Fara í efni

ÞARF AÐ ÞJÓÐNÝTA GEYSISSVÆÐIÐ?

GEYSIR 2
GEYSIR 2

Hugmyndir Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, ferðamálaráðherra, um gjaldtöku við eftirsóttar náttúruperlur, hafa greinilega komið róti á huga nokkurra landeigenda, sem telja sig nú geta makað krókinn með gjaldtöku. Yfirlýsingar ýmissa landeigenda bera ekki beinlínis vott um jafnvægi hugans.

Ég hygg að flestir landsmenn telji rukkun fyrir að skoða landið, sé mikilvægt prinsíppmál, sem kalli á almenna umræðu áður en ákvarðanir eru teknar. Þá hlýtur að vera mikilvægt að farið sé að lögum.

Fyrir þetta virðast landeigendur við Geysi  ekki gefa mikið. „Við höldum okkar striki og erum ósammála sjónarmiðum embættismanna í umhverfisráðuneytinu um að gjaldtaka sé andstæð lögum. Þetta er hins vegar eigendamál og við erum ekki í skoðanaskiptum við embættismenn."  Þetta segir Garðar Eiríksson, talsmaður landeigenda við Geysi í samtali við Morgunblaðið 17. janúar. Hann segir ríkið aðeins fara með þriðjung eignarhalds á hverasvæðinu. Ríkið er þar með í minnihluta, segir hann og „ræður því ekki ferðinni." Garðar Eiríksson bætir því síðan við að hann telji  „ríkisvæðingu á ferðamannastöðum almennt ekki eftirsóknarverða."

Svona trakteringar gerast nú tíðari í umræðu hér á landi. Maður sem telur sig eiga hlut í Dettifossi, Ólafur Jónsson, skrifaði grein í Morgunblaðið nýlega og lýsir svipuðum viðhorfum (sjá https://www.ogmundur.is/is/greinar/rukkad-fyrir-ad-draga-andann ).

Síðan þekkjum við rukkunarskúrinn við Kerið í Grímsnesi (sjá https://www.ogmundur.is/is/greinar/vid-eigum-oll-geysi-og-lika-kerid https://www.ogmundur.is/is/greinar/ologmaet-rukkun-vid-kerid  https://www.ogmundur.is/is/greinar/rukkarar-svari ).

Það sem endurspeglast í þessum viðhorfum er eftirfarandi:
a) Eigendur telja sig ekki þurfa að ræða þessi mál við almenning, þetta sé „eigendamál".
b) Það er til óþurftar að ríkið komi að ferðmannastöðum á borð við Geysi, Dettifoss og aðrar náttúruperlur.

En hvað gerum við sem teljum okkur eiga þetta land í þeim skilningi að náttúran sé okkar allra að njóta? Hvað gerum við sem viljum ekki láta tala til okkar eins og þessir menn gera - með því að virða að engu rétt samfélagsins og lögin í landinu? Ætlum við að láta nokkra ósvífna landeigendur hafa af okkur náttúruna til þess að gera sér hana að féþúfu?

Geysissvæðið er ein ástsælasta náttúruperla landsins. Ef ofbeldi landeigenda linnir ekki hlýtur að koma til álita að þjóðnýta svæðið.´
(sjá: https://www.ogmundur.is/is/greinar/geysir-tilheyrir-thjodinni-enntha
 https://www.ogmundur.is/is/greinar/kari-skrifar-einkaeignar-rettur-og-einkaleyfi-a-utsyni
https://www.ogmundur.is/is/greinar/geysir-og-god-bretlandstengsl )