Fara í efni

MATSFYRIRTÆKI: VERKFÆRI FJÁRMAGNSINS?


Á Íslandi er til nóg af peningum. Íslenskum peningum, ekki síst lífeyrissjóðanna. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn talar hins vegar sínkt og heilagt um nauðsyn á erlendu fjárfestingarkapítali. Viðhlæjendur sjóðsins taka undir þetta að hætti pólitískra vélmenna: "Svona er þetta víst alls staðar hjá þjóðum í kreppu" Fyrst er skorið niður, svo koma erlendu fjárfestarnir til að vitja auðlinda á gjafaprís.

Bjóst forstjóri Magma við fagnaðarlátum?

Í þessum erindagjörðum kom hingað til lands kúlulánarinn Ross Beatty, forstjóri Magma. Nú leyfir hann sér að skamma Íslendinga í fjölmiðlum fyrir að kokgleypa ekki áform hans um að komast yfir orkugeirann: "Hann undrast hversu hörð viðbrögð það vakti er fyrirtækið keypti hlut í HS orku" (Morgunblaðið 12/12). Menn hefðu talað - segir hann í sama blaði - eins og hann væri "að stela auðlindum landsins". Það er ekkert skrýtið Ross. Nákvæmlega þetta eru þið hjá Magma að reyna að gera.

Vilja græða á þjóð í þrengingum

Og Magma er ekki eitt á báti. Fjárfestar renna nú hýru auga til Íslands á meðan landið er á hliðinni, verðgildi gjaldmiðilsins í lágmarki og lausafjárvandi í orkugeiranum.
Nákvæmlega þetta eru hættulegustu aðstæður sem til eru og ætti það að vera forgangsverkefni stjórnvalda númer eitt að setja löggjöf til varnar auðlindunum, að koma í veg fyrir að ábyrgðarlausir Íslendingar selji frá okkur auðlindirnar í hendur alþjóða-kapitalsins.

Gefa einkunn fyrir undirgefni

Síðan er það einsog til að bíta höfuðið af skömminni sem nú heyrist frá  matsfyrirtækjunum svokölluðu. Þau láta nú án afláts frá sér heyra til að hrekja Íslendinga til undansláttar. Í rauninni er þetta ekkert undarlegt því þetta eru í reynd handlangarar fjárfestanna. Matsfyrirtækin gefa þjóðfélögum og einstökum fyrirtækjum einkunn fyrir hve vel þau standa sig í þjónustu við þá.

Ef þið hlýðið ekki fáið þið að blæða!

Haft var eftir einu slíku fyrirtæki í fréttum í gær að komi ekki til fjárfestinga í stóriðju á næstu árum falli Ísland og íslensk orkufyrirtæki í ruslflokk (hádegisfréttir RÚV 12/12). Rusl-flokkur þýðir að lán verða síður aðgengileg og dýrari. Underfostået: Þegar Íslendingar hlýða álrisum vænkast þeirra hagur! Ef ekki, þá má þjóðin biðja fyrir sér. Með öðrum orðum, verkelg leiðsögn til að hjálpa til við að ná einkavæðingaráformum Aljóðagjaldeyrissjóðsins. Heldur þykir mér þetta vera ruslaraleg framkoma.