rétt að fjölmiðlar grennsluðust nánar fyrir um þetta? Að þeir spyrðu eigendurna, norræna ráðherra, sem koma reglulega saman til að lýsa því yfir hve mikil vinátta ríki okkar í millum, hvað valdi því að nú þurfi að herða að fjárvana íslenskum sveitarfélögum?