Fara í efni

GEYSIR TILHEYRIR ÞJÓÐINNI... ENNÞÁ


Náttúruauðlindir Íslands tilheyra þjóðinni. Hið sama á við um náttúruperlur landsins, fossana, hverasvæðin, jöklana, fjöllin og firnindin. Einstaklingar hafa þó í tímans rás slegið eign sinni á auðlindir og náttúruperlur. Dæmin hræða. Kvótakerfið í sjávarútvegi hefur verið notað til þess að veita milljörðum á milljarða ofan niður í vasa tiltekinna aðila á kostnað sjómanna, fiskverkafólks og heilla byggðarlaga.
Það er dapurlegt til þess að hugsa að ríkisstjórnir sem farið hafa með völdin á Íslandi undanfarin ár skuli hafa gert allt sem í þeirra valdi hefur staðið til þess að styrkja einkaeignarréttinn í sessi í stað þess að vinda ofan af honum þegar um er að ræða náttúruauðlindir og náttúruperlur sem eðli máls samkvæmt tilheyra þjóðinni, eru þjóðareign.

Áminning um þessi viðhorf var grein sem Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, og fyrrverandi iðnaðarráðherra, ritaði í dagblað nýlega. Hún taldi af og frá að ætla að auðlindirnar gætu allar verið þjóðareign enda væru þær margar í einkaeigu. En ætti verkefnið þá ekki að vera að vinna að almannahag og beina lagasmíðinni og þar með þróuninni í farveg þar sem almannahagur er hafður að leiðarljósi?

Sú var tíðin að Geysir í Haukadal var „í eigu“ útlendinga.  Svo var á árunum 1894 til 1935. „Eignarrétt“ sinn notuðu þeir m.a. til þess að selja aðgang að þessari náttúruperlu Íslands! Sigurður Jónsson keypti Geysi um miðjan fjórða áratug síðustu aldar af hinum erlendu mönnum og færði íslenska ríkinu að gjöf. Þar var höfðingi á ferð! Og framsýnn maður!! Þegar þetta var rifjað upp í mín eyru um daginn þótti mér tilhugsunin svo sláandi að ég varð að deila henni með lesendum síðunnar.

Hver skyldi vera lærdómurinn sem af þessu má draga? Hann er þessi: Ef við ekki stöndum vörð um náttúruperlur og auðlindir Íslands til lands og sjávar þá verða þær frá okkur teknar og við gætum staðið frammi fyrir því að þurfa að gera okkur að góðu að fá aðeins notið þeirra fyrir náð og miskunn – og gegn gjaldi, þess vegna til erlendra auðkýfinga.